Virkt foreldrasamstarf styrkir skólastarfið og samvinna um nemendur hefur veruleg áhrif á námsárangur þeirra, félagslega færni, líðan og almenna velgengni í skólanum.
Umsjónarkennari er lykilaðili í skólastarfinu, þekkir nemendur sína best og er tengiliður foreldra og barna við annað starfsfólk skólans.
Starfsmenn Mýrarhúsaskóla og foreldrar nemenda vinna sameiginlega að menntun, alhliða þroska og vellíðan nemenda. Skv. bók Nönnu Christiansen, Skóli og skólaforeldrar ættu markmið samstarfs heimila og skóla að vera að tryggja stuðning beggja aðila við nemendur. Því er mikilvægt að foreldrar og kennarar samræmi væntingar sínar og viðhorf til nemenda þannig að skilaboðin séu samstillt. Nemendum er fyrir bestu þegar skóli og foreldrar starfa saman með hag barnsins að leiðarljósi.