Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Umhverfisstefna

Umhverfisstefna Seltjarnarnesbæjar

Umhverfisstefna Seltjarnarnesbæjar nær til áherslna sveitarfélagsins um umhverfi og sjálfbærni til næstu ára. Henni tengist Staðardagskrá 21 (S-21). Þetta eru aðgerðaráætlanir, staðfestar af bæjarstjórn og uppfærðar reglulega með tilliti til fenginnar reynslu, laga og reglugerða sem varða þetta svið. Seltjarnarnesbær staðfesti Ólafsvíkuryfirlýsinguna, frá 13. október 2000, um framlag sveitafélaga til sjálfbærrar þróunar.

 1. Umhverfisfræðsla og menntun
  Seltjarnarnesbær stuðlar að því að stjórnendur hans, starfsmenn og íbúar hafi greiðan aðgang að fræðslu um umhverfið og úrlausnir í umhverfismálum. Mótuð skal frekari heildarstefna í umhverfismenntun fyrir leik- og Grunnskóla Seltjarnarness, vinnuskóla, unglingastarf, starfsfólk bæjarins og íbúa. Einnig skulu ný skref stigin.
 2. Skipulagsmál
  Sjálfbær þróun verður höfð að leiðarljósi við gerð allra skipulagsáætlana. Við gerð aðalskipulags verði áhersla lögð á varðveislu náttúrugæða, menningarverðmæta og lífsgæða sem á þeim byggja.
 3. Varðveisla lífríkis, náttúrugæða og menningarverðmæta
  Seltjarnarnesbær kappkostar að varðveita fjölbreytni náttúrunnar og menningarminja með vel undirbúnum aðgerðum, faglegum vinnubrögðum og góðri umgengni. Markvisst verði unnið gegn áhrifum ágengra tegunda sem valda skaða.
 4. Sorphirða og fráveita
  Stefnt skal að því að minnka sorpmagn enn frekar, auka hlut endurnýtingar og endurvinnslu í  rekstri bæjarfélagsins og meðal íbúa með nýjum aðgerðum. Fráveitukerfi bæjarins standist ítrustu kröfur um mengunarvarnir.
 5. Loft-, ljós- og hávaðamengun.
  Tryggja skal íbúum Seltjarnarnesbæjar umhverfi til búsetu og útivistar, þar sem loft-, ljós-  og hávaðamengun er í lágmarki, m.a. með góðu skipulagi og vistvænni samgöngum.
 6. Bæjarbragur og mannlíf
  Kappkostað verður  að efla samkennd og bæta mannlíf íbúa Seltjarnarness með fjölbreyttum leiðum  í félags-og menningarlífi og útiveru í fögru og áhrifamiklu umhverfi. Áhersla verði lögð á þátttöku og aðstæður mismunandi hópa. Skipulag opinna svæða og almenningsrýma s.s. í miðbæ og einstökum hverfum stuðli að samveru og samkennd.
 7. Staðardagskrá 21
  Seltjarnarnesbær hefur staðfest Staðardagskrá 21 í formi aðgerðaráætlana, í samræmi við samþykktir heimsráðstefnu Sameinuðuþjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992. Þessi umhverfisstefna er hluti af Staðardagskrá Seltjarnarnesbæjar, sem verður endurskoðuð og uppfærð reglulega.
 8. Endurskoðun og mat
  Umhverfisstefna og S-21 er endurskoðuð reglulega. Skrá þarf árangur og meta. Umhverfisnefnd hefur umsjón með því starfi í samráði við bæjarráð og þróar leiðir til þess með þátttöku annarra nefnda eftir starfssviðum þeirra. Seltjarnarnesbær marki sér vistvæna innkaupastefnu um þróun umhverfismála í sveitafélaginu sem almenningur hafi aðgengi að.

Umhverfisstefna Seltjarnarnesbæjar var samþykkt af umhverfisnefnd 3. febrúar 2014 og staðfest af bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 15. apríl 2014 og tekur hún gildi 1. júlí 2014
Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: