Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Umhverfismál

Umhverfisstefna Seltjarnarness

 1. Lög og reglugerðir

  Seltjarnarnesbær mun kappkosta að framfylgja lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál sem eiga við starfsemi sveitarfélagsins. Sveitarfélagið leggur áherslu á að starfa eftir staðardagskrá 21, viðhalda henni og nota þau markmið sem þar eru sett fram.
 2. Umhverfisfræðsla

  Seltjarnarnes leggur áherslu á að miðla og auka þekkingu á mikilvægi umhverfismála í almennum lífsháttum. Íbúar og aðrir áhugsamir skulu hafa aðgang að upplýsingum og möguleika á þátttöku í ákvörðunum varðandi umhverfi sitt. Mótuð skal heildarstefna í umhverfisfræðslu fyrir skóla, starfsmenn bæjarins og íbúa.
 3. Skipulagsmál

  Mörkuð verði stefna um framtíðarsýn og frágang í nær fullbyggðu sveitarfélagi. Við gerð aðalskipulags verði tekið mið af varðveislu náttúrugæða, menningarverðmæta og að þróun miðbæjar og umhverfisins í heild verði styrkt og skilgreind. Mikilvægt er að við úrlausn þessara verkefna verði sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi og stefnt að því að Seltjarnarnes verði í fremstu röð meðal vistvænna sveitarfélaga.
 4. Varðveisla lífríkis, náttúrugæða og menningarverðmæta

  Seltjarnarnesbær mun kappkosta að varðveita fjölbreytni náttúrunnar með vel undirbúnum aðgerðum og vönduðum vinnubrögðum. Náttúrugæðum og menningarverðmætum verði við haldið og íbúum verði auðveldað að njóta náttúrunnar, sögunnar og menningarminjanna.
 5. Auðlindir

  Tryggt skal að helstu auðlindir bæjarins verði nýttar á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Fræðsla um bætta nýtingu og sparnað auðlinda meðal neytenda verði efld.
 6. Fráveita og sorphirða

  Þess verði gætt að farið verði eftir lögum og reglum um frárennslis- og sorphirðu hverju sinni. Stefnt skal að því að minnka sorpmagn og auka hlut endurnýtingar og endurvinnslu. Notkun hættulegra efna, eiturefna og myndun spilliefna verði í lágmarki.
 7. Innkaupastefna og grænt bókhald

  Sjónarmið umhverfisverndar skulu höfð að leiðarljósi í rekstri, stjórnun og uppbyggingu bæjarins. Því til stuðnings mun bærinn m.a. marka sér vistvæna umhverfisstefnu. Seltjarnarnesbær haldi grænt bókhald um stöðu umhverfismála sem almenningur skal hafa greiðan aðgang að.
 8. Bæjarbragur, mannlíf og miðlun upplýsinga

  Seltjarnarnesbær leggur áherslu á að miðla og auka þekkingu á mikilvægi umhverfismála í almennum lífsháttum. Stefnt skal að því að efla samkennd meðal íbúa Seltjarnarness, stuðla að umhverfisvernd, betra mannlífi og miðlun upplýsinga til bæjarbúa með markvissum hætti.
 9. Staðardagskrá 21

  Sveitarfélagið skuldbindur sig til að vinna í anda Staðardagskrár 21 þar sem íbúar og aðrir áhugasamir hafa möguleika á þátttöku í ákvörðunum varðandi umhverfi sitt.

Endurbætt 4. útgáfa sept 2001


Þjónusta


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: