Fugl mánaðarins - Kría

KríaKrían er langalgengasti varpfuglinn á Seltjarnarnesi og geta hreiðrin skipt þúsundum í góðum árum. Þessi mikli ferðalangur, sem er með vetursetu í Suður-Íshafinu, kemur venjulega til landsins snemma í maí, þó fyrstu fuglarnir sjáist oftast síðustu dagana í apríl. Hún verpur víða á Nesinu, stærstu vörpin eru núna í Suðurnesi og Gróttu, en nokkuð stórt varp er jafnframt í Snoppu. Um tíma var varp við Bakkatjörn, en það er nú horfið. Nokkrar sveiflur eru milli ára í stærð varpanna. Krían er síðan að mestu horfin um mánaðamótin ágúst-september.

Kríuvarpið á Seltjarnarnesi öllu hefur verið vaktað að frumkvæði Umhverfisnefndar frá árinu 2000, en lengur í Gróttu.

Afar léleg afkoma hefur verið hjá kríunni um skeið eða þangað til í fyrra, 2015, það hafa ekki komist upp jafn margir ungar frá árinu 2004. Árið 2005 var metár í varpinu, þá urpu rúmlega 4500 pör á Seltjarnarnesi, en afkoman var léleg, fáir ungar komust á legg. Árið 2007 var lítið varp og 2011 ekkert. Ástæðan fyrir þessari óáran er fyrst og fremst skortur á aðalæti kríunnar, sandsílinu. Hlýnandi sjór og gróðurhúsaáhrif eru talin valda lélegri afkomu þess. Fjölmargir aðrir sjófuglar deila þessu æti með kríunni og hefur sama óáran hrjáð þá og hana. En eftir góða afkomu í fyrra eru menn bjartsýnir á að krían nái sér á strik aftur. Það er líka afar nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar, varplandið. Grótta er friðuð og er það vel, huga þarf að friðun þeirra svæða í Suðurnesi og Snoppu þar sem hún vill helst vera.

Jóhann Óli Hilmarsson, www.johannoli.com

Myndatexti: Kría með sandsíli handa ungum sínum í Dal í Suðurnesi 31. júlí 2015. Ljósm. JÓH.

Viðurkenningar

Kristín Helga Jónsdóttir og Vlado Glusica ásamt Ólínu E ThoroddssenÞann 6. júní síðastliðinn fór fram útskrift nema í 10. bekk Valhúsaskóla. Umhverfisnefnd Seltjarnarness veitti tveimur útskriftarnemum viðurkenningar. Að þessu sinni hlutu þau Kristín Helga Jónsdóttir viðurkenningu fyrir árangur og ástundun í náttúrufræðum. Hvatningarverðlaun hlaut Vlado Glusica. Í baksýn sést Ólína E. Thoroddssen skólastjóri.

F.h. umhverfisnefndar,
Margrét Pálsdóttir, formaður.Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: