Saga Hitaveitu Seltjarnarness

Nokkur ártöl frá upphafi Íslandsbyggðar varðandi jarðvarma á Seltjarnarnesi og nágrenni og nýtingu hans:

2002 Borholuhús yfir borholuna SN-12 tekið í notkun. Húsið er hannað af arkitektunum Helgu Bragadóttir og Ágústu Sveinbjörnsdóttir og er skipulagning lóðarinnar við húsið og við hákarlaskúrinn austan við það einnig eftir teikningum þeirra og Ingibjargar Kristjánsdóttur landslagsarkitekts. Húsið er steypt upp af Loftorku og kom tilbúið á staðinn í fjórum einingum. Borholan, sem boruð var árið 1994, gefur allt að 40 l/s af 107°C heitu vatni. Dýpt hennar er 2.714 m, eða sem samsvarar „þremur Esjum“. Þjónar hún stórum hluta veitusvæðisins ásamt borholunum SN-4, SN-5 og SN-6 við Bygggarða.

2001 Verkfræðistofan Vatnaskil ætlar að skila þrívíddarlíkani af svæði hitaveitunnar í september 2001. Tilgangur líkangerðarinnar og annarra vinnslurannsókna, er að tryggja sem hagkvæmasta og sjálfbærasta nýtingu jarðhitasvæðisins í framtíðinni.

1997 Hitaveita Seltjarnarness 25 ára í desember. Hagur hennar er góður og hún stendur á traustum grunni.

1994 Boruð hola (Sn-12, 2712 m) og fóðruð mun dýpra en fyrri holur eða 780 m. Þessi hola á að duga veitunni næstu árin.

1993 Enn þarf að bora nýja holu. Ráðunautar Orkustofnunar mæla með að bora nokkrar grunnar rannsókna-holur í því skyni að kanna jarðhitasvæðið betur. Boraðar fimm rannsóknaholur, 135–153 m djúpar, Sn-7, Sn-8, Sn-9, Sn-10 og Sn-11 á utanverðu Nesinu. Fékkst þá mun skýrari mynd af jarðhitasvæðinu.

1989 Stjórn hitaveitunnar samþykkir að skipta um sölukerfi og taka upp rennslismæla í stað rennslishemla. Uppsetningu mæla lauk í júlí 1990.

1984 Boruð sjötta borholan, (Sn-6, 2700m), en hola Sn-5 hafði valdið vonbrigðum.

1983 Stjórn hitaveitunnar samþykkir að senda tilmæli til notenda að tengja varmaskipta (forhitara) við ofnakerfi sín til að draga úr tæringarskemmdum. Eftir það eru ofnaskemmdir að mestu úr sögunni.

1981 Boruð fimmta borholan, Sn-5, 2207 m djúp, en mjög hafði þá dregið út rennsli frá holu Sn-3. Vatn úr þessari holu nokkuð kaldara en úr holu Sn-4, eða 90–95°C, en í holu Sn-4 mældist 110–115°C.

1977 Efnaíblöndun í hitaveituvatnið hafin í því skyni að hækka sýrustig vatnsins. Virðist hún draga úr ofnabilunum í fyrstu, en eftir 3–4 ár fór allt í sama farið aftur.

1976 „Ofnavinafélagið“, óformleg samtök húseigenda á Seltjarnarnesi með skemmda ofna, stofnað til að þrýsta á stjórn hitaveitunnar um víðtækari og ítarlegir rannsóknir á ofnaskemmdum. Í áhaldahúsi bæjarins er sett upp viðgerðarþjónusta þar sem gert er við ofna húseigenda þeim að kostnaðarlausu.

1975 Tæring í ofnum af völdum heita vatnsins á Seltjarnarnesi veldur vandræðum. Lausn á vandamálinu reyndist vandfundin þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir.

1972 Boruð fjórða borholan, (Sn-4, 2025 m). Samanlagt nýtanlegt vatnsmagn veitunnar 85- 90 l/s af 110-115°C vatni. Hitaveitan fullgerð og formlega tekin í notkun í desember. Þetta sama ár náðist sá áfangi í Reykjavík, að vatnsmagn Hitaveitu Reykjavíkur nægði öllum bæjarbúum.

1971 Hitaveita Seltjarnarness boðin út – fyrstu hús tengd veitunni í desember 1971.

1970 Verkfræðistofan Vermir hf. gerir áætlun um varmaveitu á Seltjarnarnesi. Gufubor borar holu (Sn-3, 1715 m) á Seltjarnarnesi , sem skilar bæði meira og heitara vatni, en gert var ráð fyrir (16 l/s,105°C).

1969 Borholurnar við Bakka og Bygggarða dýpkaðar, og vatn úr þeim var leitt frá Sn-1 að íþróttahúsi, Mýrarhúsaskóla og hreppsskrifstofu og frá Sn-2 að áhaldahúsi hreppsins. Fyrsti vísir að hitaveitu á Nesinu.

1965 Grunnar tilraunaholur boraðar á Seltjarnarnesi, við Bakka (Sn-1, 98 m) og við Bygggarð (Sn-2, 81m ). Hiti í holunum kom á óvart.

1958 Gufubor ríkisins og Reykjavíkur keyptur til landsins og verður þá gjörbylting í þróun jarðhitamála og varmavinnslu í landinu. Innan við helmingur íbúa Reykjavíkur naut þá ódýrrar varmaorku frá HR.

1953 Íbúum Reykjavíkur hafði fjölgað mjög, en aðeins um 35.000 íbúa af um 61.000 höfðu hitaveitu, Reykjavík skiptist þá í tvo hluta: hitaveitusvæði og utan hitaveitusvæðis.

1943 Hitaveita Reykjavíkur fullgerð að mestu í árslok. Þjónaði þá byggð innan Hringbrautar auk Norðurmýrar og hluta Melahverfis. Íbúar í Reykjavík þá um 43.000.

1930 Heitt vatn frá Þvottalaugunum í Laugardal leitt í Austurbæjarskólann, og á næstu árum tengdust hitaveitunni Landspítalinn, Sundhöllin og um 60 íbúðarhús í nágrenninu. Hitaveitu njóta 2,7 % íbúa bæjarins.

1755 Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gera fyrstu tilraun til jarðborunar á Íslandi í Laugarnesi á Seltjarnarnesi – með handknúnum nafri, Rata. Heildarbordýpt 4,2 m – heilleg klöpp stöðvaði frekari borun!

877 Ingólfur Arnarson tekur sér bústað þar sem „öndvegissúlur hans höfðu á land komið – við Arnarhvol fyrir neðan Heiði“ (Landnáma 7. – 8. kaflar). Hann bjó í Reykjavík á Seltjarnarnesi, og er það nokkuð almenn skoðun, að nafnið Reykjavík (eða Reykjarvík) sé dregið af „reyk(ju)num” sem stigið hafi upp frá Laugarnesi, eða e.f.v. frá Reykjarnesi í Örfirisey, þar sem sagnir eru til um heitar laugar.
Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: