Málverkasýning Elínar Þ. Rafnsdóttur í Gallerí Gróttu
Opnun laugardaginn 15. nóvember kl. 14–16
Elín Þ. Rafnsdóttir opnar einkasýningu sína Yfirborð og undirdjúp í Gallerí Gróttu á Eiðistorgi laugardaginn 15. nóvember kl. 14–16.
Nafnið vísar til hins marglaga eðlis verkanna, þar sem óræðar náttúrustemmur endurspegla bæði yfirborð og innri víddir náttúrunnar. Á sýningunni eru ný verk frá árinu, olíumálverk og blekmyndir sem byggja á áferðum jarðar, undirdjúpum vatnsins og litasamspili.
Elín sækir innblástur í íslenska náttúru, ferðalög erlendis og í útivist. Í verkum sínum dregur hún fram óhlutbundnar og tilfinningalegar hliðar landslagsins, þar sem efniviðurinn og ferlið sjálft leiða hana áfram. Útkoman eru verk sem skapa rými fyrir ímyndunarafl og tilfinningu.
Eftir nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 hélt Elín til Danmerkur og útskrifaðist í skúlptúr frá Konunglegu dönsku listaakademíunni árið 1982. Hún lauk síðar meistaragráðu í höggmyndalist í Bandaríkjunum og kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands.
Málverkið hefur síðan orðið hennar leið til að tjá form, liti og efni á eigin forsendum. „Það skiptir ekki máli í hvaða miðli ég vinn með bara að fá að skapa,“ segir Elín, sem nýtur þess að prófa ný efnistök og ögra sjálfri sér í ferlinu.
Yfirborð og undirdjúp vísar einnig til þess að á sýningunni birtast tvær hliðar á listsköpun Elínar. Annars vegar eru óhlutbundin expressionísk olíumálverk og hins vegar blekmyndir sem endurspegla náttúrustemmur og ferðalög hennar. Olíumálverkin vinnur hún á vinnustofu sinni, en blekmyndirnar verða til heima og á ferðalögum.
Elín ferðast víða og hefur jafnan með sér skissubækur, blek, teikniáhöld og vatnslitapappír. Á ferðalögum vinnur hún alfarið á pappír, en í vinnustofunni vinnur hún í olíu á striga. „Það er ólík nálgun,“ segir hún, „því á vinnustofunni þarf ég ekki að passa að það slettist á gólf og veggi en heima og að heiman þarf að huga að því.“
Nýr kafli er hafinn í lífi Elínar, hún hefur nú lokið 35 ára farsælum ferli sem kennari í myndlist á framhaldsskólastigi og getur loks alfarið helgað sér listinni og lífinu. „Það var gaman að kenna,“ segir Elín, „en dásamlegt að geta nú einbeitt mér að listsköpuninni.“
Elín hélt sína fyrstu einkasýningu sextug að aldri og hefur síðan tekið þátt í samsýningum bæði heima og erlendis, auk þess að halda nokkrar einkasýningar. Yfirborð og undirdjúp markar nýjan kafla í listsköpun hennar þar sem hún getur núna alfarið helgað sig að listsköpun.