Fara í efni

Bæjarstjórn

22. október 2014

Miðvikudaginn 22. október 2014 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).

Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Guðmundur Magnússon, setti fund og stjórnaði.

  1. Fundargerð 376. fundar Íþrótta- og tómstundaráðs.
    Fundargerðin lögð fram.
  2. Fundargerð 251. fundar Umhverfisnefndar.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: ÁE, MLÓ, ÁH, SEJ
  3. Fundargerð 112. fundar Veitustofnana.
    Fundargerðin lögð fram.
  4. Fundargerð 820. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.
  5. Fundargerð 201. fundar stjórnar Strætó bs.
    Fundargerðin lögð fram.
  6. Fundargerð 342. fundar stjórnar Sorpu bs.
    Fundargerðin lögð fram.
  7. a) Endurskoðun aðalskipulags Seltjarnarness 2006-2014.
    Skipulags- og matslýsing sbr. 30. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010 lagt fram.
    Lýsing aðalskipulagsverkefnis 4.2.2. gr.
    Tekin hefur verið saman lýsing á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur bæjarstjórn hefur við aðalskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.

    Bæjarstjórn felur skipulagsstjóra að leita umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi.

    Samþykkt tillaga Árna Einarssonar að leggja til á bls.3 að bæta við undir upptalningu við liðinn ,,Helstu viðfangsefni að mati skipulags- og umferðarnefndar eru þessi: þar bætist við liður ,,Samgöngu- og umferðaröryggismál“. Lýsingin borin upp með áorðum breytingum.
    Lýsing samþykkt af eftirfarandi bæjarfulltrúum: GM, ÁH, SEJ, BTÁ, ÁE.
    ÁE, gerði grein fyrir atkvæði sínu.
    Tveir voru á móti MLÓ,GAS.

    Bókun Samfylkingar vegna skipulags- og matlýsingu fyrir aðalskipulag Seltjarnarness:
    Við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi teljum okkur ekki geta samþykkt tillögu að verklýsingu sem lögð er fram þar sem við teljum vinnuna á bakvið hana ekki fullnægjandi.
    Lokaútgáfa skjalsins var ekki lögð til samþykktar í skipulags og umferðarnefnd og ljóst að tillögur að breytingum skiluðu sér einungis að hluta og ekki í samráði við nefndarfulltrúa Skipulags- og umferðarnefndar og án nokkurrar umræðu.
    Umræða í bæjarstjórninni hefur verið á þann veg að keyra átti málið í gegn án almennilegrar kynningar og umræðu.
    Athugasemdir minnihlutans um mikilvægi þess að fjalla um stefnu í ferðamannamálum og í nýjum lausnum fyrir íbúðir ungs fólks voru afskrifaðir án frekari umræðu og með vangaveltum um að bæjarfulltrúar gætu sent inn ábendingar eins og aðrir eftir að verklýsingin hefur verið kynnt.
    Ójafnvægi er í framsetningu og ákveðin aðgerð er dregin fram en sem dæmi eru í lýsingunni týnd til rök með umdeildum framkvæmdum á vestursvæðunum án þess að telja til mótrök eða skoða framkvæmdina með gagnrýnum augum um þetta viðkvæma svæði.
    Við teljum að vanda megi betur verklýsingunga svo ferlið í heild sinni sé unnið á sem faglegastan hátt og að verklýsingin lýsi því sem á að gera og hverju á að fara eftir. Við teljum að þessi verklýsing sem liggur hér fyrir beri þess merki að vera unnin af meirihlutanum og hugmyndum þeirra. Skortur hefur verið á raunverulegu samráði við minnihluta bæjarstjórnar og sjáum við því okkur ekki fært að samþykkja hana.
    Guðmundur Ari Sigurjónsson (sign), Margrét Lind Ólafsdóttir (sign)

    Bókun meirihluta:
    Meirihlutinn vill taka fram að í alla staði er farið eftir lögum nr. 123/2010 þar sem fram kemur að eðlilegt sé að efnistök lýsingar fyrir aðalskipulag sé bæði í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og ákvæði um samráð í lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Kynning á hvaða áherslur og markmið liggja til grundvallar skipulagsgerðinni og áætlun um viðfangsefnið er gert í samræmi við 1. Mgr. 20. Gr. laga nr. 123/2010 kveður á um. Hér er tryggt aðkoma almennings og hagsmunaaðila á öllum stigum skipulagsvinnunnar.
    Guðmundur Magnússon (sign), Ásgerður Halldórsdóttir (sign), Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Sigrún Edda Jónsdóttir (sign).
    Til máls tóku: GM, ÁE, BTÁ, GAS, ÁH

    b) Tillaga Samfylkingar um að laun bæjarfulltrúa verið endurskoðuð út frá störfum í nefndum.
    Lagt fram, tekið til umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.

    Tillaga Guðmundar Ara Sigurjónssonar
    Samkvæmt núverandi samþykktum um laun bæjarfulltrúa á Seltjarnarnesi frá árinu 2002 fá bæjarfulltrúar greitt 26,52% af þingfararlaunum á mánuði og 2,95% fyrir hvern nefndarfund.
    Árið 2010 samþykkti bæjarstjórn þær forsendur fyrir fjárhagsáætlun að bæjarfulltrúar þiggja ekki laun fyrir nefndarstörf og hefur það verið samþykkt árlega síðan.
    Ég skil fullvel að bæjarstjórn hafi viljað leggja sitt af mörkum á tímum þegar blóðugur niðurskurður bitnaði á þjónustu bæjarins en ég vil þó taka til umræðu hér útfærsluna á þessum aðgerðum og hvort ekki sé tímabært, nú fjórum árum síðar að endurskoða hana.
    Við núverandi aðstæður fá allir óbreyttir bæjarfulltrúar greidd sömu laun. Hvort sem þeir sitja í nefnd sem fundar einu sinni í mánuði eða þrisvar á ári. Hvort sem þeir eru í einni nefnd eða tveimur. Hvort sem þeir eru formenn nefnda eða varamenn.
    Við núverandi aðstæður eru laun bæjarfulltrúa einnig mjög óskýr bæjarbúum þar sem samþykktirnar frá 2002 liggja fyrir á vefnum undir samþykktir og eru þær upplýsingar sem koma upp þegar leitað er á netinu að launum bæjarfulltrúa. Eyða þarf dágóðum tíma við lestur á gömlum fréttum á vef Seltjarnarness til að finna þær forsendur að bæjarfulltrúar fái ekki greidd laun fyrir nefndarstörf.
    Ég tel afar brýnt að felldar verði út forsendur um að greiða ekki fyrir nefndarstörf til að stuðla að réttlátum greiðslum til bæjarfulltrúa eftir verkefnaálagi og auka gagnsæi út á við.
    Ég tel einnig að við þurfum að eiga umræðu um hvort innistæða sé hjá bænum fyrir þessari útgjaldaaukningu. Ef hún er ekki til staðar legg ég til að mánaðarlaun bæjarfulltrúa verði lækkuð um 2,95% til að vega upp á móti.
    Enda snýst málið ekki um launahækkanir bæjarfulltrúa heldur réttlátt og gagnsætt kerfi.
    Guðmundur Ari Sigurjónsson

    c ) Bréf, dagsett 14/10/14 til bæjarstjórnar og skólanefndar Seltjarnarness v/verkfalls Félags tónlistarskólakennara.
    Bókun meirihluta:
    Samningaviðræður milli FT og samninganefndar sveitarfélaga hafa nú staðið yfir í 10 mánuði. Tónlistarkennarar FT er eitt aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, en þeir eru um 5% félagsmanna og þeir einu sem enn hefur ekki verið samið við.
    Bæjarstjórn hefur miklar áhyggjur af, að brottfall verði úr nemendahópum ef þeir fara á mis við það stöðuga aðhald og leiðsögn sem sérfræðingur í listkennslu getur veitt.
    Einnig er ófyrirséð hver áhrif langvarðandi verkfalls verða, t.d. m.t.t. hugsanlegs brottfalls nemenda.
    Bæjarstjórn hvetur samningsaðila til að ræða saman og leita leiða til að ná samningum svo núverandi verkfall valdi sem minnstum skaða fyrir nemendur og hið góða starf sem unnið er í Tónlistarskóla Seltjarnarness.
    Guðmundur Magnússon (sign), Ásgerður Halldórsdóttir (sign), Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Sigrún Edda Jónsdóttir (sign).
    Margrét Lind Ólafsdóttir (sign) Guðmundur Ari Sigurjónsson (sign), Árni Einarsson (sign)

    Til máls tóku: ÁH, ÁE,

Fundi var slitið kl. 17:33

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?