Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fræðasetur í Gróttu

Fræðasetur í Gróttu

Vitinn og fræðslusetriðÁ haustdögum árið 2000 var opnað Fræðasetur í Gróttu með glæsilegri funda- og námsaðstöðu í óvenjulegu umhverfi. Í Fræðasetrinu er góður salur með borðum og stólum fyrir um 30 manns og á loftinu er gistiaðstaða fyrir sama fjölda. Ágætlega búið eldhús er á staðnum. Í kjallara setursins er vinnuaðstaða fyrir nemendur til að vinna úr verkefnum sem tengjast veru þeirra í Gróttu. Hægt er að leigja Fræðasetrið til fundarhalda eða mannfagnaðar, þá má gista á svefnlofti Fræðasetursins. Athugið að ferðir í Fræðasetur Gróttu eru háðar bæði flóði og fjöru og varptíma.

Markmið fræðslustarfs í Gróttu

Markmiðið með Fræðasetrinu er að náttúra og umhverfi Seltjarnarness nýtist á fjölbreyttan hátt, fyrir börn og fullorðna. Staðurinn er tilvalinn til útivistar og inniveru, námskeiða, vettvangsferða, funda o.fl. Útikennsla er í mörgum skólum orðin veigamikill þáttur og gefur möguleika á að nýta umhverfið í kennslu t.d. í íslensku, myndmennt, stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsfræði.

Helstu markmiðin með Fræðasetrinu eru að náttúra og umhverfi Gróttu nýtist nemendum og íbúum Seltjarnarness:

  • til menntunar og útikennslu í náttúrufræði, samfélagsfræði, sögu, myndmennt, umhverfismennt, lífsleikni og fleiri greinum
  • til að upplifa, skynja og skilja náttúruna og umhverfið með hjálp markvissra leiðbeininga og leiðsagnar og kennslu á vettvangi
  • til að læra að njóta útivistar, aðlagast útilífi og umgengni við náttúruna
  • til að styrkja félagstengsl og samstarf nemenda
  • að styrkja nám í ofantöldum greinum í skólunum með endurskipulagningu og aukinni útikennslu
  • til að styrkja almenningsfræðslu um umhverfi og náttúru Seltjarnarness
  • til að störf fræðimanna í Gróttu styrki fræðslustarfið bæði með beinum og óbeinum hætti.

Náttúran og nánasta umhverfi

Eyjan GróttuvitiGrótta er einstök náttúruperla vestast á höfuðborgarsvæðinu. Hún er um 5 hektarar og tengist landi með Gróttugranda. Þar er að finna óspillta og einstaka náttúru. Fjörurnar sunnan við Gróttu, Seltjörn og Bakkavík eru hentugar til útivistar og eru auðugar af lífi sem vert er að skoða. Þá er fuglalífið mjög fjölbreytt og sést hafa um 106 fuglategundir á Seltjarnarnesi. Lífið í og við Bakkatjörn er áhugavert að fylgjast með og kanna.
Yfir sumartímann er hægt að finna um 140 tegundir háplantna sem er um 1/3 af heildafjölda tegunda landsins.

Mikilvægar upplýsingar

Ferðir til og frá
Á fjöru er hægt að komast fótgangandi út í Gróttu.
Hægt er að dvelja í eynni á fjörunni í um 6 klst.
Strætó, leið 11, gengur út á Seltjarnarnes og er best að fara úr vagninum nyrst við Lindarbraut. Þaðan er um 15 mínútna gangur út í Gróttu.
Lokað fyrir umferð
Á varptímanum, frá 1. maí til 15. júlí, er ekki leyfilegt að fara út í Gróttu.
Flóð og fjara
Upplýsingar um flóð og fjöru er að finna í flóðatöflu viðkomandi mánaðar.
Einnig eru upplýsingar um flóð og fjöru á skilti við Gróttugranda.

Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofum Seltjarnarness í síma 5959 100

Eftirlit með húseignum Fræðasetursins ásamt landi og fuglalífi í Gróttu:

Flóðatöflur

Gjaldskrá fyrir Fræðasetur í Gróttu

Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: