Varpfuglar á Seltjarnarnesi árið 2015

KríaAnnað hvert ár eru varpfuglar og annað fuglalíf á Seltjarnarnesi skoðað að frumkvæði umhverfisnefndar. Það er hluti af vöktunardagskrá, sem staðið hefur frá aldamótum, en upplýsingar ná þó lengra aftur.

Krían er efst á lista yfir þá fugla sem fylgst er með; hún er algengasti varpfuglinn á Seltjarnarnesi. Hún hefur staðið í ströngu undanfarin ár vegna ætisskorts í hafinu, er kær flestum vegna nábýlis við manninn og er afar merkilegur fugl fyrir þær sakir að hún fer allra dýra jarðarinnar lengst á árlegum ferðum sínum milli varpstöðva og vetrarstöðva. Kríuvarpið sumarið 2015 var í góðu meðallagi, um 2200 pör og jók það bjartsýni manna um að krían væri að ná sér á strik og að vonandi kæmust einhverjir ungar á legg. 

Varpið var gott í Suðurnesi, mest í óræktinni í Dal og á svæðum E og F á golfvellinum (2. mynd í skýrslu). Varpið í Gróttu var sæmilegt og varpið í Snoppu óvenjugott. Ekkert varp var nú við Bakkatjörn. Umfang varpanna í Suðurnesi og Gróttu hefur dregist saman. Afkoma kríu var óvenju góð, líklega sú besta síðan 2004. Einhver hundruð unga komust á legg. Vonandi er þetta aðeins upphafið á frekari uppgangi kríunnar, sem og annarra fugla sem treysta á síli sér til framdráttar.

Margir fuglar urpu seint í vor vegna þrálátra norðanátta og kulda í maí og fram eftir júní. Varp heppnaðist hjá álftahjónunum á Bakkatjörn, en eini unginn sem komst á vatn, dó í slæmu veðri í júníbyrjun. Karlfuglinn gaf síðan upp öndina um miðjan ágúst, Svandís lifði maka sinn. Varpið gekk vel hjá grágæsum og æðarfugli, en lítið sást af andarungum. Varp mófugla gekk vel. Jaðrakan fannst nú í fyrsta sinn verpandi á Seltjarnarnesi, hreiður með fjórum eggjum fannst í Dal í Suðurnesi og komust allavega tveir ungar á legg. Lítið hettumáfsvarp var í Gróttu. Varp svartþrasta í görðum á Seltjarnarnesi er nú orðið stöðugt og er hann einn algengasti garðfuglinn, ásamt skógarþresti, auðnutittlingi og stara.

Nú var talið á Leirum í Bakkavík á fartíma vor og síðsumars/hausts og jafnframt á Gróttugranda um vorið. Leirur voru mikið notaðar af vaðfuglum og margæs um vorið, en af vaðfuglum og kríu síðsumars og framá haust. Gróttugrandi var mest notaður af æðarfuglum, en jafnframt af vaðfuglum, svo og kríum síðsumars.

Seltjarnarnes er mikilvægur viðkomustaður fyrir farfugla, bæði þá sem eiga leið um landið á ferðum sínum milli varpstöðva á Grænlandi og Íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Evrópu og V-Afríku, sem og íslenskra varpfugla. Margæsin er meðal þessara fugla og sá sem dvelur lengst á svæðinu á vorin, þær geta skipt hundruðum. Aðrir fuglar í þessum hópi eru rauðbrystingur, sanderla, tildra, svo og sandlóa og lóuþræll, sem jafnframt eru íslenskir varpfuglar. Nokkrir sjaldgæfir fuglar sáust á árinu og ein tegund bættist við fuglalista Seltjarnarness 2015, ameríska öndin kúfönd.

Hugmyndir um uppfyllingar við Suðurnes eru harðlega gagnrýndar í skýrslunni, slíkt samræmist ekki náttúruverndarstefnu sveitarfélagsins, sem starfar samkvæmt Staðardagskrá 21. Uppfyllingar gætu skaðað fjöru og fuglalíf varanlega.


F.h. umhverfisnefndar,

Margrét Pálsdóttir, formaður.
Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: