Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Menningarstarf

Menningarstarf

Menningarnefnd Seltjarnarness úthlutar styrkjum til menningarstarfs en auk þess stendur menningarnefnd fyrir kaupum á listaverkum. Bærinn á mikið safn verka sem kynnt eru á heimasíðu bæjarins undir heitinu ,,Listaverk í eigu Seltjarnarnesbæjar”, þar sem Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur hefur skrifað um viðkomandi verk.

Menningarnefndin stendur fyrir menningarhátíð annað hvert ár, í fyrsta sinn árið 2003 undir nafninu „Bjartar sumarnætur á Seltjarnarnesi”.

Þá stendur nefndin fyrir árvissri Jónsmessugöngu um Nesið sem nýtur stöðugt meiri vinsælda og kemur fólk víða að til að taka þátt. Göngunni lýkur með hressingu, varðeldi, harmónikkuspili og söng.

Bæjarlistamaður Seltjarnarness er valinn árlega við hátíðlega athöfn. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir bæjarlistamenn síðast liðin ár.

Yfirlit yfir bæjarlistamenn undanfarinna ára.

Kórar

Á Seltjarnarnesi eru starfandi tveir kórar, Selkórinn og Kammerkór kirkjunnar. Verkefnaskrár beggja þessara kóra eru einstaklega metnaðarfullar og hafa þeir hvor í sínu lagi komið víða fram bæði hér á landi og erlendis. Stjórnandi Selkórsins er Jón Karl Helgason og stjórnandi Kammerkórsins er Viera Manasek.

Leiklist

Starfsemi Leiklistarfélag Seltjarnarness er kraftmikið. Settar hafa verið upp fjölda sýninga s.s Blessað barnalán og Saumastofan eftir Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Bjarna Ingvarssonar ásamt fjölda annarra. Þá koma félagar leiklistarfélagsins einnig við sögu við ýmsa viðburði í bænum auk þess sem þeir heimsækja leikskóla.

Söfn

Bókasafn Seltjarnarness
Hlutverk Bókasafns Seltjarnarness er að vera vettvangur fyrir félags- og menningarlíf bæjarbúa þar sem almenningur getur notið menningar, bókmennta og lista, og jafnframt að vera rafræn upplýsingastofnun með nýjustu margmiðlunartækni sem völ er á. Safnið starfar samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn.

Auk útlána á bókum og tímaritum lánar safnið út hljóðbækur, myndbönd, mynddiska, tónlist og tungumálanámskeið. Í safninu er almenn upplýsingaþjónusta og margvísleg starfsemi fyrir börn, m.a. sögustundir.

Safnið á gott safn listaverka og stendur bókasafnið fyrir margvíslegum sýningum. Undanfarið hafa verið málverkasýningar, kynning á ýmsum málefnum og einnig sýning á handavinnu eldri borgara á Seltjarnarnesi. Nú eru í athugun hugmyndir um flutning Náttúrugripasafns Seltjarnarness yfir í hluta af húsnæði Bókasafnsins á Eiðistorgi.

Nesstofa

Þjóðminjasafnið sér um rekstur Nesstofu. Nesstofa er fyrsti íslenski landlæknisbústaðurinn, hlaðin úr tilhöggnu grjóti á árunum 1761-1763.


Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: