Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Spurt og svarað

NESIÐ OKKAR 2018

NESIÐ OKKAR 2018

NESIÐ OKKAR er nýtt samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýrra framkvæmda og viðhaldsverkefna á Seltjarnarnesi í sumar. Verkefnið skiptist í þrjá hluta; hugmyndasöfnun, íbúakosningu og framkvæmd. Hugmyndasöfnunin stendur til 11 mars 2018. TAKTU ÞÁTT!

UM NESIÐ OKKAR 2018

NESIÐ OKKAR er nýtt samráðsverkefni íbúa og bæjarins. Bæjarbúum, 16 ára og eldri og með lögheimili á Seltjarnarnesi gefst nú tækifæri til að hafa lýðræðisleg áhrif á forgangsröðun og úthlutun 10.000.000 kr. af framkvæmdafé sumar­sins sem fara eiga til smærri nýrra framkvæmda og viðhaldsverkefna á Seltjarnarnesi. Þetta jákvæða verkefni skiptist í þrjá hluta; hugmyndasöfnun, íbúakosningu og framkvæmd. Íbúar eru eindregið hvattir til að taka þátt enda öllum frjálst að senda inn hugmyndir og taka þátt í umræðum um innsendar hugmyndir.

Samráðsvettvangurinn fer fram á netinu og er opinn öllum til skoðunar og þátttöku gegn skráningu og samþykki notendaskilmála.

Skráðir notendur taka þátt með því að setja fram hugmyndir, skoða hugmyndir annarra, rökstyðja mál, segja skoðun sína eða gefa hugmyndum og rökum vægi með því að styðja eða vera á móti þeim.

Verkáætlun og tímasetningar

Helstu tímasetningar eru eftirfarandi:

 • 20. febrúar – 11. mars: Hugmyndasöfnun fer fram hér á hugmyndavef verkefnisins. Seltirningar geta bæði sett inn sínar eigin hugmyndir, bætt við eða stutt hugmyndir annarra sem og komið með ábendingar.
 • 27. febrúar kl. 17.30 – 19.00: Íbúafundur í Valhúsaskóla þar sem verkefnið er kynnt og íbúum býðst að skila inn hugmyndum á staðnum.
 • 12. mars – 9. apríl: Allar hugmyndir verða metnar af tveimur matshópum á vegum bæjarins. Fyrst verður kannað hvort að hugmyndin falli undir skilyrði verkefnisins og svo lagt mat á kostnað við hönnun og framkvæmd þeirra hugmynda sem það gera. Að lokum verður valið úr þeim hugmyndum og stillt upp 20 verkefnum fyrir íbúa að kjósa um.
 • 10. apríl – 24. apríl: Rafræn kosning Seltirninga um verkefni til framkvæmda sumarið 2018.
 • 26. apríl: Úrslit kosninganna opinberaðar. Í framhaldi hefst undirbúningur, hönnun og útboð auk þess sem að framkvæmdir fara í ferli þannig að þeim ljúki innan ársins.

Um leið og notandi setur fram hugmynd á NESIÐ OKKAR er litið á hana sem sameign bæjarbúa, enda getur upphafleg hugmynd tekið breytingum í því samráðsferli sem þessi vettvangur býður upp á. Seltjarnarnesbær áskilur sér rétt til að nota þær hugmyndir sem fram koma á þeim samráðsvettvangi sem NESIÐ OKKAR og ekki er greitt fyrir hugmyndirnar.  

Verkefnin þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að komast í kosningu:

 • Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
 • Vera til fjárfestinga en ekki til rekstrar.
 • Vera framkvæmanleg án mjög flókins undirbúnings.
 • Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
 • Tillögur samræmist skipulagi og/eða stefnu Seltjarnarnesbæjar.
 • Vera á fullu forræði Seltjarnarnesbæjar (innan bæjarmarka og ekki á landi í einkaeigu).
 • Kostnaður einstakra verkefna sé ekki lægri en 1 mkr. og ekki hærri en 3 mkr.

Hugmyndin þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Gott er að láta ljósmynd fylgja með hugmyndinni. Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd.

Við notkun á Nesið okkar er mikilvægt að hafa í huga að Seltjarnarnesbær er stjórnvald sem starfar eftir lögum og reglum og hefur ákveðið verksvið. Í ljósi þess er ekki er sjálfgefið að unnt verði að taka allar hugmyndir til formlegar meðferðar. Ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011.

Matshópar fjalla um hugmyndir sem koma inn á NESIÐ OKKAR, taka til afgreiðslu og meta þær hugmyndir sem komast áfram í ferlinu. Á NESIÐ OKKAR er gerð grein fyrir málsmeðferðinni svo og afgreiðslu matshópanna þegar það liggur ljóst fyrir. Niðurstöður kosninga eru ráðgefandi en bæjarráð tekur loka ákvörðun um ráðstöfun fjármuna til verkefna.

Sjálfseignarstofnunin Íbúar Samráðslýðræði rekur þennan vef fyrir og í samstarfi við Seltjarnarnesbæ. Markmið bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi með verkefninu NESIÐ OKKAR er að skapa aðstæður þar sem að íbúar geta tekið þátt í samráði með stjórnsýslunni, haft skoðanir á nærumhverfi sínu, forgangsraðað og útdeilt fjármagni í smærri framkvæmdir á vegum bæjarins. Bundnar eru vonir við það að sem flestir nýti sér tækifærið og komi sínum hugmyndum og skoðunum á framfæri. Það er einfalt að taka þátt! 
Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: