Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Dýralíf

Dýralíf á Seltjarnarnesi

Fuglalíf


MáfagerFram til ársins 1957 höfðu sést 83 fuglategundir á Seltjarnarnesi en til 1992 höfðu sést eigi færri en 106 fuglategundir. Staða tegundanna í fuglalífi Seltjarnarness er mjög breytileg. Sumar eru aðeins flækingar sem sést hafa í fá skipti. Margar tegundir eru íslenskir varpfuglar en aðrar eru svokallaðir fargestir eða umferðarfuglar, sem verpa ekki hér á landi en stoppa við á ákveðnum tímum árs. Að lokum eru það vetrargestir sem dvelja á svæðinu um lengri eða skemmri tíma yfir vetrarmánuðina.

Af varpfuglunum er krían lang algengust. Aðalvarpstaðir hennar eru í Gróttu, á Suðurnesi í kring um golfvöllinn, við Bakkatjörn og í Snoppu. Níu tegundir af andfuglum verpa á Nesinu, flestar þeirra sjaldgæfar, nema æðarfuglinn sem er önnur algengasta fuglategund svæðisins.
Á Nesinu verpa einnig stokkönd, gargönd, duggönd, skúfönd, hávella og toppönd. Grágæs hóf varp á Nesinu í lok sjötta áratugarins. Svanahjón hafa nýlega hreiðrað um sig í hólmanum í Bakkatjörn.

Vaðfuglategundirnar eru sjö og þar eru stelkur og sandlóa algengust. Mikið ber á tjaldi, en hann er í þriðja sæti hvað fjölda varpfuglapara snertir. Sex tegundir af spörfuglum verpa á Nesinu og er stari algengastur, þar næst þúfutittlingur og maríuerla í þriðja sæti. Hrafn verpir ekki á Nesinu en er hins vegar algengur gestur við sjávarsíðuna á veturna.

Æðarbliki á sundiFrá miðjum apríl fram í maí má sjá margæsir víða á Framnesinu. Þær gera þar stuttan stans á leið sinni frá Evrópu til varpstöðva í Íshafslöndum. Sömuleiðis vaðfuglarnir tildra, rauðbrystingur og sanderla. Sendlingur er algengur fjörugestur á veturna og þá má einnig sjá staka himbrima og jafnvel lóm í ætisleit með ströndum. Bæði dílaskarfur og toppskarfur hafa hér vetursetu og eru áberandi þar sem þeir sitja á skerjum og þurrka vængina.

Selir og annað dýralíf


Selir og hvalir hafa sést við strandlengjur Seltjarnarness í gegnum tíðina. Máldagi Reykjarvíkurkirkju frá 1379 getur selaláturs í Örfirisey og einnig í máldaga Engeyjarkirkju frá 1500. Selveiðin hefur þó trúlega aldrei verið til mikilla búbóta á Seltjarnarnesi, því fáar heimildir geta sela sem hlunninda á því svæði sem kaupstaðurinn nær nú yfir. Landselur hefur verið langalgengasta selategundin á sundunum við Seltjarnarnes en einnig hefur sést til útsela.

Hvalir eru fremur fátíðir í sjónum fast við strendur Seltjarnarness. Nokkrar heimildir eru þó um hvalreka og lifandi hvali í sjónum undan ströndinni. Ýmsar hvalategundir eru e.t.v. allalgengar á sundunum umhverfis Nesið, s.s. hnísa, hnýðingur og háhyrningur.

BúðatjörnAf snæsniglum sem lifa á þörungum eru ýmsar dopputegundir algengar. Nákuðungur er einnig áberandi. Kræklingur og mæruskel eru helstu skeljategundirnar. Hrúðukarlar eru ekki algengir en finnast þó sumstaðar. Ýmsar tegundir af marflóm og þanglúsum leynast í þangbreiðunum og snúðormar sitja í hvítum snúðlaga pípum á sagþangi og skúfþangi. Í Bakkavík og við innanverða Seltjörn skilur sandmaðkurinn eftir sig sandhrauka á fjöru og setur þar með svip sinn á umhverfið. Krossfiskar, bogkrabbar og marglyttur finnast einnig í fjöruborðinu.

Úr bókinni Náttúrufar á Seltjarnarnesi.
Myndir: Kristbjörn Egilsson, Jóhann Óli Hilmarsson og Haukur Snorrason
Útivist og náttúra


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: