Fara í efni

Bæjarstjórn

605. fundur 25. október 2004

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

1.        Lögð var fram fundargerð 51. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 14. október 2004 og var hún í 5 liðum.

Til máls tók: Inga Hersteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

2.           Lögð var fram fundargerð 52. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 21. október 2004 og var hún í 6 liðum.

Til máls tók: Inga Hersteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

3.           Lögð var fram fundargerð 53. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 21. október 2004 og var hún í 4 liðum.

Lagðar voru fram umsagnir við framkomnar athugasemdir á auglýstri tillögu að breytingu á aðalskipulagi Seltjarnarneskaupstaðar 1981-2001.

Til máls tóku: Inga Hersteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Umsagnirnar um framkomnar athugasemdir voru samþykktar með 4 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks gegn 3 atkvæðum fulltrúa Neslistans.

Afgreiðsla á breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarness samkvæmt 2. lið fundargerðarinnar var tekin fyrir undir 4. lið þessarar fundargerðar en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans leggja fram eftirfarandi bókun vegna tillögu um afgreiðslu á umsögn við fram komnum athugasemdum bæjarbúa við auglýsingu um aðalskipulag Seltjarnarness.

Við teljum að mörgum athugasemdum sé ekki svarað, jafnframt því sem við erum ósammála mörgum þeirra og vísum í því sambandi til bókunar okkar í Skipulags- og mannvirkjanefnd hinn 21. október 2004.

Þær fjölmörgu athugasemdir, sem bárust frá bæjarbúum vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi á Suðurströnd og Hrólfskálamel, eru þess eðlis að taka verður að okkar mati í miklu ríkari mæli tillit til þeirra.

Fulltrúar Neslistans telja að kjörnir fulltrúar verða í nafni lýðræðis að hafa virkt samráð við bæjarbúa í svo viðkvæmu máli og geta því ekki tekið undir umsögnina í heild sinni.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir  Sunneva Hafsteinsdóttir  Árni Einarsson

            (sign)                                        (sign)                        (sign)

 

4.           Tekin var til afgreiðslu samkvæmt 2. lið 53. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar, áður auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981-2001 Hrólfskálamelur/Suðurströnd, með þeim breytingum að heildarfjöldi íbúða á öllu svæðinu verði lækkaður úr 180 í 150 og að hámarksnýtingarhlutfall (NH) á svæði við Suðurströnd verði lækkað úr 0.85 í 0.7 (bílageymslur neðanjarðar ekki meðtaldar).

Til máls tóku: Árni Einarsson og Jónmundur Guðmarsson.

Bæjarstjórn samþykkir með 4 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks gegn 3 atkvæðum Neslistans auglýsta tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981-2001 með breytingum sbr. 2. lið ofangreindar fundargerðar Skipulags- og mannvirkjanefndar.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans greiða atkvæði gegn fyrirliggjandi tillögu meirihluta um afgreiðslu á tillögu til breytingar á Aðalskipulagi Seltjarnarneskaupstaðar 1981-2001.

Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn og fulltrúar Neslistans í Skipulags- og mannvirkjanefnd hafa tekið þátt í skipulagsvinnunni og reynt á ýmsum stigum hennar að koma að breytingum sem m.a. hafa falið í sér að minnka nýtingarhlutfall á svæðunum.

Þá tóku fulltrúar Neslistans þátt í því að afgreiða til auglýsingar umrædda tillögu til breytinga á aðalskipulaginu, þrátt fyrir að hafa ýmislegt við tillöguna að athuga í trausti þess að tillagan tæki breytingum í athugasemdaferlinu. Við höfum ekki á neinu stigi reynt að tefja málsmeðferðina, enda ljóst að bæjarbúar gætu komið sínum athugasemdum að, sem þeir hafa nýtt sér í ríkum mæli.

Að okkar mati er aðeins að takmörkuðu leyti komið til móts við þær tillögur og ganga þær of skammt í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem tillagan sem lögð var fram til kynningar 23. júlí s.l. hefur mætt.

Sveitarstjórnum ber að vinna aðalskipulag í samráði við íbúana. Kynning tillagna og athugasemdir sem berast í kjölfar hennar er hluti af þessu samráði. Hörð viðbrögð Seltirninga við tillögunni kalla á meiri breytingu á upphaflegu tillögunni en hér er lagt til. Annað stríðir gegn fyrirmælum skipulagsreglna og góðum stjórnunarháttum. Mikilvægt er að virða skoðanir bæjarbúa og þann lýðræðilega rétt þeirra til áhrifa sem skipulagslög kveða á um.

Árni Einarsson  Sunneva Hafsteinsdóttir  Guðrún Helga Brynleifsdóttir

            (sign)                    (sign)                              (sign)

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti Sjálfstæðisflokks harmar að minnihlutinn treysti sér ekki til að staðfesta breytingu á aðalskipulagi Seltjarnarness sem felur í sér umtalsverða lækkun nýtingarhlutfalls.   Jafnframt er rétt að benda á þá fyrirætlan Skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins að leggja fram breyttar tillögur að deiliskipulagi svæðisins sem m.a. fela í sér:

1.   Byggingar verði lækkaðar frá því sem ráðgert var.

2.   Húsagerð og byggðamynstur breytt með hliðsjón af byggð við Bakkavör.

3.   Dregið úr byggingarmagni og íbúðum fækkað.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks hefur fullan hug á að koma til móts við þá íbúa sem gert hafa athugasemdir við auglýst skipulagsáform og mun sýna það í verki.

Jónmundur Guðmarsson             Inga Hersteinsdóttir

            (sign)                                        (sign)

Bjarni Torfi Álfþórsson               Ásgerður Halldórsdóttir

            (sign)                                        (sign)

         

 

Fundi var slitið kl.    8:20



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?