Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Útivist og náttúra

Umhverfi á Seltjarnarnesi

Seltjarnarnesbær stendur á vestasta og ysta hluta hins forna Seltjarnarneshrepps, sem náði frá Gróttu austur að Hólmi. Núverandi bæjarmörk við Reykjavíkurborg eru um Eiðisvík að norðan um Eiðisdældir og Lambastaðamýri að Sækambi Eystri við Faxaskjól, að sunnanverðu.

Flatarmál bæjarsins miðað við stórstraumsfjöru er um 2,9 km2. Frá mörkum við Reykjavík eru u.þ.b. 2,4 km. Mesta breidd Nessins er um 1 km en mjóst er það um 500 m.

Nesið er allt láglent. Valhúsahæð (31 m.y.s.) stendur hæst en meirihluti landsins er neðan við 15 m hæðarlínu. Inn í ströndina skerast grunnar víkur, vik og varir. Að sunnan má nefna Sandvik og Bakkvík. Milli Suðurness og Gróttu er Seltjörn, sem eins og nafnið ber með sér, var áður tjörn en er nú vík fyrir opnu hafi. Að norðanverðu eru Vatnavík, Vesturvik, Austurvik og Eiðisvík.

Fjörur á sunnan- og vestanverðu Nesinu eru yfirleitt lágar sandfjörur en stórgrýttara að norðanverðu. Víðast meðfram ströndinni er búið að hlaða upp görðum til varnar fyrir sjávargangi.

Þrjár tjarnir, Bakkatjörn, Búðatjörn og Tjörn í Dal, prýða Nesið en bæjarlækur finnst enginn. Bakkatjörn var áður leiruvogur inn úr Bakkavík en ósnum var lokað um 1960. Við það breyttist hún í ísalta tjörn.

Gróður á óbyggðum svæðum er um 1 km2 að flatarmáli. Stærstu gróðurlendin eru tún og graslendi. Innan bæjarmarkanna hafa verið skráðar 140 tegundir plantna sem er um 32% íslensku flórunnar.

Grótta úr fjarlægðFuglalífið á Seltjarnarnesi er sérlega fjölskrúðugt, t.d. við Gróttu og Bakkatjörn. Fjölmargar tegundir fugla verpa reglulega á Nesinu og meðal þeirra eru krían, gargönd, æður og stokkönd.

Grótta hefur um skeið verið friðlýst svæði og í nóvember 2000 var Bakkatjörn og nánasta umhverfi hennar friðlýst að frumkvæði Umhverfisnefndar. Friðlýsingin er stórt skref framávið fyrir umhverfisvernd á Seltjarnarnesi en Valhúsahæð, Seltjarnarnesfjörur og Suðurnes hafa verið á Náttúruminjaskrá síðan 1981.

Óbyggðu svæðin hafa mikið útivistargildi og njóta sífellt meiri vinsælda meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Heimild:

Náttúrufar á Seltjarnarnesi (gefin út af Seltjarnarnesbæ 1997).

Aðrar bækur og myndbönd um náttúrufar á Seltjarnarnesi:

Seltirningabók eftir Heimi Þorleifsson. Gefin út af Seltjarnarnesbæ, 1991.

Lífríki í landi Seltjarnarness, myndband. Framleiðandi Kvik hf. kvikmyndagerð fyrir menningarnefnd Seltjarnarness, 2001.
Útivist og náttúra


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: