Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Þjónustustefna

Þjónustustefna Seltjarnarnesbæjar

Þjónustustefna Seltjarnarnesbæjar 5,12 mb

Ávarp bæjarstjóra

Kæri Seltirningur.

Velkominn á Seltjarnarnesið. Með þessum bæklingi vil ég upplýsa þig um helstu þjónustu bæjarins. Ég vona að þessar upplýsingar komi þér að gagni.

Seltjarnarnes hefur verið mjög eftirsóknarverður staður til að búa á, enda rómað fyrir útivistarsvæði og öfluga þjónustu.

Á Seltjarnarnesi eru 95% íbúa – fleiri en níu af hverjum 10 -- ánægðir með búsetuskilyrðin, samkvæmt árlegri þjónustukönnun Capacent meðal sveitarfélaga landsins.

Seltjarnarnesbær er með eitt allra lægsta skuldahlutfall sveitarfélaga landsins, þó að skattar á íbúa séu óvíða lægri. Rekstur bæjarfélagins er traustur, með því allra besta sem þekkist á landsvísu.

Skólamál eru forgangsmál Seltirninga og öflugt forvarnastarf hefur skilað þeim árangri að vímuefnavandi er nánast óþekktur meðal ungs fólks á Seltjarnarnesi.

Ég vil því hvetja þig, kæri lesandi, til að kynna þér þjónustu stofnana bæjarins. Ég vil einnig benda á heimasíðu bæjarins og bæjarblaðið „Nesfréttir“ þar sem fram koma upplýsingar og fréttir um helstu mál er okkur varða.

Með öflugri þjónustu og forvarnastarfi tel ég okkur í sameiningu geta tryggt öryggi og vellíðan allra á Seltjarnarnesi til framtíðar, eins og best verður á kosið.

Kær kveðja,

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri

 

Inngangur

Í Seltjarnarnesbæ er lögð áhersla á að búa Seltirningum öruggt og vistlegt umhverfi og að veita einstaklingum og fjölskyldum faglega þjónustu. Sérstök áhersla er lögð á skóla í fremstu röð, góða aðstöðu til að stunda útivist, íþróttir og tómstundir, fjölbreytt menningarlíf og velferð íbúa. Þjónustustefna Seltjarnarnesbæjar nær til skóla og dagvistunar, íþrótta- og frístundastarfs, velferðarmála, skipulags- og umhverfismála, menningarmála, samgangna og upplýsinga er varða starfsemi bæjarins. Þjónusta bæjarins við íbúana myndar samfélagslega umgjörð og styður við lífsgæði þeirra. Hér er greint frá því hvernig staðið er að þjónustu á vegum Seltjarnarnesbæjar eftir málaflokkum, auk þess sem fjallað er um alla starfsemi á vegum bæjarins á heimasíðunni www.seltjarnarnes.is.

Samþykkt um stjórn Seltjarnarnesbæjar nr. 831/2013

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/315

Skólar og dagvistun

http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menntun/

Á Seltjarnarnesi er starfandi leikskóli, grunnskóli og tónlistarskóli, auk þess sem sveitarfélagið niðurgreiðir að hluta kostnaðar við þjónustu vegna daggæslu í heimahúsum.

  • Leikskóli Seltjarnarness við Suðurströnd.
  • Grunnskóli Seltjarnarness: Mýrarhúsaskóli við Nesveg og Valhúsaskóli við Skólabraut.
  • Tónlistarskóli Seltjarnarness við Skólabraut.

Áhersla er lögð á gott innbyrðis samstarf leik-, grunn- og tónlistarskóla, sem og samstarf þeirra við íþróttafélagið Gróttu, við að stuðla að samfelldum skóladegi yngri barna svo að þau geti lokið íþróttaæfingum og tónlistarnámi fyrir lok venjulegs vinnudags foreldra. Matseðlar leik- og grunnskóla eru samræmdir.

Grunnskóli  http://www.grunnskoli.is/

Grunnskóli Seltjarnarness starfar skv. lögum um grunnskóla og reglugerðum þeim tengdum. Hann heyrir undir Fræðslusvið Seltjarnarnesbæjar. Skólinn er deildaskiptur grunnskóli með yngsta stig og miðstig (1.–6. bekk) og unglingastig (7.–10. bekk). Í Grunnskóla Seltjarnarness er nemandinn í brennidepli, líðan hans og þarfir. Í skólanum er lögð áhersla á að nemendur hafi gleði af námi í hvetjandi umhverfi sem virkjar frumkvæði þeirra, hugvit og sköpunargáfu. Einkunnarorð skólans eru virðing, ábyrgð og vellíðan og er lögð áhersla á að þessi gildi einkenni skólastarfið. Í skólanum er boðið er upp á lengda viðveru fyrir börn í 1.–4. bekk í Skólaskjóli / frístund, auk þess sem boðið er upp á lengda viðveru að auki fyrir fötluð börn og unglinga í 5.–10. bekk í samstarfi við félagsmiðstöðina Selið.

Leikskóli http://leikskoli.seltjarnarnes.is/

Leikskóli Seltjarnarness starfar samkvæmt lögum um leikskóla og reglugerðum þeim tengdum. Skólinn starfar á tveimur starfsstöðvum sem standa á sömu lóð við Suðurströnd, auk þeirrar þriðju sem er á jarðhæð Seltjarnarneskirkju. Í skólanum er lögð áhersla á að börn fái tækifæri til að hjálpa sér sjálf eftir því sem þroski þeirra og geta leyfir og þau eru styrkt til sjálfshjálpar í öllum þáttum daglegs lífs. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, því að samkvæmt hugmyndafræði leikskóla lærir barn mest og best í leik og samskiptum við börn og fullorðna í frjóu og skapandi umhverfi. Starfsfólk hefur sameinast um gildin jákvæðni, virðing og fagmennska, sem eru höfð að leiðarljósi í daglegu starfi skólans.

Sjá nánar: Innritunarreglur í leikskóla Seltjarnarness

http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menntun/leikskolar/innritunarreglur/

Tónlistarskóli http://tonlistarskoli.seltjarnarnes.is/

Tónlistarskóli Seltjarnarness sinnir almennri tónlistarmenntun Seltirninga með áherslu á grunn- og framhaldsskólaaldur. Boðið er upp á kennslu á fjölbreytt úrval hljóðfæra auk þess sem við skólann starfa lúðra- og strengjasveitir fyrir ýmsa aldurshópa. Nálægð við Grunnskóla Seltjarnar­ness hefur skapað tækifæri til að tengja stofnanirnar og starfsemi þeirra saman þannig að nám barnanna verði ein samfelld heild, fjölskyldum til mikils hagræðis. Tónlistarskólinn sér að hluta um tónlistarkennslu leikskólabarna og hefur hún skilað góðum árangri.

Sjá nánar: Reglur Seltjarnarnesbæjar um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum. http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/3309

Daggæsla í heimahúsum http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menntun/

Á Seltjarnarnesi er leitast við að daggæsla í heimahúsum sé eftirsóknarverður og tryggur kostur fyrir foreldra yngstu barnanna frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til börnin komast í leikskóla. Foreldrum býðst daggæsla fyrir börn ýmist frá 6 eða 9 mánaða aldri hjá dagforeldrum. Í boði er daggæsla í fjórar til níu klukkustundir á dag og er foreldrum í sjálfsvald sett hvar á höfuðborgarsvæðinu þeir nýta þessa þjónustu. Daggæslan er niðurgreidd af sveitar­félaginu til þess að létta fjárhagslega undir með foreldrum. Fræðslustjóri hefur umsjón með leyfum til daggæslu og virkt eftirlit með starfseminni.

Skólaskrifstofa http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menntun/

Skólaskrifstofa fer með yfirumsjón starfsemi grunn-, leik- og tónlistarskóla auk daggæslu í heimahúsum. Hún hefur auk þess umsjón með skráningu barna hjá dagforeldrum og innritun í leik-, grunn- og tónlistarskóla, ásamt skráningu nemenda í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags. Skólaskrifstofa hefur yfirumsjón með sérfræðiþjónustu, faglegum stuðningi og samningum um sérúrræði fyrir skjólstæðinga stofnana á fræðslusviði.

Sjá nánar: Skólastefna Seltjarnarness http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menntun/skolastefna/

 

Íþróttir og tómstundir

http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/ithrottirogtomstundir/

Á Seltjarnarnesi er boðið upp á öflugt íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarf. Íþróttahús, knattspyrnusvæði, sundlaug, félagsheimili og félagsmiðstöð eru miðsvæðis í bænum, örstutt frá skólunum. Íþróttafélagið Grótta veitir þjálfun í flestum helstu greinum íþrótta, sjá http://grottasport.is/. Í félagsmiðstöðinni Selinu er unnið að uppbyggjandi tómstundastarfi með börnum og unglingum. Starfandi eru trimm- og gönguhópar og í boði er sundleikfimi. Boðið er upp á fjölbreytt sumarnámskeið og sumarstörf í vinnuskólanum og með tómstundastyrkjum er lögð áhersla á að öll börn og unglingar hafi sömu möguleika á tómstundastarfi við hæfi.

Sjá nánar: Reglur og skilyrði um greiðslur tómstundastyrkja Seltjarnarnesbæjar http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/3223

Reglur um kjör íþróttamanns og íþróttakonu Seltjarnarness.
http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/3225


Reglur Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness um úthlutun styrkja til einstaklinga og hópa má finna á slóðinni http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/samthykktir/ undir fyrirsögninni Æskulýðs- og íþróttamál.

 

Félagsmiðstöðin Selið http://selid.is/
Aðalstarfsemi félagsmiðstöðvarinnar fer fram yfir vetrartímann. Er þá megináherslan lögð á tómstundastarf unglinga, s.s. böll, klúbbastarf, námskeið, fyrirlestra, forvarnastarf, ferðalög og fleira. Selið er fyrst og fremst opið unglingum á aldrinum 13–16 ára, þ.e. nemendum í 8., 9. og 10. bekk, en þó taka yngri börn líka þátt í starfinu að einhverju leyti. Nemendur í 7. bekk hafa fastan tíma í Selinu einu sinni í viku en félagsmiðstöðin hefur alfarið umsjón með félagslífi nemenda í Valhúsaskóla.

Ungmennahúsið Skelin
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/ithrottirogtomstundir/selid/ungmennarad-seltjarnarness/

Ungmennahúsið Skelin er aðsetur Ungmennaráðs Seltjarnarness og er með starfsemi fyrir ungmenni á aldrinum 16–25 ára. Skelin er til húsa við Suðurströnd, í húsi Heilsu­gæslunnar.

Ungmennaráð tilnefnir áheyrnarfulltrúa í flestar nefndir bæjarins með málfrelsi og tillögurétt. Einnig á ráðið samtal við bæjarstjórn a.m.k. tvisvar á ári.

Vinnuskólinn

Í vinnuskólanum er boðið upp á sumarstörf fyrir unglinga á aldrinum 14–16 ára. Unnið er fjóra daga vikunnar. Vinnuskólinn var starfræktur í júní og júlí. Meginuppistaða í verkefnum vinnuskólans er sláttur, almenn garðyrkjustörf, gróðursetning, hreinsun beða, götuhreinsun, málningarvinna og almenn fegrun bæjarins.

Sumarnámskeið
http://www.seltjarnarnes.is/svid-og-deildir/ithrottasvid/baeklingur/?

Selið sér um sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6–12 ára fyrir hönd bæjarins. Börnunum standa m.a. til boða fjölbreytt leikjanámskeið og smíðavöllur.

Tómstundastyrkir Seltjarnarnesbæjar
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/ithrottirogtomstundir/styrkir/

Meginmarkmið tómstundastyrkja sem sveitarfélagið býður upp á er að öll börn og ungmenni á Seltjarnarnesi geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Með tómstundastyrkjunum er einnig stuðlað að valfrelsi, jafnrétti og fjölbreytni á sviði íþrótta- og æskulýðsmála.

Sjá nánar: Reglur og skilyrði um greiðslur tómstundastyrkja Seltjarnarnesbæjar http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/3223

 

Félagsþjónusta 
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/

Markmiðið með félagsþjónustu bæjarfélagsins er að tryggja félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð þeirra. Verkefni starfsmanna á skrifstofu félagsþjónustunnar í Mýrar­húsaskóla eldri eru félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, barnavernd, ráðgjöf til handa fötluðu fólki og móttaka og greining umsókna um heimaþjónustu, heimsendingu matar, ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra, húsaleigubætur, liðveislu, félagslegar leiguíbúðir, sérhæfða búsetu fyrir fatlaða og aðra þjónustu í þágu fatlaðra.


Barnavernd 
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/barnavernd/

Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Barnaverndarstarfið á Seltjarnarnesi byggist á barnaverndarlögum sem og áætlun bæjarins í barnaverndarmálum. Með því er stuðlað að samfélagi þar sem börn eiga rétt á vernd og umönnun og njóti réttinda í samræmi við aldur og þroska sinn. Lögð er áhersla á að barnafjölskyldur sem þurfa aðstoð séu styrktar í uppeldishlutverki sínu, að hagsmunir barna séu hafðir í fyrirrúmi og að Seltjarnarnesbær sjái börnum fyrir þroskavænlegum uppeldisskilyrðum í leik og starfi.


Félagsráðgjöf
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/radgjof/

Félagsráðgjöf felst í heildrænni ráðgjöf og stuðningi við þá íbúa sem leita ráðgjafar. Félagsráðgjafar hafa víðtæka þekkingu á úrræðum sem standa til boða í nær- og fjærsamfélaginu hverju sinni. Í ráðgjöfinni felst annars vegar upplýsingagjöf um félagsleg réttindi og hins vegar stuðningur vegna félagslegs og/eða persónulegs vanda, t.d. geðraskana eða áfengis- og fíkniefnavanda.


Fjárhagsaðstoð
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/adstod/

Fjárhagsaðstoð er veitt skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglum um fjárhagsaðstoð samþykktum af bæjarstjórn Seltjarnarness. Markvisst er unnið að því að leysa til lengri tíma vanda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð með greiningu og beitingu annarra úrræða en slíkrar aðstoðar. Fjárhagsaðstoð er hugsuð sem tímabundin aðstoð og er það meðal annars verkefni félagsráðgjafa að aðstoða fólk við að koma sér úr þeirri stöðu að þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Sjá nánar: Reglur um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ

 http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/308

 

Félagsleg húsnæðismál og húsaleigubætur
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/husnaedismal/

Stærstur hluti íbúðarhúsnæðis á Seltjarnarnesi eru eignaríbúðir. Seltjarnarnesbær á nokkrar leiguíbúðir sem leigðar eru út til fjölskyldna sem eru ófærar um að leysa húsnæðismál sín sjálfar. Allir leigjendur þeirra eru með tímabundna leigusamninga til eins árs í senn. Greiddar eru almennar húsaleigubætur til leigjenda og einnig eru greiddar sérstakar húsaleigubætur fyrir tekjulága leigjendur sem eiga í félagslegum erfiðleikum.

Sjá nánar: Reglur um sérstakar húsaleigubætur
http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/8027

Reglur um úthlutun félagslegra leiguíbúða Seltjarnarnesbæjar

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/4247

 

Forvarnir
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/forvarnir/

Markmið forvarna er að tryggja að börn og unglingar alist upp í öruggu og uppbyggjandi umhverfi án þess að nota vímuefni. Í forvarnamálum er samvinna og samráð allra sem koma með einum eða öðrum hætti að uppeldi barna og ungmenna eða kennslu, þjálfun og annarri vinnu með þeim. Samráðshópur um áfengis- og vímuvarnir er starfandi. Hópurinn, sem er fjölskipaður, hittist nokkrum sinnum á ári. Félags- og unglingaráðgjafi vinnur að forvörnum og er fulltrúi bæjarins í SAMAN-hópnum, sem er samráðsvettvangur fagfólks alls staðar að af landinu.

 

Heimaþjónusta
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/heimathjonusta/

Heimaþjónusta er veitt öldruðum, öryrkjum og öðrum þeim sem ekki geta annast dagleg heimilisstörf vegna heilsubrests. Markmiðið með heimaþjónustu er að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem geta ekki hjálparlaust séð um heimilishald sitt. Þjónustan er tímabundin eða til lengri tíma, eftir aðstæðum. Sótt er um heimilisþjónustu hjá öldrunarfulltrúa félagsþjónustunnar. Viðkomandi starfsmaður metur þjónustuþörf í hverju tilviki með heimsókn á heimili umsækjanda þar sem lagt er mat á þörf og umfang þjónustunnar.

Sjá nánar: Reglur um félagslega heimaþjónustu hjá Seltjarnarnesbæ http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/306

 

Þjónusta við aldraða
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/aldradir/

Á Skólabraut 3–5 er veitt margvísleg þjónusta til eldra fólks. Þar eru mötuneyti og dagvist starfrækt. Félagsstarf fer fram í húsinu, bæði tómstundastarf í formi námskeiða og félagsleg samvera af ýmsu tagi. Í Eiðismýri 30 er einnig í boði þjónusta fyrir íbúana. Boðið er upp á hádegismat og húsvörður veitir íbúum margs konar þjónustu.

Sjá nánar: Reglur um þátttöku Seltjarnarnesbæjar í kostnaði aldraðra við sjúkraþjálfun.

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/5963

 

Félags- og tómstundastarf aldraðra
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/aldradir/felagstarf/

Öldruðum stendur til boða fjölbreytt tómstunda- og félagsstarf. Dagskrá og námskeið eru sniðin eftir áhuga og óskum þátttakenda. Boðið er upp á námskeið í glerbræðslu, glerlist, leirlist, bókbandi, almennri handavinnu og margvíslega aðra iðju. Þá er í boði ýmis hreyfing, svo sem gönguferðir og léttar æfingar, jóga, sund og botsía. Í samveru er spiluð félagsvist, lomber og bingó og bíósýningar eru í boði. Farið er í óvissuferðir á áhugaverða staði, í leikhús og fleira. Þá eru kvöldsamverustundir þar sem fólk kemur saman, borðar góðan mat, syngur, spjallar og tekur sporið. Boðið er upp á samstarf og samveru yngri og eldri kynslóðarinnar í Skelinni, sem er húsnæði ungmenna í félagsmiðstöðinni Selinu. Þá hefur sjálfsprottið starf eldri karla dafnað vel en þeir eru með smíðahóp auk spjallhóps sem hittist í kirkjunni.

 

Dagvist aldraðra
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/dagvist-ald/

Dagvist aldraðra hefur það hlutverk að bjóða eldri bæjarbúum þjónustu með það að leiðarljósi að þeir geti búið á eigin heimili þrátt fyrir skerta andlega eða líkamlega heilsu, sem og að rjúfa félagslega einangrun þeirra og tryggja að þeir njóti þeirra lífsgæða sem kostur er á. Lögð er áhersla á að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og eiga virk samskipti við aðstandendur. Reynt er að tryggja gestum dagvistarinnar sem fjölbreytilegust viðfangsefni og afþreyingu.

 

Þjónusta við fatlað fólk
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/thjonustavidfatlada/

Seltjarnarnesbær og Reykjavík eru eitt þjónustusvæði í málefnum fatlaðs fólks. Félagsráðgjafar á félagssviði Seltjarnarnesbæjar annast móttöku allra umsókna um þjónustu ætlaða fötluðum og greiningu á högum umsækjenda og þeir miðla áfram þessum upplýsingum til Reykjavíkurborgar og fylgja eftir umsóknum. Reykjavíkurborg sér um sérhæfð búsetu­úrræði og dagþjónustu við fatlaða, auk skammtímavistunar, áfangastaða o.fl. Seltjarnar­nesbær sér um móttöku umsókna og almenna ráðgjöf, um málefni stuðningsfjölskyldna og sérstaka liðveislu.

 

Ferðaþjónusta
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/thjonustavidfatlada/

Fötluðu fólki, sem ekki komast ferða sinna í eigin bílum, strætisvögnum eða á annan hátt, er veitt ferðaþjónusta með sérbúnum bifreiðum. Lögð er höfuðáhersla á að flytja fatlaða til og frá vinnu, skólum og hæfingarstöðvum. Aldraðir geta einnig fengið akstur hjá ferðaþjónustu fatlaðra í sérstökum tilvikum.

Sjá nánar: Reglur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra á Seltjarnarnesi http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/307

 

Liðveisla

http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/thjonustavidfatlada/

Liðveisla er þjónusta veitt fötluðum einstaklingum. Markmiðið með liðveislu er að veita persónulegan stuðning og rjúfa félagslega einangrun fatlaðra, gera þeim kleift að njóta menningar og afþreyingar og komast út á meðal fólks. Einnig er lögð áhersla á að auka félagsfærni þess sem fær liðveislu. Liðveisla er veitt skv. lögum um málefni fatlaðra og um hana gilda reglur Seltjarnarnesbæjar um liðveislu.

Sjá nánar: Reglur um liðveislu á Seltjarnarnesi http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/309

 

Jafnréttismál
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/felagsthjonusta/jafnretti/

Jafnréttisnefnd starfar skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samþykkt hefur verið jafnréttisáætlun fyrir bæjarfélagið og er unnið samkvæmt henni. Yfirmenn á vinnustöðum Seltjarnarnesbæjar bera ábyrgð á að farið sé að jafnréttislögum og að starfað sé samkvæmt jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar.

Jafnréttisnefnd hefur staðið fyrir jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum samkvæmt jafnréttisáætlun bæjarins. Einnig hefur nefndin staðið fyrir opnum fræðslu- og umræðufundum um jafnréttismál.

Á hverju kjörtímabili veitir jafnréttisnefnd því fyrirtæki eða stofnun jafnréttisviðurkenningu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan framgang í verki.

 

Umhverfi og skipulag
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/

Á Seltjarnarnesi skal íbúum gert kleift að byggja upp heilbrigt líf í hreinu og vel hirtu umhverfi. Þeir hafi aðgang að fjölbreyttum leik- og útivistarsvæðum og gott aðgengi að fjölbreyttum náttúrusvæðum. Umhverfissvið hefur umsjón með öllum nýframkvæmdum á vegum bæjarins og allri starfsemi sem tengist tækni- og umhverfismálum bæjarins, svo sem byggingareftirliti og brunavörnum, og eftirlit með eigum bæjarins, gatna- og fráveitukerfum, umhverfismálum, garðyrkju og opnum svæðum. Bygginga- og umhverfissvið Seltjarnarness er til húsa að Austurströnd 2 og í afgreiðslu bæjarskrifstofu eru afgreiddar allar rafmagns-, bygginga- og verkfræðiteikningar húsa í bænum. Þar liggja umsóknareyðublöð vegna byggingarframkvæmda og uppáskrifta iðnmeistara og þar eru móttekin gögn til skipulags- og byggingarfulltrúa og skipulags- og umferðarnefndar.

Sjá nánar: Umhverfisstefna Seltjarnarness  http://www.seltjarnarnes.is/media/taeknisvid/nattura/Umhverfisstefna_Seltjarnarness.pdf

Sorphirða á Seltjarnarnesi
http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/framkvaemdir/sorphirda

Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á Seltjarnarnesi

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/316

Samþykkt um sorphirðu og hreinsun opinna svæða á Seltjarnarnesi nr. 95/1999

http://www.seltjarnarnes.is/media/skyrslur-utgafur/Samtykkt-um-sorphirdu.pdf

Umferðaröryggisáætlun http://www.seltjarnarnes.is/umferdaroryggisaaetlun/

Umhverfisviðurkenningar http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/umhverfismal/umhverfisvidurkenningar/

 

Skipulagsmál http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/skipulag

Seltjarnarnes er nánast fullbyggt bæjarfélag. Byggðin er að mestu leyti íbúðarhús af ýmsum stærðum og gerðum en einnig er nokkuð um atvinnu- og þjónustuhúsnæði við Eiðistorg og í nágrenni þess. Forsendur aðalskipulags Seltjarnarness eru meðal annars áhersla á fjölskylduvænt samfélag þar sem umgjörð mannvirkja bjóði upp á bæjarbrag og svigrúm fyrir fjölþætta starfsemi sem þjóni bæjarbúum. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að efla miðbæ sem sameiginlegan vettvang fólks og að þar sé aðsetur félags- og menningarstarfsemi. Leiðarljós og markmið Aðalskipulags eru svo útfærð í deiliskipulagsáætlunum fyrir hvern bæjarhluta og eru áætlanir fyrir síðustu svæðin á Seltjarnarnesi nú í vinnslu.

 

Áhaldahús http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/ahaldahus

Áhaldahús Seltjarnarness annast viðhald gatna, gangstétta og stígakerfis bæjarins, sem og viðhald á veitum bæjarins, þ.e. vatnsveitu, fráveitu og hitaveitu. Starfsmenn áhaldahúss annast einnig viðhald á húsnæði á vegum bæjarins ásamt því að sjá um hálkuvarnir og snjómokstur á götum og göngustígum. Þeir sjá líka um viðhald, umhirðu og fegrun útivistarsvæða og lóða í umsjón bæjarfélagsins.

 

Veitur http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/hitaveita

Hitaveita Seltjarnarness sér bæjarbúum fyrir heitu vatni og er eign bæjarins. Gjaldskrá hitaveitunnar er mun lægri en í nágrannabæjarfélögum. Orkuveitur sjá bæjarbúum fyrir rafmagni og köldu vatni. Hreinsi- og dælustöðvar koma skólpi í útrásir. Öll heimili á Seltjarnarnesi eru tengd ljósleiðara.

Sjá nánar: Hitaveita Seltjarnarness  http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/hitaveita/

 

Staðardagskrá 21 http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/umhverfi/stadardagskra/

Seltjarnarnesbær tekur þátt í Staðardagskrá 21 en markmið hennar er að samfélagsþróun miði að jákvæðum samskiptum mannsins við umhverfi sitt. Markmiðið er sjálfbært samfélag sem sé byggt upp á jákvæðan hátt, bæði inn á við og út á við gagnvart náttúrulegu umhverfi.

 

Menningarmál

http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/

Seltjarnarnesbær stuðlar að fjölbreyttu menningarlífi bæjarbúa með ýmsu móti. Bærinn starfrækir bókasafn og býður upp á fjölbreytta menningarviðburði og hátíðir árið um kring. Menningarstarf bæjarins er samofið starfsemi ýmissa stofnana, samtaka og einstaklinga innan bæjarfélagsins. Menningarnefnd Seltjarnarness úthlutar styrkjum til menningarstarfs en auk þess stendur nefndin fyrir kaupum á listaverkum og velur árlega bæjarlistamann Seltjarnarness.

Sjá nánar: Menningarstefna Seltjarnarnesbæjar http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/menningastefna/

Reglur um styrki til lista- og menningarstarfssemi á Seltjarnarnesi

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/311

 

Bókasafnhttp://www.seltjarnarnes.is/bokasafn

Bókasafn Seltjarnarness er til húsa á Eiðistorgi 11, 2. hæð. Það er menningar-, mennta- og upplýsingastofnun Seltjarnarness og meginvettvangur fyrir menningarlíf bæjarbúa. Meginmarkmið safnsins er að efla lýðræði, jafnrétti, athafnafrelsi og velferð bæjarbúa án tillits til aldurs, kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúarbragða, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu. Einnig leitast það við að jafna aðgang íbúanna að upplýsingum, þekkingu og afþreyingu og standa vörð um íslenska tungu, bókmenntir og menningararf og hvetja til lesturs, náms og símenntunar. Í bókasafninu er úrval innlendra og erlendra bóka, blaða og tímarita fyrir alla aldurshópa, sem og hljóðbækur, leiknar myndir og heimildarmyndir á DVD-diskum og VHS-spólum og ný og eldri íslensk tónlist. Góð aðstaða er til að setjast niður og fletta blöðum og þiggja kaffi en einnig er sérhönnuð aðstaða fyrir börn og unglinga til lesturs og leiks. Menningarviðburðir fara reglulega fram á safninu, m.a. listsýningar, bókmennta­kvöld, tónleikar, fyrirlestrar og handverks- og hönnunarnámskeið. Jafnframt er boðið upp á fjölbreytt barna- og unglingastarf. Almenningstölvur standa gestum til boða og þar er einnig ljósritunarþjónusta og sjálfsafgreiðsluvél.

 

Gallerí Grótta

Sýningarsalurinn Gallerí Grótta er inn af bókasafni Seltjarnarness. Þar fer fram reglulegt sýningarhald af ýmsum toga eftir listamenn og hönnuði á Seltjarnarnesi og annars staðar að. Sýningar eru ýmist valdar í tengslum við ákveðnar hátíðir eða viðburði eða standa sjálfstæðar. Ókeypis aðgangur er á sýningarnar.

Náttúrugripasafn

Náttúrugripasafn Seltjarnarness var opnað 18. maí 1982. Safnið er að stærstum hluta í Valhúsaskóla. Hluti safnsins er þó til sýnis á Bókasafni Seltjarnarness.

Fræðasetur í Gróttuhttp://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/fraedasetur

Grótta er einstök náttúruperla vestast á höfuðborgarsvæðinu. Þar er að finna óspillta og einstaka náttúru. Fræðasetrið í Gróttu er leigt út í allt að sólarhring til skólahópa og sjálfstæðra hópa eða einstaklinga til fræða- og rannsóknarstarfa, fundahalda, minni hátíðarhalda og gistingar, svo að eitthvað sé nefnt.

Listaverk í eigu bæjarins http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/menning/baejarlistaverk/

Listaverkaeign Seltjarnarnesbæjar samanstendur af yfir eitt hundrað verkum sem bærinn hefur ýmist keypt eða honum hafa verið gefin. Mörg verkanna eru til sýnis í stofnunum bæjarins og enn önnur má finna víðs vegar í bæjarlandinu. Ritið Myndlykill segir frá merkustu verkum í eigu bæjarins.

Ljósmyndasafn Seltjarnarness http://www.seltjarnarnes.is/myndasafn/series/104

Nokkur þúsund ljósmyndir er að finna í ljósmyndasafni Seltjarnarness. Stóran hluta safnsins er að finna á heimasíðu bæjarins, þar sem myndirnar eru flokkaðar og merktar.

Nesstofahttp://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/nesstofusafn/

Nesstofa er eitt þeirra húsa sem er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Þar eru settar upp sýningar sem tengjast lífi og starfi fyrsta landlæknis Íslands, sem bjó í Nesstofu og aðrar tímabundnar sýningar. Í samstarfi við Seltjarnarnesbæ er húsið opið yfir sumartímann og skipulögð leiðsögn býðst þar að auki fyrir nemendur og hópa yfir vetrartímann.

Fornleifauppgröftur

Frá árinu 2010 hefur Seltjarnarnesbær boðið námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafni Íslands land sitt sem kennsluvettvang fyrir fornleifafræði­rannsóknir. Eitt af markmiðum samkomulagsins er að byggður verði upp sameiginlegur kortagrunnur yfir fornleifar svæðisins. Uppgröfturinn stendur yfir í um fjórar vikur á vori hverju.

Urtagarður í Nesi http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/urtagardur/

Urtagarðurinn í Nesi var opnaður árið 2010 en þar er að finna safn urta sem ýmist gegndu hlutverki í lækningum eða voru nýttar til næringar og heilsubótar á tímabilinu 1760–1834. Gefið hefur verið út ritið Plöntuvísir þar sem unnt er að finna stutt ágrip af sögu ræktunar í Nesi og þeim forsendum sem urtagarðurinn er byggður á.

Bæjarlistamaður http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/menning/menning/baejarlistamadur/reglur_baejarlistam/

Frá árinu 1996 hefur menningarnefnd Seltjarnarness ár hvert veitt listamanni sem búsettur er á Seltjarnarnesi nafnbótina bæjarlistamaður Seltjarnarness. Nafnbótinni fylgir starfs­styrkur í samræmi við fjárhagsáætlun bæjarins hverju sinni.Listamenn sem hafa framfæri af list sinni að einhverju eða öllu leyti og eiga lögheimili á Seltjarnarnesi  eiga rétt á að sækja um nafnbótina og starfsstyrkinn.

Sjá nánar: Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Seltjarnarness http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/312

 

Hátíðir

Seltjarnarnesbær skipuleggur reglulega hátíðir fyrir bæjarbúa. Ber þar hæst fjölskyldudag í Gróttu, sem oftast er haldinn að vori til, hátíð á þjóðhátíðardaginn, sem haldin er í Bakkavör, Jónsmessuhátíð 24. júní, áramótabrennu, Safnanótt og Hönnunarmars. Einnig tekur bærinn reglulega þátt í skipulögðum viðburðum sem hópar eða félagasamtök í bænum standa fyrir, svo sem bæjarhátíð.

 

Bæjarskrifstofur

Þjónustuver Seltjarnarnesbæjar

Starfsemi bæjarfélagsins miðar að því að veita íbúum alla þá þjónustu sem því ber að veita á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt. Í þjónustuveri er íbúum, stofnunum bæjarins og öðrum sem þangað leita veitt þjónusta og aðstoð. Þar fást upplýsingar um alla starfsemi og þjónustu bæjarins og leggja starfsmenn versins metnað sinn í að geta svarað fyrirspurnum um öll svið í starfsemi bæjarins. Í þjónustuveri er einnig svarað í síma og tekið á móti fyrirspurnum, beiðnum og umsóknum.


Þjónustuver Seltjarnarness er að Austurströnd 2.
Sími: 595 9100
Netfang: thonustuver@seltjarnarnes.is, postur@seltjarnarnes.is
Fax: 595 9101
Þjónustuverið er opið mánudaga til fimmtudaga kl. 8-16 og föstudaga kl. 8-14.

Upplýsingar og samskipti

Seltjarnarnesbær er með virka heimasíðu, www.seltjarnarnes.is,þar sem finna má nákvæmar upplýsingar sem lúta að stjórnsýslu bæjarins, auk frétta, tilkynninga, fundargerða og viðburða. Bærinn heldur einnig úti Facebook-síðunni Seltjarnarnesbær, sem íbúar eru hvattir til að nýta sér.

 

Samstarfsaðilar og aðrar samþykktir Seltjarnarnesbæjar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þjónar Seltirningum frá lögreglustöð 5, Hverfisgötu 113-115, Reykjavík - sími 444-1000. Stöðin sinnir verkefnum vestan Snorrabrautar og á Seltjarnarnesi.

Sjá nánar: Lögreglusamþykkt fyrir Seltjarnarneskaupstað

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/216


Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS)

Stofnendur og eigendur SHS eru sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarneskaupstaður.

Sjá nánar: http://shs.is/

 

Strætó bs.  er byggðasamlag í eigu Seltjarnarnesskaupstaðar, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar, Hafnafjarðarbæjar og Mosfellsbæjar og Sveitafélagsins Álftaness. Stjórn byggðasamlagsins er skipuð sjö mönnum, einum frá hverju sveitarfélagi og jafnmörgum til vara.

Sjá nánar: http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/nefndir/straeto/

 http://www.straeto.is/

Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins - Bláfjallanefnd

Sjá nánar: http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/nefndir/blafjallanefnd/ http://www.skidasvaedi.is/desktopdefault.aspx

 

Gjaldskrár og samþykktir

Gjaldskrár http://www.seltjarnarnes.is/thjonusta/gjaldskrar/

Reglur um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/289

Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka skv. 2. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/2887

Samþykkt um hundahald á Seltjarnarnesi. http://www.seltjarnarnes.is/media/fjarhagssvid/Samthykkt_um_hundahald.pdf

Samþykkt um kattahald á Seltjarnarnesi

http://www.seltjarnarnes.is/stjornsysla/samthykktir/nr/313

 

Aðrar stofnanir og félagasamtök á Seltjarnarnesi

Á Seltjarnarnesi eru bæði stofnanir og fjölmörg félagasamtök sem leggja sitt af mörkum til bæjarbúa og bjóða þeim til þátttöku.

 

Ballettskóli Guðbjargar http://www.gbballett.is/

Björgunarsveitin Ársæll http://www.bjorgunarsveit.is/

Félag eldriborgara á Seltjarnarnesi feb@simnet.is

Golfklúbbur Ness og Nesklúbbur http://www.nkgolf.is/umnk

Heilsugæslan Seltjarnarnesi http://www.heilsugaeslan.is/heilsugaeslustodvar/seltjarnarnes/

Íþróttafélagið Grótta http://grottasport.is/

Kvenfélagið Seltjörn

Leikfélag Seltjarnarness

Lionsklúbbur Seltjarnarness

Rótarýklúbbur Seltjarnarness http://www.rotary.is/rotaryklubbar/island/seltjarnarnes/

Selkórinn http://selkorinn.is/

Seltjarnarneskirkja http://seltjarnarneskirkja.is/

Slysavarnadeildin Varðan

Soroptimistar -sjá facebooksíðu félagsins

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness http://astro.is/component/content/frontpage/frontpage?start=90

Sunddeild KR http://www.kr.is/sund/

Trimmklúbbur Seltjarnarness TKS -sjá facebooksíðu klúbbsins


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: