Fara í efni

Bæjarstjórn

15. apríl 2020

Miðvikudaginn 15. apríl  2020  kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ),  Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri,  ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson  setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2019, síðari umræða.

    Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Sturla Jónsson endurskoðandi frá Grant Thornton sem kynnti ársreikning 2019 og endurskoðunarskýrslu 2019.

    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2019.  Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2019 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.

    Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi.  Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

    Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.
    Til máls tóku: GAS, SEJ, KPJ, ÁH, SB, MÖG

    Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar Seltirninga og Neslista/Viðreisnar við seinni umræðu ársreiknings Seltjarnarnesbæjar 2019.
    Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista lýsa yfir furðu sinni yfir enn einu árinu þar sem óráðsía og óstjórn hefur ráðið för í fjármálum Seltjarnarnesbæjar. Uppsafnaður halli á rekstri A-hluta bæjarins er nú um 630 milljónir króna á síðustu fimm árum. Öll ár á árabilinu 2015-2019, nema eitt hefur verið verulegur halli á rekstri bæjarins. Á sama tíma hafa stjórnendur bæjarins ítrekað brotið sveitarstjórnarlög með því að auka fjárheimildir umfram fjárhagsáætlun án þess að fá til þess samþykki bæjarstjórnar.
    Nú þegar fyrirséð er að vegna ytri aðstæðna muni tekjur lækka og útgjöld aukast margfaldast þær áhyggjur sem íbúar bæjarins hafa af rekstri bæjarsjóðs.  Ekkert borð er fyrir báru og fullkomlega ljóst að árið 2020 verður enn eitt árið þar sem verulegur hallarekstur verður á bænum og að skuldir hans muni í kjölfarið aukast. Á meðan nágrannasveitafélög okkar hafa skilað afgangi og búið í haginn fyrir komandi tíð, hafa hér hlaðist upp skuldir vegna fjárfestingaákvarðana og hallareksturs. 

      Afkoma A-hluta  Afkoma A-hluta mv. útsvarsprósentu Kóp. 
    2015   -174.047 -96.793 
    2016  3.648 89.014 
    2017   -99.592 -3.706 
    2018  -264.027  -162.333 
    2019  -95.493  9.293 
    Uppsafnaður halli 2018-2019  -629.511   -164.525  

    Af þessari töflu má ráða að ef Seltjarnarnesbær hefði haft sama útsvarshlutfall og nágrannasveitarfélögin Mosfellsbær og Kópavogur, hefði afkoma síðasta árs verið jákvæð. Uppsafnaður halli síðustu fimm ára væri viðráðanlegur, en ekki á sjöunda hundrað milljóna.
    Þrjú síðustu þriggja ára tímabil í rekstri bæjarins hafa verið rekin með halla sem er brot á viðmiðum sveitarstjórnarlaga sem kveða á um að bæjarstjórn eigi að sjá til þess að rekstrarjöfnuður A og B hluta séu á hverju þriggja ára tímabili jákvæður. Þessi staða er grafalvarleg og mun ef ekkert verður að gert hafa alvarleg áhrif á getu sveitarfélagsins til að veita íbúum sínum góða þjónustu.
    Árið 2019 var farið verulega fram úr áætlunum án þess að sótt væri til bæjarstjórnar leyfi til þess með viðauka við fjárhagsáætlun. Þetta er klárt brot á sveitarstjórnarlögum og áframhald á lélegri rekstrarstjórn þar sem samskonar vanáætlun var uppi á teningnum árið 2018 og kom það skýrt fram í endurskoðun á þeim ársreikningi að mikilvægt væri að endurskoða áætlanir og sækja samþykkt fyrir framúrkeyslum með viðaukum.  Þetta eru óboðleg vinnubrögð sem ekki eru fallin til að auka traust bæjarbúa á fjármálastjórn bæjarins.
    Hallarekstur
    - Fyrir liggur að A hluti bæjarsjóðs var rekinn með 95 milljón króna halla á árinu 2019 sem er um 95 milljónum frá því sem áætlun gerði ráð fyrir. Niðurstaða A og B hluta er rúmum 50 milljónum lakari en gert var ráð fyrir.
    - Farið var verulega fram úr áætlunum bæði í félagsþjónustu um 45 milljónir og í rekstri skóla yfir 97 milljónir, án þess að sótt væri til bæjarstjórnar leyfi til þess með viðauka við fjárhagsáætlun.  
    - Handbært fé lækkar úr 333 milljónum niður í 45 milljónir og erum við nú þegar farin að ganga á handbært fé í fjárhagsáætlun 2020

    Lán og niðurstaða
    - Skuldir og skuldbindingar halda áfram að hækka og eru nú rúmir 5 milljarðar. Skuldir og skuldbindingar námu 1.8 milljarði í ársreikningi ársins 2016
    -Næsta árs afborganir langtímaskulda eru komnar upp í 93,2 milljónir en voru 16.6 milljónir í ársreikningi 2017
    - Gert var ráð fyrir 40 milljónum í vaxtatekjur á árinu sem endaði í 100 milljón króna vaxtakostnaði eða viðsnúningi upp á 140 milljónir
    - Bæjarsjóður var rekinn á yfirdrætti árið 2019 og nam vaxtakostnaður vegna yfirdráttar 7.7 milljónum 
    - Gert var ráð fyrir 565 milljónum í handbært fé frá rekstri en endaði það í 233 milljónum. Það gerir rúmlega 5% af tekjum A sjóðs en samkvæmt skýrslu HLH ætti handbært fé að vera um 10% af tekjum A sjóðs

    Við höfum ítrekað bent á það síðastliðin ár að þessi blanda af aukinni lántöku og hallarekstri þar sem skatttekjur standa ekki undir þjónustu við íbúa er ávísun á mikil vandræði til framtíðar. Meirihluti Sjálfstæðismanna hefur síðastliðin ár ekki getað lagt fram fjárhagsáætlun sem stenst, lagt fram viðauka fyrir auknum útgjöldum eða haldið rekstri bæjarins hallalausum þrátt fyrir mikla uppsveiflu og stöðugleika í efnahagsástandi landsins. Nú er staðan önnur, óvissan er meiri og munu tekjur sveitarfélaga dragast saman og útgjöld aukast. Þessi nýja staða gerir enn ríkari kröfu á tekin verði upp fagleg vinnubrögð, aukið samráð og gagnsæi við rekstur sveitarfélagsins. 

    TILLAGA
    Minnihlutinn leggur til að stuðlað verði að árangursmiðaðri fjármálastjórn innan sveitarfélagsins og verklagi sem geri bæjarráði kleift að hafa virkt eftirlit með því að rekstur bæjarsjóðs og einstakra sviða sé innan fjárheimilda og í samræmi við heildræna forgangsröðun á grundvelli gagnsærra upplýsinga og mælinga. Til viðbótar við núverandi reikningsskil fjármálastjóra leggi hann fram og kynni fyrir bæjarráði ársfjórðungsuppgjör ásamt endurskoðaðri fjárhagsáætlun, frávikagreiningu, stöðu verkefna á fjárfestingaáætlun og yfirliti yfir skuldbindingar og áhættur í rekstri. Sviðsstjórar leggi samhliða árfjórðungsuppgjöri fram og kynni ársfjórðungsskýrslu þar sem farið er yfir sett markmið um fjármál og þjónustu. Sviðsstjórar beiti lykiltölugreiningu eftir því sem við á, ræði hvernig til tókst að ná þeim árangri sem stefnt var að í upphafi árs og leiðir og tækifæri til umbóta í rekstri og þjónustuveitingu við bæjarbúa. 
    Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Karl Pétur Jónsson - Bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
    Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  2. Fundargerð 98. fundar Bæjarráðs.
    Ákvarðanir sem fram komu í fundargerðinni sem er 22 tl. eru staðfestir samhljóða.
    Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

    Eftirfarandi liður í fundargerð Bæjarráðsfundar nr. 98 var borin upp til staðfestingar.
    Liður nr. 3 í fundargerð. Leiðrétting á þjónustugjöldum.
    Bæjarstjórn samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun 2020 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, kostnað að upphæð kr. 14.100.000,- vegna leiðréttingar á þjónustugjöldum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis. Kostnaður þessi skal greiddur af Bæjarsjóði Seltjarnarness og kostnaðarauka skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.
    Til máls tóku: MÖG, SB

    Bókun Samfylkingar
    Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga fagna því að bæjarráð hafi lagt fram tillögur í 22 liðum til að bregðast við áhrifum Covid-19 á bæjarfélagið okkar. Mikilvægt er að unnið verði áfram með útfærslur á tillögunum og að þær verði unnar í breiðri sátt allra flokka, starfsfólks og fagnefnda þannig að tillögurnar verði byggðar á faglegum grunni og komi þannig sem best til móts við bæjarbúa á þessum erfiðu tímum.  
    Við teljum að sú vinna þurfi að vinnast skipulega og hratt fyrir sig og leggjum við til að allar fagnefndir ásamt þeim stjórnendum sem þeim tengjast fjalli um tillögur bæjarráðs og komi með skilgreindar og kostnaðargreindar aðgerðir sem lagðar verði fyrir bæjarráð sem fyrst og til umfjöllunar á næsta bæjarstjórnarfundi. 
    Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu er aukin krafa á hröð vinnubrögð í stjórnsýslunni og aukið samráð allra kjörinna fulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins.
    Að lokum viljum við aftur hrósa starfsfólki Seltjarnarnesbæjar fyrir sín störf við að halda uppi þjónustu við íbúa Seltjarnarnesbæjar og þökkum við íbúum bæjarins fyrir að virða þau tilmæli sem stjórnvöld hafa gefið út til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson - Samfylking Seltirninga
    Sigurþóra Bergsdóttir - Samfylking Seltirninga

  3. Fundargerð 305. fundar Skólanefndar.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: KPJ, SEJ, GAS, ÁH, SB

    Bókun:
    Það eru forkastanleg vinnubrögð að nú 15. apríl, tveimur mánuðum eftir að æskulýðsfulltrúi sveitarfélagsins sagði upp störfum er ekki búið að leggja fram neina áætlun um málefni frístundamiðstöðvar Seltjarnarness. Ekki er búið að auglýsa stöður æskulýðsfulltrúa eða forstöðumanna unglinga- og barnastarfs. Það styttist í sumarstarfið og á sama tíma og bæjarstjórn samþykkir tillögur um að efla skapandi starf og veita öllum námsmönnum á Seltjarnarnesi vinnu þá er búið að skera út skapandi sumarstörf og jafningjafræðslu. Einnig ríkir algjör óvissa um sumstarf grunnskólabarna með tilheyrandi óþægindum fyrir foreldra og börn.
    Ef ráðast á í breytingar á frístundamiðstöð Seltjarnarness er mikilvægt að óskað verði eftir ráðgjöf fagfólks í frístundastarfi og tillögur verði lagðar fram sem allra fyrst svo hægt sé að auglýsa eftir fagfólki og endurreisa æskulýðsstarf á Seltjarnarnesi
    Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  4. Fundargerð 299. fundar Umhverfisnefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

  5. Fundargerð 139. fundar Veitustofnunar.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: GAS, KPJ, ÁH, SB, MÖG

  6. Fundargerð 382. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
    Fundargerðin lögð fram.

  7. Fundargerð Reykjanesfólkvangs.
    Fundargerðin lögð fram.

  8. Fundargerðir 485., 486., 487., 488., 489., 490., 491. og 492.  stjórnar SSH.
    Fundargerðirnar lagðar fram.
    Til máls tóku: GAS, ÁH, SEJ

  9. Fundargerð 191. fundar stjórnar SHS.
    Fundargerðin lögð fram.

  10. Fundargerð 318. fundar stjórnar Strætó bs.
    Fundargerðin lögð fram.

  11. Fundargerðir 421., 422., 423., 424. og 425. fundar stjórnar SORPU bs.
    Fundargerðirnar lagðar fram.
    Til máls tóku: GAS, BTÁ, KPJ, ÁH

  12. Fundargerð 880. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: ÁH, GAS

 Fundi slitið kl. 18:25

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?