Fara í efni

Fjölskyldunefnd

257. fundur 22. júní 2000

Fundinn sátu: Þórður Ó. Búason, Guðrún Brynja Vilhjálmsdóttir, Andri Þór Guðmundsson, Sigrún Benediktsdóttir, Jens Pétur Hjaltested, Snorri Aðalsteinsson og Sigrún Hv. Magnúsdóttir.  

 

1.   Fundargerð þjónustuhóps aldraðra dags. 19. júní 2000 lögð fram. Þóra Einarsdóttir mætti á fundinn og gerði grein fyrir þjónustu við aldraða. Rædd vistunarmál, heimilisþjónusta og matarþjónusta.

 

2.   Trúnaðarmál. Sjá trúnaðarmálabók 1. mál.

 

3.   Trúnaðarmál. Sjá trúnaðarmálabók 2. mál.

 

4.   Lögð fram umsókn um daggæsluleyfi frá Ágústu H. Vignisdóttur, kt. 140371-3949, Unnarbraut 17. Ágústa sækir um leyfi til að gæta fjögurra barna. Skilyrði uppfyllt skv. reglugerð. Samþykkt.  

 

5.   Félagsmálaráð samþykkti eftirfarandi umsagnir um frumvörp:

 

A.  Umsögn um frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Félagsmálaráð lýsir ánægju sinni með frumvarpið í flestum meginatriðum. Með frumvarpinu eru sameinuð núgildandi lög um málefni fatlaðra og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og virðist sem það hafi tekist vel að flestu leyti. Frumvarpið hefur hins vegar í för með sér verulegan útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin og þarf því að tryggja þeim aukna tekjustofna til þess að mæta auknum útgjöldum. Um það þarf að nást fullt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Félagsmálaráð tekur því undir athugasemdir fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga við einstakar greinar laganna sem fela í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Athugasemdirnar eru í fylgiskjali með fundargerð. Búsetuúrræði fyrir fatlaða og reyndar einnig ýmsa aðra þjónustu hefur skort verulega á höfuðborgarsvæðinu og þarf að ráða bót á því áður en málefni fatlaðra flytjast yfir til sveitarfélaganna. Lagt er til að framkvæmdasjóður fatlaðra verði starfræktur áfram, eða viðlíka sjóður, í stað þess að leggja hann niður eins og ráðgert er í frumvarpinu þannig að unnt verði að halda áfram uppbyggingu nýrra búsetu- og þjónustuúrræða fyrir fatlaða.

Félagsmálaráð gerir athugasemdir við eftirfarandi greinar frumvarpsins:

 

 

 

Í 4. gr. og 7. gr. er þrengt að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga en þar er sveitarfélögunum gert að gera félagsmálaráðuneytinu árlega grein fyrir störfum félagsmálanefnda samkvæmt nánari ákvörðun ráðuneytisins. Þá er ráðuneytinu fengið úrskurðarvald um framkvæmd þjónustunnar þegar ágreiningur verður milli sveitarfélaga um hana. Einnig er ráðuneytinu falið að leggja mat á hvort sveitarfélög hafi náð markmiðum þjónustunnar og sé metið að svo sé ekki er sveitarfélögum gert skylt að leggja áætlun fyrir ráðuneytið um hvernig úr verði bætt.

21. gr. kveður á um ríkar skyldur sveitarfélaga um að tryggja leiguhúsnæði. Það er ákaflega erfitt, ef ekki útlokað að uppfylla þessa lagagrein, við núverandi ástand í húsnæðismálum á nánast öllu suðvesturhorni landsins.

29. gr. gerir ráð fyrir að heimaþjónusta og liðveisla sé veitt á þeim tíma sólarhringsins sem þörf krefur. Erfitt kanna að verða að manna næturþjónustu og stýra henni, óháð kostnaðaraukanum sem henni fylgir.

31. gr. 3. málsgr. Þar er mælt fyrir um að sveitarfélög skulu koma til móts við þá þörf sem er fyrir tímabundna vistun eða dagþjónustu í skólaleyfum hjá fötluðum eða langveikum börnum miðað við aðstæður á hverjum stað. Þetta er úrræði sem eðlilegra væri að félli undir þjónustu leikskóla og grunnskóla í sveitarfélögum, sbr. einnig 56. gr. frumvarps þessa.

 

B.   Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.

 

Félagsmálaráð telur eðlilegt að starfsráðgjöf, atvinnuleit og vinnumiðlun fatlaðra sé viðfangsefni Vinnumálastofnunar eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það geta hins vegar komið upp ágreiningsefni milli sveitarfélaganna og Vinnumálastofnunar þegar lagt er mat á vinnufærni fatlaðra einstaklinga því að sumir kunna að lenda á gráu svæði. 

 

C.  Umsögn um frumvarp til laga um réttindagæslu fatlaðra.

 

Frumvarpið rennir styrkari stoðum undir réttindagæslu fatlaðra. Með því er stefnt að heildstæðara og samhæfðara starfi í þágu fatlaðra þar sem réttindagæslumaður hefur umsjón með réttindagæslu allra sem lögin ná til óháð búsetu. Verði frumvarpið að lögum er stórum áfanga náð í réttindagæslu fatlaðra.

 

D.  Umsögn um frumvarp til laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

 

Félagsmálaráð telur að 1. málsgrein 3. greinar megi fella út úr lagatextanum en hún er nánast samhljóða 1. málsgrein 13. greinar í frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Því ætti að nægja það sem þar stendur.

Varðandi orðalag í 3. grein frumvarpsins þar sem rætt er um “frumgreiningu” er réttara að orða það sem “frekari greining” eða “nánari greining” því að frumgreining á sér stað í flestum tilvikum á fæðingardeildum, hjá heilsugæslustöðvum í ungbarnaeftirliti eða heilsugæslu í skólum.

 

 

Fleira ekki gert

Fundi slitið kl 19.25  Guðrún Br. Vilhjálmsdóttir.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?