Skólastjórnendur Mýrarhúsaskóla leggja mikla áherslu á ábyrga og örugga netnotkun nemenda og starfsfólks. Þetta nær til persónuverndar, siðferðis og gagnrýninnar nálgunar á netnotkun.
Í síbreytilegu tæknisamfélagi hefur samskiptamiðlum fjölgað og eru þeir nú ómissandi í daglegu starfi og námi. Þó tæknin bjóði upp á marga kosti og vaxtarmöguleika geta skuggahliðar hennar haft andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar. Með því að kenna börnum að nýta snjalltæki og nútímatækni í námi er hægt að leiðbeina þeim og styðja við heilbrigða notkun.
Virknikorti er ætlað að leiðbeina foreldrum og börnum þeirra í samræðum um ákjósanleg viðmið um félagslega virkni og heilbrigt líferni. Stuttar leiðbeiningar eru á kortinu og þar eru einnig virkir tenglar sem vísa beint á hagnýtt efni á heilsuvera.is til stuðnings einstökum efnisatriðum.
