Þorvaldur Skúlason

Þorvaldur Skúlason - Án titils

Þorvaldur Skúlason, Málverk.

Ár: 1965.
Efni: olía á striga.
Stærð: 130 x 195 cm.
Staðsetning: á Bókasafni

Listaverk janúarmánaðar eftir Kristján Davíðsson var hluti af gjöf Ingibjargar og Sverris Sigurðssonar til Bókasafns Seltjarnarness árið 1985. Í þessari gjöf voru fleiri verk sem öll eiga það sammerkt að vera eftir meðlimi Septem-hópsins en í honum voru, auk Kristjáns, Þorvaldur Skúlason, Valtýr Pétursson, Jóhannes Jóhannesson, Karl Kvaran, Guðmunda Andrésdóttir og Steinþór Sigurðsson. Hópurinn, sem hóf samsýningar árið 1974, var að mestu sprottinn upp úr Septembersýningunni sem hafði verið árviss viðburður frá 1947. Það er fremur fágætt að eiga á sama stað svo gott og heilsteypt safn frá þessu tímabili og munu næstu pistlar fjalla um verk þessa hóps um afstrakt list sem skipar mikilvægan sess í íslenskri listasögu.

Verk Þorvaldar Skúlasonar (1906-1984) er stórt og tilkomumikið málverk í algerlega óhlutbundnum stíl. Hann málaði það á tímabili þegar hann hvarf frá lóðréttri/láréttri strangflatarskipan til hringforma og meira streymis. Það er líkt og formin fljóti á djúpbláum grunninum og gullleitu línurnar undirstrika þessa hreyfingu. Fullkomið jafnvægi ríkir innan myndflatarins, milli svartra, brúnna og hvítra forma, en um leið er sem myndin sé hluti af stærri heild, stærra ferli. List Þorvaldar hefur alheimslega (kosmíska) skírskotun, hann er einn af þeim listamönnum sem sáu og skynjuðu langt út fyrir okkar efnislega og hlutbundna heim.

Ásdís ÓlafsdóttirSenda grein

Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: