Fara í efni

Bæjarstjórn

27. nóvember 2019

Miðvikudaginn 27. nóvember 2019 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB) sem mætti kl. 17:11.

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Fundargerð 90. fundar Bæjarráðs.

    Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni sem er 5.tl eru staðfestir samhljóða.

    Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

  2. Fundargerð 302. fundar Skólanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.
    Bókun meirihlutans við 3. tl.

    Meirihluti bæjarstjórnar harmar þann ágreining sem upp kom um námsmat í Grunnskóla Seltjarnarness og lokamat 10. bekkjar sl. vor og biður nemendur og foreldra afsökunar á því tilfinningalega tjóni og óþægindum sem það kann að hafa valdið, og afleiðingum sem þetta hafði í för með sér. Enda leggur meirihluti bæjarstjórnar mikla áherslu á að námsmat og vinnsla þess standist lög og reglur.

    Eins og formaður skólanefndar hefur nefnt hér áður á bæjarstjórnafundi kom upp við skólaslit Grunnskóla Seltjarnarness í júní 2019 áhöld um hvernig staðið hafi verið að námsmati í skólanum og lokamati 10. bekkjar. Nokkrir foreldrar höfðu samband við fræðslustjóra og formann skólanefndar vegna málsins og lögðu fram upplýsingar sem gáfu tilefni til að taka það til frekari skoðunar.

    Foreldrafélag Grunnskóla Seltjarnarness sendi jafnframt skólanefnd Seltjarnarnesbæjar erindi dagsett 12.06.2019, fyrir hönd foreldra / forráðamanna nemenda 10. bekkjar, þar sem aðfinnslur þeirra voru teknar saman og óskað var svara.

    Erindið var tekið fyrir á fundi skólanefndar 19.06.2019 og fól nefndin stjórnendum Grunnskóla Seltjarnarness að svara erindinu. Svar við erindinu barst frá skólastjóra Grunnskóla Seltjarnarness 26.06.2019 og var það sent fulltrúum skólanefndar og stjórn foreldrafélags skólans. Svarbréf skólastjóra var svo tekið formlega fyrir á fundi skólanefndar 28.08.2019. Skólastjóri leiðrétti þar ákveðin atriði í svarbréfi sínu og baðst afsökunar á fyrri svörum, þar sem þau byggðu ekki á réttum upplýsingum.

    Til viðbótar og tengt umræddu máli barst Seltjarnarnesbæ um miðjan júlímánuð bréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 9.07.2019 þar sem kvörtun hafði borist um að skólinn fylgdi ekki matsviðmiðum aðalnámskrár við einkunnagjöf við lok 10. bekkjar. Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu sveitarfélagsins til erindisins auk þess að óska sérstaklega eftir upplýsingum um með hvaða hætti unnið er að námsmati með tilliti til mats- og hæfniviðmiða á grundvelli aðalnámskrár af hálfu Grunnskóla Seltjarnarness.

    Formaður skólanefndar og fræðslustjóri höfðu þá þegar lagt til að leitað yrði til óháðs fagaðila um skoðun á því hvernig staðið var að námsmati við skólann, sérstaklega m.t.t. mats- og hæfniviðmiða og var ákvörðun um það staðfest í kjölfar erindis ráðuneytisins.

    Til verksins var fengin Erna Ingibjörg Pálsdóttir, skólastjóri Álftanesskóla, en hún hefur yfirgripsmikla þekkingu á námsmati og vinnslu þess.

    Erna Ingibjörg skilaði af sér greinargerð um námsmat sem fylgir með í fundargögnum fundar skólanefndar frá 12. nóvember s.l. þar sem hún fer ítarlega yfir námsmatið. Þar kemur fram að vinnan við hæfnimiðað námsmat sé „kominn nokkuð vel á veg“ í GS en að spurningar sem vöknuðu meðal foreldra hafi ekki verið tilefnislausar og því þurfi að taka þarf tillit til ýmissa ábendinga við frekari þróun námsmats í við Grunnskóla Seltjarnarness á komandi misserum.

    Þess má geta að á undirbúningsdögum í Grunnskóla Seltjarnarness fyrir yfirstandi skólaár var sérstaklega unnið með breytt verklag við námsmat og áherslur sem líta þarf til í því sambandi. Auk þess sem skólastjórnendur vinna nú að því að setja skólanum námsmatsstefnu og verður greinargerð um námsmat höfð til hliðsjónar í þeirri vinnu. Fræðslustjóri mun á skólaárinu fylgjast með framvindu námsmatsvinnu við Grunnskóla Seltjarnarness og vinna samantekt til skólanefndar í lok þess. Skólanefnd óskaði eftir því við skólastjórnendur að foreldrafélagi yrði svarað á ný í kjölfar úttektarinnar og að sama skapi yrði sent bréf til allra nemenda sem útskrifuðust í júní s.l. úr 10. bekk og þeim gerð grein fyrir þeirri vinnu sem hefur verið lagt í að bæta námsmat við skólann.

    Það er mat okkar að þörf hafi verið á þessari vinnu við úttekt á námsmati skólans þar sem það er afar mikilvægt að sátt og traust ríki um námsmat hverju sinni meðal hagsmunaaðila í skólasamfélaginu. Mikið lærdómsferli hefur átt sér stað innan skólans frá því að athugasemdir um námsmatið hófu að berast. Að sama skapi hefur verið farið yfir öll vinnubrögð og tímaramma við skólaslit og ljóst að ýmislegt má bæta frá því sem var vorið 2019 í upplýsingagjöf og þann tíma sem nemendur hafa til að fá skýringar við námsmati. Grunnskóli Seltjarnarness mun taka allt ferlið til endurskoðunar fyrir næsta vor svo ekki verði það sama upp á teningnum og í júní 2019.

    Bókun bæjarfulltrúa Viðreisnar/Neslista vegna 3. tl.
    Fulltrúi Viðreisnar/Neslista í skólanefnd harmar þá stöðu sem útskriftarnemendur í Grunnskóla Seltjarnarness voru settir í við lok síðasta skólaárs.

    Öll eigum við rétt á að njóta árangurs erfiðis okkar. Eftir tíu ára grunnskólagöngu er ekki boðlegt að börnum sé boðið upp á að uppgjör vinnunnar sé ekki rétt reiknað. Það blasir við að í Grunnskóla Seltjarnarness hefur verið alvarleg brotalöm á útskrift nemenda í lok síðasta skólaárs og jafnvel lengra aftur í tímann. Greinargerð sú sem lögð hefur verið fram til kynningar í skólanefnd er einfaldlega falleinkunn fyrir skólann.

    Það er vissulega fagnaðarefni að í greinargerðinni komi fram að þróunarvinna við hæfnimiðað námsmat sé komin nokkuð vel á veg en um leið mikið áhyggjuefni að átta árum eftir útkomu nýrrar aðalnámskrár taki námsmat í íslensku ekki mið af lögbundnum matsviðmiðum þeirrar námskrár.

    Íslenska er sú námsgrein sem iðulega skiptir mestu máli við inntöku í framhaldsskóla. Greinargerðin gefur tilefni til að ætla að kennsluhættir í þeirri grein hafi ekki þróast eins og skyldi í Grunnskóla Seltjarnarness og að vægi auðmælanlegra námsmarkmiða sem lúta að einföldum þekkingaratrriðum hafi verið á kostnað hæfni og færni svo sem tjáningar og túlkunar. Nýútgefin kennsluáætlun sem birtist í skólanámskrá GS gefur því miður til kynna að enn sé langt í land í þessum efnum, sem og þau skilaboð skólans til foreldra að sum hæfniviðmið sé ekki hægt að meta, eins og fram kom í bréfi sem sent var foreldrum í haust.

    Það hlýtur að valda áhyggjum ef nemendur úr Grunnskóla Seltjarnarness standa jafnöldrum sínum á landinu ekki jafnfætis á jafn mikilvægum tímamótum og þegar þau útskrifast úr grunnskóla og færast upp á næsta skólastig.

    Málið er þó ekki svo einfalt að það einskorðist við eina námsgrein eða tiltekna kennara. Skólastjóri ber ábyrgð á sinni stofnun og skólanefnd ber að hafa eftirlit með starfi skólans. Bæjar- og skólayfirvöld á Seltjarnarnesi hafa undanfarin ár verið ófeimin við að klappa sér á bakið fyrir árangur nemenda í Grunnskóla Seltjarnarness á samræmdum prófum, þar sem einmitt eru mældir áðurnefndir þekkingarþættir en ekki sú hæfni sem ný aðalnámskrá kjarnast um. Ástæða er til að spyrja hvort sá árangur endurspegli áherslur skólans í kennslu og hvort þær áherslur gagnist nemendum til lengri tíma litið. Aðhald skólanefndar með skólanum virðist ekki hafa verið nægilegt til að tryggja nemendum þau tækifæri sem þau eiga skilið og það þarf að setja í algeran forgang að bæta úr því. Til þess er nauðsynlegt að sveitarfélagið veiti kennurum og skólastjórnendum allan þann stuðning sem þarf.

    Bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista leggur til að skoðað verði hvernig það gerðist að námsmat var ekki að fullu innleitt, í hvaða fögum og hvaða áhrif á nemendur þetta hefur haft frá innleiðingu námsmats.

    Til máls tóku: SEJ, GAS, KPJ, ÁH, BTÁ, SB

    Fundargerð 303. fundar Skólanefndar.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: SEJ, MÖG, BTÁ,KPJ, GAS

  3. Fundargerð 297. fundar Umhverfisnefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: GAS, KPJ, SB

  4. Fundargerð 438. fundar Fjölskyldunefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: KPJ, ÁH, MÖG, SB

  5. Fundargerð 186. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.

    Fundargerðin lögð fram.

  6. a) Samkomulag um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu lagt fram – síðari umræða -
    Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri tók til máls og lagði til við bæjarstjórn að samþykkja samkomulagið. Hér er um gríðarlega mikla samgöngubót að ræða sem til lengri tíma litið mun um leið styðja við fleiri valkosti fólks til búsetu hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu samkomulagi hefur verið undirstrikað mikilvægi uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu út frá öryggissjónarmiðum.

    Ásgerður benti einnig á og lýsti ánægju með að samkomulagið geri m.a. ráð fyrir framlengingu á gildistíma tilraunaverkefnis til eflingar almenningssamgangna til 12 ára og að í tengslum við uppbyggingu samgönguinnviða verði horft til uppfærðra rekstraráætlana almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðisins þ.m.t. um rekstur Borgarlínu. Mikilvægt er að þátttaka ríkisins verði tryggð að verkefninu allt tímabilið.

    Bæjarstjórn samþykktir samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum sem bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar undirritaði þann 26. september 2019 með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar.

    Samkomulagið er samþykkt að loknum tveim umræðum í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar með sex atkvæðum með þeim fyrirvara að verði breyting á samkomulaginu frá 26. september sl. er samkomulagið fallið um sjálft sig og skuldbinding bæjarins að þessu verkefni. Framlag ríkisins er háð fyrirvara um fjárframlög í fjárlögum hvers árs. Verði breyting þar á sem ekki er í samræmi við samkomulagið frá 26. september sl. fellur samkomulagið um sjálft sig og skuldbinding bæjarins að þessu verkefni. Sérstök heimild bæjarstjórnar í fjárlögum bæjarins sem tilheyrir þessu verkefni ár hvert samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar fellur um sjálf sig verði breyting á forsendum samkomulagsins, framlögum frá ríkinu og samþykki Alþingis á fjárlögum, endurmati á útgjöldum eða verkefnaröðun. Taka þarf þá aftur upp viðræður í samræmi við samþykkt Alþingis.

    Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Guðmundur Ari Sigurjónsson, Sigurþóra Bergsdóttir, Karl Pétur Jónsson.
    Bæjarfulltrúi MÖG greiðir atkvæði gegn samþykkt samkomulagsins.

    Bókun MÖG:
    Umferðarmál í borginni eru í miklum ólestri enda hefur nær ekkert verið gert síðastliðinn áratug til að greiða úr umferðarþunga, þrátt fyrir mikla fólksfjölgun, lengsta hagvaxtarskeið sögunnar og gríðarlega fjölgun ferðamanna. Það er því mikið fagnaðarefni að ráðast eigi í stórátak í vegaframkvæmdum til að bæta úr umferðarflæði og bæta almenningssamgöngur. Auk þess á að bæta hjólastíga, líkt og Seltjarnarnes hefur gert, og bæta umferðarljósastýringu í borginni sem er í molum.

    Vandamálið er hins vegar að ekkert heildstætt umferðarlíkan liggur fyrir, ekkert arðsemismat er á verkefnunum og engin forgangsröðun þegar framúrkeyrslur byrja. Jafnframt er ekki skýrt fjallað um það hvernig leyst verður úr framúrkeyrslum milli samningsaðila.

    Undirritaður lagðist gegn samningum um svokallaða Borgarlínu í júní síðastliðnum þar sem hugmyndir um verkefnið væru óraunhæfar með öllu eins og þær lágu fyrir þá. Áætlanir um heildarkostnað og fjármögnun væru í besta falli óljósar og engin umræða hefði farið fram um rekstrarforsendur og rekstrarkostnað Borgarlínunnar. Ekkert hefur breyst í þeim efnum. Þó hefur komið fram síðan þá að inní áætlunum eru ekki uppkaup á landi. Framúrkeyrslur stórra opinberra framkvæmda eru hins vegar þekktar hér á landi og eru víti til varnaðar.

    Samkomulagið hljóðar uppá rúmlega 122 milljarða og nær til ársins 2033. Í því samhengi er vert að minna á að ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða nú þegar um 5 milljarða árlega með rekstri Strætó, eða um 75 milljarða yfir sama tíma og þetta samkomulag nær yfir. Hlutfall þeirra sem nota Strætó hefur í meira en áratug mælst 4%. Fyrirséð er að rekstur Borgarlínu muni kosta mun meira, jafnvel margfalt meira. Sveitarfélögin munu sitja uppi með þann reikning, enda hefur ríkið gefið það út að það muni ekki koma að rekstri Borgarlínu.

    Útfærsla veggjalda að fjárhæð rúmlega 62 milljarða, eða helmingurinn af samkomulaginu, er óútfærð með öllu og gengur dæmið því ekki upp. Ég tel óábyrgt að skrifa undir samkomulag sem hefur svo óþekkta útkomu fyrir skattgreiðendur.
    Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar

    Bókun KPJ:
    Bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista vill bóka eftirfarandi. Viðreisn/Neslisti lýsir yfir ánægju með að samgöngusáttmáli hafi verið samþykktur í bæjarstjórn Seltjarness.

    Sáttmálinn er ekki fullkominn, en hann er leiðarvísir inn í framtíð höfuðborgarsvæðis, þar sem nú búa 225 þúsund manns.

    Borg sem ekki býður upp á gott úrval nothæfra samgönguvalkosta er ekki samkeppnishæf. Þetta samkomulag svo mikilvægt skref í þróun borgarinnar. Það er mikilvægt að Seltjarnarnes taki þátt í samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu með þessum og öðrum hætti og gangist þannig við því að við erum hluti af samliggjandi, millistórri Evrópskri borg með fjörugu mannlífi.

Til máls tóku: ÁH, MÖG, GAS, SB, KPJ, SEJ, BTÁ

Fundi slitið kl. 18:26

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?