Fréttir af skipulagsmálum

Rýnihópur um skipulagsmál tekur til starfa

10.3.2005

Samráð við íbúa
loft1

Bæjarstjórn Seltjarnarnes hefur samþykkt tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar um að efnt verði til frekara samráðs við íbúa í skipulagsmálum. Með tillögunni er verið að bregðast við athugasemdum er bárust við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Seltjarnarness og deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar. Markmið tillögunnar er að opna íbúum betri sýn á forsendur skipulagsvinnunnar, mismunandi tillögur sem komið hafa til umfjöllunar í ferlinu og aðra mögulega uppbyggingarkosti innan bæjarins.

Hlutverk og markmið:

Í þessum tilgangi hefur skipulags- og mannvirkjanefnd nú komið á fót tólf manna rýnihópi sem verði nefndinni til ráðuneytis um álitamál sem tengjast skipulagi á Seltjarnarnesi. Samkvæmt erindisbréfi er hópnum ætlað að vera vettvangur samráðs um stefnumörkun bæjarins í skipulagsmálum. Markmið hópsins er að leitast við að skapa skýrari heildarmynd og leita lausna sem eru til þess fallnar að skapa aukna sátt um uppbyggingu Seltjarnarness á skipulagstímabilinu 2005 - 2024.

Hópurinn mun fjalla um forsendur og meginmarkmið aðalskipulags, ráðstöfun einstakra svæða og leggja fram eina til tvær mögulegar heildarlausnir fyrir skipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar. Auk þess hyggst bæjarstjórn leggja fram endurskoðaða útgáfu af fyrri skipulagstillögu, þar sem tekið verður tillit til framkominna athugasemda.

Þær tvær til þrjár tillögur sem liggja munu fyrir þegar vinnu rýnihópsins lýkur, verða kynntar bæjarbúum og þeim gefinn kostur á að tjá afstöðu sína til þeirra.

Upplýsingar til íbúa

Hópnum er ætlað að leitast við að hafa vilja bæjarbúa að leiðarljósi og að þær lausnir sem fram verði lagðar geti styrkt bæjarfélagið til framtíðar, gagnvart umhverfi, efnahag og samfélagi.

Lögð er rík áhersla á að almennar fréttir af starfi hópsins, milliniðurstöður og aðrar ályktanir séu opinberar. Eftir hvern fund mun hópurinn birta pistil á vef Seltjarnarnesbæjar, www.seltjarnarnes.is og munu sömu upplýsingar vera aðgengilegar á Bókasafni Seltjarnarness á Eiðistorgi. Verður bæjarbúum gefinn kostur á að koma með athugasemdir, í gegnum heimasíðuna, eða á Bókasafninu – en þar er einnig aðgangur að tölvum fyrir þá sem það vilja.

Áætlað er að rýnihópur skili niðurstöðum til skipulags- og mannvirkjanefndar í lok apríl og í framhaldi af því verði þær kynntar bæjarbúum í maí.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta ehf. stýrir vinnu rýnihópsins.
Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: