Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Náttúrufar

Náttúrufar á Seltjarnarnesi

Jarðfræði Seltjarnarness

Landslag á Seltjarnarnesi er með tvennum hætti, annars vegar holt þar sem berggrunnurinn er grágrýtishraun, hins vegar eiði sem mynduð eru úr lausum jarðlögum. Berggrunnurinn er byggður upp af hraunlögum frá næstsíðasta hlýskeiði ísaldar og er hluti af svokölluðu Reykjavíkurgrágrýti. Jarðhitaborholur gefa vitneskju um eldri jarðsögu svæðisins.

Undir grágrýtishraununum eru sjávarsetlög, strandmyndanir og jökulberg en neðar eru hraunlög og brotaberg er rekja má til megineldstöðvar sem kennd er við Kjalarnes. Mestur hluti Seltjarnarness er nú hulinn lausum jarðmyndunum og víða má sjá jökulruðning, t.d. á Valhúsahæð. Strand- og fjörumyndanir eru víða áberandi en fjörumórinn á Kotagranda og í Bakkavík er til vitnis um landsig á nútíma. Sérstakt jarðhitasvæði er kennt við Seltjarnarnes, en talið er að þrjú heitavatnskerfi séu undir Nesinu.

Landbrot á Seltjarnarnesi er víða töluvert og öðru hverju hafa orðið töluverðar skemmdir vegna sjávargangs og flóða. Í Básendaflóðinu 1799 gekk sjór yfir Nesið á rúmlega 500 metra breiðu belti. Rannsóknir benda til þess að landsig sé töluvert á Seltjarnarnesi; undanfarin árþúsund hefur það sennilega verið nálægt 0,5 mm á ári.

Gróður:

Fjaran undir RáðagerðisbakkaGróður á óbyggðum svæðum er nú um 1 km2 að flatarmáli. Stærstu gróðurlendin eru tún og graslendi en einnig finnast mólendi, votlendi, melar, flög og strandgróður.

Ljóst er að ýmis gróðurlendi sem áður einkenndu bæjarlandið eru nær alveg horfin. Má þar nefna votlendi með mýrum og tjörnum og mólendi.

Innan bæjarmarkanna hafa verið skráðar 140 háplantna, sem er um 32% íslensku flórunnar. Ýmsar tegundir sem áður voru algengar á Nesinu eru nú sjaldgæfar, vegna þess að sífellt stærri hluti af kjörlendi þeirra hefur farið undir byggð. Giljaflækja er eina tegundin á svæðinu sem telja má fágæta á landsvísu.

Fuglalíf.

Kría á sveimi

Mikið er til af upplýsingum um fuglalíf á Seltjarnarnesi frá síðustu fjórum áratugum. Minna er vitað um annað dýralíf. Fuglalífið er sérlega fjölskrúðugt, t.d. í Gróttu, á Bakkatjörn og í Bakkavík, svo og út til sjávarins.

Margbreytilegt fuglalíf er oft takmarkað við vissa árstíma en á Seltjarnarnesi er auðugt fuglalíf á öllum tímum árs, á veturna, um fartíma fugla vor og haust sem og á sumrin.

Um 23 tegundir fugla verpa reglulega á Nesinu en um 30 tegundir sjást jafnan yfir háveturinn. Til ársloka 1992 var vitað um 106 fuglategundir (og eina deilitegund) sem höfðu sést á Seltjarnarnesi.

Fjörur.

BúðatjörnFjörur á Seltjarnarnesi eru miklar um sig, og er áætlað flatarmál um 0, 93 km2, þar af tæpur þriðjungur í Suðurnesi og tæpur fimmtungur í Gróttu. Þær eru að mestum hluta hnullunga-, stógrýtis-, og klapparfjörur, en í Bakkavík og innanverðri Seltjörn er fjörubeðurinn möl og sandur, sums staðar blandinn leðju. Stórvaxnar þangtegundir eru víðast hvar ríkjandi í fjörunni, en þó minna áberandi þar sem er möl og sandur.

Allmargar tegundir blómplantna vaxa við efri jaðar fjörunnar, einkum við Bakkavík og innanverða Seltjörn. Dýralíf er auðugt í þangfjörunum, og eru sæsniglar, samlokur, marflær, þanglýs og burstaormar einna mest áberandi. Í leðjubornum sand og malarfjörum er sums staðar töluvert af sandmaðki og öðrum burstaormum. Við lokun á ósi Bakkatjarnar fóru forgörðum talsverðar leirur en að öðru leyti varð ekki vart við áberandi röskun fjörulífríkisins af mannavöldum.

FramnesiðUmgengni er yfirleitt góð, bæði í fjörum og á grónu landi. Ástand þess villta gróðurs sem enn finnst er yfirleitt gott.

Grótta hefur um skeið verið friðlýst svæði og í nóvember 2000 var Bakkatjörn og nánasta umhverfi hennar friðlýst að frumkvæði Umhverfisnefndar. Friðlýsingin er stórt skref framávið fyrir umhverfisvernd á Seltjarnarnesi en Valhúsahæð, Seltjarnarnesfjörur og Suðurnes hafa verið á Náttúruminjaskrá síðan 1981.

Óbyggðu svæðin hafa mikið útivistargildi og njóta sífellt meiri vinsælda meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Úr bókinni Náttúrufar á Seltjarnarnesi.
Myndir: Kristbjörn Egilsson, Jóhann Óli Hilmarsson og Haukur Snorrason
Útivist og náttúra


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: