Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Skólastefna

Skólastefna Seltjarnarness

Skólastefna Seltjarnarness Pdf skjal 465kb.

Skólastefna Seltjarnarness

Inngangur

Skólastefna Seltjarnarness var samþykkt í bæjarstjórn 9. nóvember 2011.

Skólastefna Seltjarnarness varðar þá þjónustu sem skólum á Seltjarnarnesi er ætlað að veita börnum og ungmennum bæjarins til aukins þroska og menntunar. Skólum bæjarins er ætlað að taka mið af stefnunni við skipulagningu starfsemi sinnar og dagleg störf. Starfsfólk skólanna er því í lykilhlutverki við að framkvæma stefnuna eins og til er ætlast. Nemendur og foreldrar gegna einnig veigamiklu hlutverki og ábyrgð eigi árangur skólastarfsins að verða sá sem að er stefnt.

Seltjarnarnes leggur áherslu á að reka góða skóla þar sem boðið er upp á metnaðarfullt og framsækið skólastarf, sem byggir á góðu starfsumhverfi. Áhersla er lögð á að mæta þörfum nemenda og ýta undir hæfileika þeirra. Góð samskipti og samstarf starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra samstarfsaðila er forsenda þess að vel takist til við að byggja upp gott og mannvænt samfélag. Í skólastefnunni er ennfremur lögð áhersla á samvinnu milli skólanna, samfelldan skóladag nemenda og öruggt umhverfi.

Skólastefna Seltjarnarness er í umsjá og á ábyrgð skólanefndar  sem ber ábyrgð á kynningu stefnunnar, að henni sé framfylgt og að settum markmiðum sé náð. Skólastefnan verður í stöðugri skoðun og hún endurmetin með reglubundnum hætti.

Skólastefna Seltjarnarness

Skólastefna Seltjarnarness er leiðarvísir fyrir skólasamfélagið á Seltjarnarnesi. Hún byggir á gildunum VIRÐING, ÁBYRGÐ og VELLÍÐAN sem þátttakendur á Skólaþingi Seltjarnarnesbæjar 2011 sammæltust um. Hún er skrifuð með allt skólastarf í huga og á því jafnt við um leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Stefnan, sem byggir á íslenskri menntastefnu eins og hún kemur fram í lögum[1] og reglugerðum, felur í sér áherslur sem skólarnir á Seltjarnarnesi skulu taka mið af við skipulag og í daglegu skólahaldi.

Í skólastefnunni er lögð áhersla á að barnið sé ávallt í brennidepli og nái að þroska hæfileika sína. Allt skólastarf á að mæta þörfum hvers og eins hvað varðar viðfangsefni náms og kennsluhætti, stuðla að vellíðan nemenda þannig að þeir öðlist þroska, þekkingu og reynslu til að takast á við daglegt líf og ókomna tíð.

Í lýðræðisþjóðfélagi byggir nám og kennsla í góðum skóla á metnaðarfullu og hæfileikaríku starfsfólki, faglegri stjórnun og forystu, fjölbreyttum starfs- og kennsluaðferðum ásamt virkri þátttöku nemenda og foreldra.

Áhersla skal lögð á gott samstarf og sátt um skólastarfið og að virðing einkenni samskipti nemenda, foreldra og starfsfólks skólanna. Nemendur, foreldrar, kennarar og annað starfsfólk vinni saman að því að byggja upp jákvætt samfélag, góðan starfsanda og heilbrigðan aga í metnaðarfullu, skapandi og öruggu umhverfi.

Skólastarfið skal miða að því að nýta sérstöðu Seltjarnarness. Nálægð stofnana býður upp á samfellu í vinnudegi barnanna og möguleika til að nýta  samspil við nærsamfélagið til að skapa nemendum fjölbreytni í námi og leik. Mikilvægt er að forsvarsmenn og starfsfólk skóla, íþrótta- og tómstundastarfs vinni saman með hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi.

Skólastefna Seltjarnarness felur í sér áherslur og setur fram markmið og leiðir fyrir skólastarf. Nemendur, starfsfólk, heimili og samfélag eru hornsteinar skólastarfsins, sem skólastefnan beinist að. Til þess að markmið stefnunnar nái fram að ganga er mikilvægt að þau séu stöðugt í vitund þátttakenda í skólasamfélaginu, starfsfólks, nemenda og foreldra.

Til þess að fylgja skólastefnunni eftir í daglegu starfi er mikilvægt að leik-, grunn- og tónlistarskóli setji sér markmið og áherslur í samræmi við hana fyrir hvert skólaár ásamt áætlun um hvernig meta skuli árangurinn.

 


[1] lög um leikskóla 2008, lög um grunnskóla 2008 og lög um fjárhagslegan stuðning til starfsemi tónlistarskóla 1985


Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: