Fara í efni

Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á Seltjarnarnesi

Nr. 321/2001

1. gr.

Eiganda eða umráðamanni húss eða mannvirkis er skylt að halda eigninni vel við, hreinni og snyrtilegri svo og tilheyrandi lóð og girðingum.

2. gr.

Bannað er að skilja eftir, flytja eða geyma lausamuni á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti svo sem kerrur, bílhluta, bílflök, skipsskrokka o.s.frv.

3. gr.

Óheimilt er að geyma hvers kyns drasl, bílhræ og þess háttar á lóðum þannig að það snúi að almannafæri. Lóðir sem notaðar eru til geymslu á slíku, skal skerma af með skjólveggjum, sem samþykktir eru af byggingafulltrúa.

4. gr.

Bifreiðar og önnur skráningarskyld ökutæki sem geymd eru á lóðum íbúðarhúsa skulu geymd á þar til gerðum stæðum sem samþykkt hafa verið af byggingaryfirvöldum.

5. gr.

Óheimilt er að geyma báta, kerrur, skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki vinnuvélar eða aðra hluti á bifreiðastæðum sveitarfélagsins, við götur eða á almannafæri. Heimilt er að fjarlægja slíka hluti á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun t.d. með álímingarmiða.

6. gr.

Telji heilbrigðisfulltrúi svo alvarlega hættu stafa af geymslu hlutar eða tækis á svæðum sbr. 5. gr. að aðgerð þoli enga bið er heimilt að fjarlægja slíka hluti eða tæki án viðvörunar.

7. gr.

Þeir sem annast flutninga á almannafæri, skulu haga þeim þannig að ekki valdi óþrifnaði.

8. gr.

Eigi má haga hreinsun fasteigna þannig að leitt geti til óþrifnaðar umhverfis.

9. gr.

Um eftirlit samkvæmt samþykkt þessari fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum.

10. gr.

Með brot gegn samþykkt þessari, valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög skal farið samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum.

11. gr.

Ofangreind samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, til að öðlast gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu 11. apríl 2001.

F.h.r.

Ingimar Sigurðsson (sign)

Sigurbjörg Sæmundsdóttir (sign)

Síðast uppfært 20. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?