Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Umhverfishorn

Ljóskastarahús í Suðurnesi - stríðsminjar

LjóskastarahúsUmhverfisnefnd Seltjarnarness sótti í nóvember 2014 um styrk til Húsafriðunarsjóðs vegna Ljóskastarahúss í Suðurnesi. Nýlega barst okkur vitneskja um að styrkur hefði verið veittur og er okkur því mikil ánægja að hefjast handa við rannsókn og lagfæringu hússins.

Pétur Ármannson arkitekt hélt fyrir nokkru fyrirlestur í bókasafni Seltjarnarness. Sýndi hann myndir af áhugaverðum húsum á Seltjarnarnesi eftir ýmsa þekkta arkitekta. Í lok fyrirlesturs síns nefndi hann að af öllum húsum að Nesinu fyndist honum Ljóskastarahúsið í Suðurnesi þó merkilegast.

Í framhaldi þess fékk ég fund með Pétri og Ólafi Mathiesen arkitekt, vegna rannsókna á mannvirkinu og forvörslu. Ólafur starfar hjá Glámu Kími Arkitektum, sem m.a. hefur vakið athygli fyrir hlut sinn í verkefninu „Eyðibýli á Íslandi, rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í sveitum Íslands 2011-2014“. Hafa 7 bindi verið gefin út og rúmlega 700 býli skráð. Þá mun Björn Marteinsson verkfræðingur og arkitekt hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og dósent við Háskóla Íslands leggja rannsókninni lið.

Tilgangur styrkumsóknarinnar til Húsafriðunarsjóðs er að afla fjár til faglegrar leiðsagnar fyrir sveitafélagið um viðeigandi viðhald Ljóskastarahússins svo og að varðveisla þess til framtíðar verði tryggð. Einnig að kanna og skrá sögu þess og finna hliðstæður í alþjóðlegu samhengi. Með því má  vekja áhuga almennings á áhugaverðum minjum úr seinni heimstyrjöldinni. Samskonar hús er ekki til á Íslandi svo kunnugt sé. Hliðstætt verkefni á sviði forvörslu stríðsminja og steinsteyptra „rústa“ hefur heldur ekki verið unnið hér á landi svo kunnugt sé.

Á síðastliðnum árum hefur áhugi á steinsteyptum mannvirkjum frá fyrri hluta 20. aldar aukist mjög. Upplýsingar og leiðbeiningar um aðferðir við viðgerð hefur verið ábótavant og er markmið þessarar rannsóknar að gera bragabót á.

Í tengslum við Eyðibýlaverkefnið hafa rannsóknaraðilar haft frumkvæði að sambandsöflun við t.d. Historic Scotland þar sem mikil og góð þekking við sambærilegar aðstæður er að finna.

Skotar byggðu mikið af varnarmannvirkjum í síðustu heimsstyrjöld og sum hver ámóta og Ljóskastarahúsið í Suðurnesi. Er áhugavert að skoða hvernig þeir halda á málum í forvörslu, viðhaldi og viðgerðum.

Einnnig er fræðslustarf þeirra kraftmikið og töluverður áhugi á að mynda samstarf með aðilum utan Skotlands,  svo þekking og kunnátta megi nýtast sem flestum. Forystufólk við Historic Scotland, Conservation North, hefur lýst eindregnum vilja og áhuga til að styðja viðeigandi verkefni á Íslandi á allan hátt sem mögulegt er.

Á  Seltjarnarnesi eru margar minjar stríðsáranna og gæti það orðið vísir að  stríðsminja- og flugminjasafni á Seltjarnarnesi ef hentugt húsnæði finnst.

Ef einhverjir bæjarbúar eiga myndir eða frásagnir af stríðsminjum á Seltjarnarnesi frá tíma síðari  heimsstyrjaldar þá væri kærkomið að þið  senduð póst á margretpals@islandia.is eða hefðuð samband í síma 892 0750.

Dagur umhverfis er 25. apríl ár hvert. Þá minnumst við þess að þann dag árið 1762 fæddist Sveinn Pálsson fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Hann bjó m.a. í Nesi við Seltjörn í fjögur ár er hann nam læknisfræði hjá frænda sínum Jóni Sveinssyni landlækni.

Hreinsunardagur á Seltjarnarnesi verður laugardaginn 9. maí nk.  Baldur Gunnlaugsson, skrúðgarðyrkjumeistari mun kynna moltugerð. Einnig mun Steinunn Árnadóttir fyrrverandi garðyrkjustjóri Seltjarnarness vera á staðnum og gefa góð ráð. Við verðum á Eiðistorgi milli 10:00 og 14:00 og bjóðum upp á kaffi og köku.

Gleðilegt sumar,

Margrét Pálsdóttir, formaður umhverfisnefndar.


Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: