Varpfuglar á Seltjarnarnesi 2015

KríurKríuvarp á Seltjarnarnesi er í góðu meðallagi í ár samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum talningarmanna. Varpið er kringum 2000 hreiður, en það er svipað og árin 2000, 2009 og 2013. Metið var árið 2005, rúmlega 4500 hreiður. Eftir það fór að halla undan fæti fyrir kríunni vegna ætisskorts og hruns í sandsílastofninum. Hrunið er talið stafa af hækkandi sjávarhita, komu makríls o.fl. Árið 2007 voru hreiðrin eingöngu 500 og árið 2011 varp krían alls ekki.

Um 1400 hreiður eru í Suðurnesi og 600 í Gróttu og á Snoppu. Nú er bara að bíða og vona að einhverjir ungar komist á legg. Gott varp þarf ekki að þýða góðan varpárangur. Í fyrra komust einhverjir tugir unga á legg og er það í fyrsta sinn næstum áratug, sem slíkt gerist á Nesinu. Talið er á tveggja ára fresti og eru skýrslur um talningarnar birtar á vef Seltjarnarnesbæjar.

Nýr varpfugl fannst á Seltjarnarnesi þegar kríutalningin stóð yfir. Það var jaðrakan í Dal í Suðurnesi. Jaðrakanapar sást í Dal í lok maí, en ekkert benti samt til varps fyrr en talningamenn fældu annan fuglinn af hreiðrinu. Jaðrakan er annars strjáll gestur á Seltjarnarnesi.

Ekki gekk vel hjá álftaparinu á Bakkatjörn. Svandís og maki hennar misstu eina ungann sem klaktist hjá þeim í slæmu veðri í byrjun júní. Í fyrra komust 3 ungar á legg, en árið 2013 gekk varpið ekki. Svandís hefur virkað fremur slöpp síðan 2013, en varpið í fyrra vakti þó vonir um að hún væri að braggast. Annað par heldur nú til í Dal í Suðurnesi, það er í fyrsta sinn sem aðrar álftir en Bakkatjarnarálftirnar hafa búfestu á Seltjarnarnesi. Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála næsta vor, mikil eftirspurn er eftir góðum álftaóðulum.

Annað varp virðist hafa gengið sæmilega, þó tjaldarnir í Suðurnesi séu óvenju seinir. Margir fuglar urpu seint í vor vegna þrálátra norðanátta og kulda í maí og fram eftir júní.

Heimildir og mynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

F.h. umhverfisnefndar, Margrét Pálsdóttir, formaður.


Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: