Stjórnsýsla

Stefna og samþykktir

Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar

Samþykkt í bæjarstjórn 23. apríl 2008

Hlutverk jafnréttisnefndar

Jafnréttisnefnd Seltjarnarness starfar í umboði bæjarstjórnar að jafnréttismálum í bæjarfélaginu.

Jafnréttisnefnd hefur með höndum jafnréttismál innan bæjarfélagsins. Nefndin skal vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn í málum er varða jafnrétti kvenna og karla. Einnig skal nefndin fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum, þ. m. t. sértækum aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Jafnréttisnefnd endurskoðar jafnréttisáætlun bæjarins í upphafi hvers kjörtímabils og leggur fyrir bæjarstjórn eigi síðar en ári eftir kosningar.

Jafnréttisáætlunin er unnin samkvæmt 12. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Áætlunin tekur til verkefna jafnréttisnefndar, stjórnkerfis og starfsmannastefnu bæjarins, samspils atvinnu- og fjölskyldulífs, kannana og rannsókna, fræðslu og leiðsagnar, kynningar og endurskoðunar.

Markmiðið með áætluninni er að tryggja jafnrétti kynjanna og stuðla að kynjasamþættingu í allri starfsemi bæjarfélagsins Tilmælum er einnig beint til annarra aðila að tryggja jafnrétti.

Leiðir til þess að ná markmiðunum er að finna í áætluninni.

 

Umfang jafnréttisáætlunar og framkvæmd

Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar nær til stjórnsýslu bæjarins og starfsmanna hans.  Þá nær áætlunin einnig til þeirrar starfsemi og þjónustu sem veitt er á vegum stofnana bæjarins.  Auk þess eru tilmæli í áætluninni sem beint er til fyrirtækja og starfsemi sem er óháð rekstri bæjarins. 

Jafnréttismál heyra til félagssviðs Seltjarnarnesbæjar. Til þess að framfylgja jafnréttisáætlun og framfylgja verkefnum á sviði jafnréttismála skal gert ráð fyrir framlagi á fjárhagsáætlun á ári hverju.  Jafnréttisnefnd kallar til ráðgjafar og samstarfs þá starfsmenn sem hún telur nauðsynlegt óháð því á hvaða sviði þeir starfa.  Slík vinnubrögð auðvelda samþættingu jafnréttissjónarmiða við aðra meginstarfsemi bæjarfélagsins.

Því er beint til framkvæmdastjóra sviða bæjarins að sjá til þess að marmið jafnréttisáætlunarinnar nái fram og að þeir stuðli að auknu jafnrétti kynjanna í allri starfsemi á vegum sviðanna.

 

Nefndir og ráð

Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Seltjarnarness skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki lægra en 40% hjá því kyni sem hallar á þegar fleiri en 3 eiga sæti í viðkomandi nefnd.

 

Jafnræði á vinnustöðum

Á vinnustöðum skal eftir föngum tryggja jafnræði kynjanna.  Stjórnendur stofnana skulu gæta þess að jafnrétti endurspeglist í ákvörðunum þeirra við ráðningar og uppsagnir starfsfólks, tilfærslur í störfum og viðfangsefnum þeim er starfsmönnum er ætlað að sinna.

Stefnt skal að svipuðu hlutfalli karla og kvenna á vinnustöðum bæjarins.  Á vinnustöðum þar sem annað hvort kynjanna er í miklum minnihluta skal leitast við að rétta hlut þess sem halloka fer við nýráðningar.

 

Auglýsingar og ráðningar starfsmanna

Lausar stöður hjá bæjarfélaginu skulu ávallt auglýstar til umsóknar.  Auglýsingar skulu vera aðgengilegar öllum.  Á þeim vinnustöðum þar sem annað kynjanna er ráðandi skal koma fram hvatning til þess kyns sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein að sækja um laus störf.  Halda skal í heiðri þeirri reglu að þeir sem ráðnir eru uppfylli þær faglegu kröfur sem gerðar eru til starfsins.  Við ákvörðun launa og annarra starfskjara skal þess gætt að mismuna ekki eftir kynferði, sbr. 19. gr. laga nr. 10/2008. Starfsmönnum er ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

 

Samspil atvinnu og fjölskyldulífs    

Stuðla skal að sem bestu samspili atvinnu og fjölskyldulífs meðal starfsmanna bæjarfélagsins.  Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.  Til að auðvelda þetta skal starfsfólk eftir því sem við verður komið eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma og/eða breyttum starfshlutföllum. Tekið skal tillit til starfsmanna sem þurfa að taka á sig aukna fjölskylduábyrgð vegna óviðráðanlegra og eða brýnna fjölskylduaðstæðna.

Aðrir vinnuveitendur í bæjarfélaginu eru hvattir til þess að gera slíkt hið sama.

Tekið skal tillit til  kvenna  á meðgöngutíma og foreldra við umönnun ungbarna, sbr. 21. gr. laga nr. 10/2008

Starfsmenn bæjarfélagsins skulu hafa möguleika á sveigjanlegu orlofi eftir því sem við verður komið.

 

Kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Kynbundin áreitni og/eða kynferðisleg áreitni er með öllu óheimil á vinnustöðum bæjarins. Starfsmenn bæjarins og forsvarsmenn íþrótta- og æskulýðsstarfs bera ábyrgð á að þess sé gætt að starfsfólk, nemar, iðkendur og aðrir notendur verði ekki fyrir kynferðislegu áreiti né kynbundnu áreiti. Verði uppvíst um slíka hegðun ber að gera viðkomandi yfirmanni eða trúnaðarmanni viðvart og skal endir bundinn á hana. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni. Alvarleg eða endurtekin áreitni varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi.

 

Kannanir og rannsóknir

Jafnréttisnefnd skal halda áfram rannsóknum á stöðu kynjanna í bæjarfélaginu.  Í þessu skyni skal aflað tölfræðilegra upplýsinga um stöðu karla og kvenna á ýmsum skilgreindum sviðum. Skal miðað við að gera það einu sinni á kjörtímabili. Þetta skal gert meðal annars með kyngreindum tölfræðilegum upplýsingum og annarri faglegri nálgun á viðfangsefninu. 

 

Fræðsla og leiðsögn

Jafnréttisnefnd skal hvetja til fræðslu um jafnréttismál og leiðir til þess að jafna stöðu karla og kvenna. Öllum starfsmönnum bæjarins skal standa slík fræðsla til boða.  Einnig skulu þeir eiga rétt á ráðgjöf og leiðsögn við einstök mál.

Jafnréttisnefnd skal veita öllum Seltirningum sem þess óska fræðslu og aðstoð í jafnréttismálum.  Einnig skal nefndin leiðbeina íbúum við kærur til kærunefndar jafnréttismála.

 

Jafnrétti meðal barna og unglinga

Sérstök rækt skal lögð við jafnréttisfræðslu hjá börnum á leikskóla- og grunnskólaaldri.  Á þessu æviskeiði mótast viðhorf einstaklinganna til grundvallarþátta daglegs lífs.

Jafnréttisnefnd beinir því til skólayfirvalda á öllum skólastigum og til forstöðumanna íþrótta- og æskulýðsstarfs að veitt sé fræðsla um jafnréttismál.  Lögð verði áhersla á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. 

Gæta skal kynjasamþættingar við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.

Í náms- og starfsfræðslu í skólum skal lögð sérstök áhersla á að kynna bæði drengjum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- og kvennastörf.

Þess skal sérstaklega aðgætt að kennslu- og námsgögn sé þannig gerð að kynjum sé ekki á nokkurn hátt mismunað.

Ríkari áhersla verði lögð á sjálfstyrkingu sem hluta af námi á öllum skólastigum. 

Þess skal gætt í íþrótta- og æskulýðsstarfi bæjarins að kynjum sé ekki á nokkurn hátt mismunað.

 

Jafnréttisviðurkenning

Jafnréttisnefnd f.h. bæjarstjórnar Seltjarnarness veitir einu sinni á hverju kjörtímabili viðurkenningu til þeirrar stofnunar eða fyrirtækis í bæjarfélaginu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunarinnar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki.

 

Endurskoðun og kynning

Jafnréttisáætlunin skal send inn á hvert heimili, fyrirtæki og stofnanir bæjarins og aðgengileg á heimasíðu bæjarins.

Áætlunina skal endurskoða í upphafi hvers kjörtímabils.

 

Greinargerð um aðdraganda jafnréttisáætlunar.

Jafnréttisnefnd Seltjarnarness fer með málefni jafnréttismála samkvæmt lögum nr. 10/2008 og samkvæmt jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar sbr. samþykkt Bæjarstjórnar Seltjarnarness um breytingar á bæjarmálasamþykkt Seltjarnarness þann 28. júní 2006

Jafnréttisnefnd Seltjarnarness hefur samþykkt að vísa til samþykktar bæjarstjórnar nýrri jafnréttisáætlun Seltjarnarness. Þetta er þriðja jafnréttisáætlun bæjarfélagins. Sú fyrsta var samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarness 13. desember 2000. Þá áætlun leysti af hólmi endurskoðuð áætlun sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 25. maí 2005. Við gerð þessarar áætlunar var stuðst við fyrri áætlanir og einnig ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem samþykkt voru á Alþingi 26. febrúar 2008. (nr.10/2008) Í 2. mgr. 12. gr. laganna segir:

“Hver jafnréttisnefnd skal hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára, þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlanir skulu lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.”

Jafnréttisnefnd mun á næstunni hefja vinnu framkvæmdaáætlunar sem er nýmæli í lögunum.

Jafnréttisætlun sú sem nú liggur fyrir tekur til verkefna jafnréttisnefndar, stjórnkerfis og starfsmannastefnu bæjarins, samspils fjölskyldu- og atvinnulífs, kynbundinnar áreitni og kynferðislegrar áreitni, fræðslu í skólum og öðrum stofnunum fyrir börn og unglinga, kannana og rannsókna, fræðslu og ráðgjafar, jafnréttisviðurkenningar og kynningar.

Meðal nýrra atriða í þessari áætlun eru tilmæli til framkvæmdastjóra sviða bæjarfélagins að sjá til þess að ná fram markmiðum áætlunarinnar og að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna í allri starfsemi bæjarfélagsins. Aukin áhersla er lögð á sem jafnasta skipan kynjanna í nefndir, ráð og stjórnir hjá Seltjarnarnesbæ. Vakin er athygli á kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og ábyrgð allra aðila gagnvart slíku athæfi. Huga skal sérstaklega að kynjasamþættingu við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla, uppeldis, íþrótta- og tómstundastarfi.

Markmið með áætluninni er að tryggja jafnrétti kynjanna í allri starfsemi bæjarfélagsins.  Tilmælum er einnig beint til annarra aðila að tryggja jafnrétti.  Leiðir til þess að ná markmiðunum er að finna í áætluninni.

Skilgreingar á eftirfarandi hugtökum í jafnréttisáætluninni eru miðaðar við orðskýringar í  2. gr. laga nr. 10/2008:

Kynbundin áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Kynjasamþætting: Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.

Laun: Almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.

Kjör: Laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.


 

Senda greinGott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: