Fara í efni

Bæjarstjórn

11. maí 2016

Miðvikudaginn 11. maí 2016 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).

Ritari bæjarstjórnar Gunnar Lúðvíksson, ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2015, síðari umræða.

    Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi Seltjarnarnesbæjar.

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ræddi ársreikning 2015 og gerði grein fyrir niðurstöum hans.

    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2015. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég þakka öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2015 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.
    Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi, ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2015 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. Sveitarstjórnarlaga nr. nr. 138/2011.
    Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2015 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfskálamel ehf., Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness, Félagsheimili Seltjarnarness.
    Gert var fundarhlé til að undirrita ársreikning 2015 frá kl. 17:11

    Fundur aftur settur kl. 17:17

    Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.

    Til máls tóku: ÁH, ÁE

    Bókun meirihlutans:
    Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 sem tóku gildi í ársbyrjun 2012 ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum samkvæmt 64. grein. Framangreindri skyldu skulu sveitarstjórnir m.a. fullnægja með því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B hluta séu á hverju ári ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum.

    Samþykkt fjárhagsáætlun á hverju ári er stýritæki til að fylgjast með og bera saman við rauntölur. Verksviði stjórnenda einstakra sviða og stofnana er að fylgjast með því að fjárhagsáætlunum sé framfylgt og að bregðast við ef út af bregður, hvort sem frávik varða rekstur eða framkvæmdir. Mikilvægt er að lögð sé fram vönduð fjárhagsáætlunargerð og eftirlit með þróun raunkostnaðar sé mjög virkt, en það er eitt áhrifamesta stjórntæki í rekstri hvers bæjarfélags.

    Óhjákvæmilegt getur verið að gera viðauka við fjárhagsáætlun innan ársins. Slíkir viðaukar á liðnu ári voru 6, samþykktir samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn.

    Rekstrarniðurstaða varð neikvæð um 126,7 m.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 6,6 m.kr. Meginskýringin á lakari afkomu, eru miklar launahækkanir umfram þær forsendur sem fjárhagsáætlun byggði á. Nýir kjarasamningar og hækkanir vegna starfsmats á haustmánuðum hækkuðu laun og tengd gjöld um 228 m.kr. Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu einnig verulega milli ára.

    Þótt launaútgjöld bæjarins hafi orðið nokkru hærri en gert var ráð fyrir tókst að draga úr öðrum rekstrarútgjöldum á móti. Meirihlutinn leggur áherslu á ársreikningur fyrir árið 2015 sýnir góða fjárhagsstöðu jafnframt því að álögum á íbúana er haldið í lágmarki eins og áður. Ársreikningur bæjarins fyrir árið 2015, sýnir ábyrga fjármálastjórn, gott innra eftirlit sem þakka má starfsmönnum bæjarins. Meirihlutinn þakkar minnihlutanum gott samstarf á sl. ári.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign), Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Sigrún Edda Jónsdóttir (sign), Karl Pétur Jónsson (sign).

    Bókun minnihlutans:

    Bæjarstjórnarfundur 11. maí 2016

    Bókun vegna ársreikninga 2015

    Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar samþykkja fyrirliggjandi ársreikning Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2015 með ábendingum sem fram koma í eftirfarandi bókun:

    Samantekin rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2015 er neikvæð sem nemur um 127 milljónum króna. Niðurstaða A hlutans er neikvæð um 174 milljónir. Þetta er umtalsvert frávik frá rekstraráætlun ársins sem gerði ráð fyrir rekstrarafgangi og enn neikvæðari umsnúningur frá fyrri árum.

    Hluta af þessum rekstrarhalla og viðsnúningi má skýra með áhrifum kjarasamninga síðasta árs og mikilli hækkun lífeyrisskuldbindinga, svo og að launahækkanir ársins skila sér ekki í samsvarandi hækkun útsvarstekna. Það er áhyggjuefni.

    Rekstrartekjur (samanteknar fyrir A og B hluta) eru 1,4%% minni en áætlun (með viðaukum) gerði ráð fyrir og rekstrargjöld (að undanskildum fjármagnsliðum) 3% hærri en áætlun ársins (með viðaukum), og 6,4% hærri en upphafleg áætlun ársins. Laun og launatengd gjöld árið 2015 (fyrir utan hækkun lífeyrisskuldbindinga) eru tæplega 104 milljónum króna umfram áætlun (með viðaukum), eða tæplega 6% hærri. Lokaniðurstaða ársins víkur því talsvert frá upphaflegri rekstraráætlun ársins í mörgum tilvikum.

    Séu árin 2014 og 2015 borin saman nemur hækkun vegna launa og launatengdra gjalda rúmlega 243 milljónum króna. Hækkun þessa stærsta kostnaðarliðar í rekstrinum nemur því rúmum 15% á milli ára. Hafa þarf í huga að meirihluti þessarar hækkunar er viðvarandi stærð í rekstri bæjarins sem mæta verður með auknum tekjum eða lækkun annarra kostnaðarliða. Það er því áhyggjuefni að sé horft til langstærsta tekjuliðarins, þ.e. útsvarstekna, þá hækkuðu þær einungis um tæpar 38 milljónir króna frá síðasta ári, eða um 1,75%.

    Heildar rekstrartekjur (fyrir utan fjármagnsliði) ársins 2015 eru rúmlega 109 milljónum króna lægri en árið 2014, eða 3,2% lægri. Heildar rekstrargjöldin (fyrir utan fjármagnsliði) voru hins vegar um 445 milljónum króna hærri eða sem nemur 14,8%. Hér er því orðið misræmi sem liggur fyrir að verður að brúa.

    Við bendum á að fjárfestingar bæjarins árið 2015 felast nær eingöngu í nauðsynlegum viðhaldsverkefnum. Stærri verkefni sem lúta að uppbyggingu og þróun til framtíðar með það að markmiði að efla lífsgæði bæjarbúa og bæta þjónustu er þar ekki að finna. Við ítrekum enn einu sinni mikilvægi þess að marka framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið þar sem fram kemur áætlun um uppbyggingu, fjárfestingu og framkvæmdir. Framundan eru mikilvægar framkvæmdir, s.s. vegna íþróttamiðstöðvar, Skólaskjóls, hjúkrunarheimilis, þjónustu við fatlað fólk og kaupa nýrra félagslegra íbúða í stað þeirra sem seldar voru á síðasta ári.

    Rekstrarniðurstaða ársins 2015 gefur því tilefni til sérstakrar skoðunar hvort heldur litið er til þróunar ýmissa rekstrarþátta ársins eða samanburðar við síðasta ár.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar

  2. Fundargerð 31. fundar Bæjarráðs.

    Fundargerðin sem er 8 tl. er samþykkt samhljóða.

    Bæjarstjórn samþykkir, 4. tl. fundargerðar 31, viðauka 1 við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 4.600.000. vegna viðhaldsframkvæmda við Austurströnd 2. Vísað er til 1. málsl. 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kostnaðarauka skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
    Viðauki 1 við 4.tl. fundargerðar, samþykktur samhljóða.

  3. Fundargerð 274. fundar Skólanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: SEJ,

  4. Fundargerð 390. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

  5. Fundargerðir 4. og 5. fundar vinnuhóps um deiliskipulag miðbæjarsvæðis.

    Fundargerðirnar lagðar fram.

  6. Fundargerð 352. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.

    Fundargerðin lögð fram.

  7. Fundargerð Samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: ÁE, ÁH, SEJ

  8. Fundargerð 23. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.

    Fundargerðin lögð fram.

  9. Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs.

    Fundargerðin lög fram.

  10. Fundargerð stjórnar SORPU bs.

    Fundargerðin lögð fram.

  11. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

    Fundargerðin lögð fram.

Fundi var slitið kl.: 17:37

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?