Stjórnsýsla

Stefna og samþykktir

Fjölskyldustefna Seltjarnarnesbæjar

Ávarp bæjarstjóra

Íslenskt samfélag hefur tekið stórstígum breytingum undanfarna áratugi. Lengi vel þótti það fremur einsleitt og gegnsætt í samanburði við önnur lönd en sú er ekki raunin lengur. Nú á dögum búa Íslendingar í fjölmenningarlegu og hraðskreiðu nútímasamfélagi þar sem sýn okkar á tilvist og hlutverk fjölskyldunnar hefur tekið umtalsverðum breytingum. Nútímafjölskyldan í sinni margvíslegu og fjölbreyttu mynd gegnir þó sem fyrr lykilhlutverki í samfélaginu og lífi hvers og eins. Það hefur lengi verið stefna Seltjarnarnesbæjar að skapa íbúum bestu skilyrði til vaxtar og þroska og þannig stuðla að auknum lífsgæðum Seltirninga. Hæfir einstaklingar og ánægðir bæjarbúar leggja grunninn að því öfluga og eftirsóknarverða samfélagi sem Seltjarnarnes er orðið í augum margra landsmanna.

Fjölskyldustefna Seltjarnarness sem nú liggur fyrir skapar heildstæða og metnaðarfulla umgjörð um þjónustu Seltjarnarnesbæjar en jafnframt um það hvernig bæjarstjórn hyggst búa að þessari grunneiningu samfélagsins til framtíðar. Fjölskylduvænt samfélag byggir á jafnræði, lýðræði og virðingu fyrir einstaklingum. Fjölskyldustefnan mun liggja til grundvallar í allri starfsemi bæjarfélagsins og stofnanir jafnt sem nefndir bæjarins munu ætla henni stað í starfsemi sinni og daglegri þjónustu við íbúa. Á þann hátt getur bæjarfélagið lagt sitt af mörkum og stuðlað að því að fjölskyldur á Seltjarnarnesi njóti fyrsta flokks búsetuskilyrða og lífskjara hverju sinni.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri

Formáli

Fjölskyldustefna Seltjarnarnesbæjar var unnin af hópi fólks sem bæjarstjórn ákvað að skipa til verksins þann 9. apríl 2003. Í þennan hóp voru skipuð Guðrún B. Vilhjálmsdóttir, formaður hópsins, Bjarni Torfi Álfþórsson, Edda Kjartansdóttir, Berglind Brynjólfsdóttir og Styrmir Þór Bragason. Sigrún Hv. Magnúsdóttir félagsráðgjafi starfaði með hópnum. Á seinni stigum tóku Sigrún Edda Jónsdóttir og Snorri Aðalsteinsson einnig þátt í vinnu starfshópsins. Hópurinn hélt 11 fundi og átti samstarf við fjölmarga aðila í bæjarfélaginu um mótun stefnunnar. Óskað var eftir hugmyndum og tillögum frá íbúum, félögum og stofnunum við gerð hennar. Hafa margir lagt hönd á plóginn með ábendingum og tillögum. Stefnan var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar þann 12.apríl. 2006.

Inngangur

Fjölskyldan er hornsteinn hvers samfélags. Stefna Seltjarnarnesbæjar er að hlúa eins vel að fjölskyldunni, mikilvægustu grunneiningu hvers bæjarfélags, og hægt er. Í fjölskyldustefnu Seltjarnarnesbæjar eru sett fram markmið um hvernig stuðla skuli að fjölskylduvænu samfélagi sem þjóni og taki mið af þörfum íbúanna auk þess að gefa þeim kost á að njóta sín sem einstaklingar og heild. Í framhaldi af hverju markmiði er skýrt frá leiðum til að ná markmiðinu.

Með fjölskyldustefnu þessari er lagður grunnur að því hvernig best verði búið að fjölskyldum á Seltjarnarnesi. Fjölskyldustefnunni er ætlað að hafa áhrif á umgjörð og velferð fjölskyldna, hún stuðlar að minna álagi á fjölskyldur og er ætlað að hafa forvarnaráhrif og efla lífsgæði íbúanna. Hún styður foreldra við uppeldi barna sinna og skapar þeim stöðugt og styðjandi umhverfi. Góð aðstaða barna og unglinga til náms, tómstunda og íþrótta, þar sem þeim er tryggt öryggi, er afar mikilvæg bæði fyrir foreldrana og einnig gagnvart börnum sem búa að því á fullorðinsárum. Ákjósanleg skilyrði fjölskyldna styrkja þrótt þeirra og hæfni þeirra til að vaxa af vanda frekar en að bugast.

Síðustu áratugi hafa orðið miklar breytingar á fjölskyldum og hefur stórfjölskyldan, þar sem þrír ættliðir bjuggu saman, oftast í dreifbýli, nánast horfið. Kjarnafjölskyldan hefur einnig hopað og er margs konar fjölskyldugerðir að finna í samfélagi nútímans. Margir kjósa einnig að búa einir og höfðar fjölskyldustefnan einnig til þeirra.

Meginmarkmið fjölskyldustefnunnar eru

  • að þróa samfélagslega umgjörð sem leggur áherslu á fjölskylduna.
  • að skapa sem best skilyrði til þess að foreldrar geti sinnt uppeldi og þörfum barna sinna.
  • að bjóða börnum og unglingum ákjósanlegar aðstæður til menntunar og að efla félagsþroska.
  • að veita foreldrum jöfn tækifæri til að sinna umönnun og fjölskylduábyrgð.
  • að samræma þjónustu leik- og grunnskóla við íþróttaiðkun, tónlistarnám og tómstunda- og félagsstarf.
  • að stuðla að aukinni útivist, hreyfingu og heilbrigðu líferni fjölskyldna með góðu aðgengi um óbyggð svæði og náttúruperlur.
  • að styðja aldraða á þann hátt að þeir geti haldið eigið heimili eins lengi og heilsa þeirra leyfir.
  • að vinna markvisst forvarnarstarf gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og hvetja til heilbrigðra lífshátta.
  • að styðja fjölskyldur og veita ráðgjöf um uppeldi barna.
  • að álagningu gjalda bæjarsjóðs sé stillt í hóf og kappkostað að veita markvissa og góða þjónustu.
Senda greinGott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: