Fara í efni

Öldungaráð

03. mars 2016

Fyrsti fundur Öldungaráðs Seltjarnarness haldinn á bæjarskrifstofum Seltjarnarness þann 3. mars 2016 kl. 15:00 til 16:40.

Mættir: Ólafur Egilsson, Magnús Oddsson, Þóra Einarsdóttir, Stefán Bergmann, Birgir Vigfússon.

Auk þess sátu fundinn Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri (lið 1) og Snorri Aðalsteinsson sem ritaði fundargerð.

  1. Ólafur Egilsson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Fór yfir fundargerð bæjarstjórnar frá 10. febrúar s.l. um hverjir væru í ráðinu. Miðað er við að þeir gegni störfum til loka kjörtímabils bæjarstjórnar.
    Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri lýsti aðdraganda að stofnun ráðsins og undirbúningi byggingar hjúkrunarheimilis. Á íbúaþingi um málefni eldri borgara í mars á sl. ári komu fram óskir um stofnun félags eldri borgara. Í framhaldi af stofnun þess sl. haust var hægt að stofna öldungaráð sem Landsamband eldri borgara hafði hvatt allar sveitarstjórnir til að koma á fót sem samráðsvettvangi sveitarstjórna og slíkra félaga.
    Þá skýrði bæjarstjóri frá því að nú væri verið að rýna endanlegar teikningar hjúkrunarheimilis á Norðurtúni og útboð framundan. Sýndi hún jafnframt og útskýrði líkan sem gert hefur verið af heimilinu en það er á einni hæð og mun geta hýst 40 manns. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í haust. Leist ráðsmönnum vel á áformin.
  2. Snorri Aðalsteinsson félagsmálastjóri kynnti fjölþætta almenna og sérhæfða þjónustu bæjarfélagsins við eldri borgara. Um 625 bæjarbúar eru nú eldri en 67 ára, hefur fjölgað um hundrað á 6 ára tímabili; þetta eru um 12 % eða örlítið yfir landsmeðaltali.
  3. Magnús Oddsson formaður Félags eldri borgara á Seltjarnarnes (FebSel) skýrði frá starfi félagsins. Fyrsti aðalfundur fór fram sl. laugardag 27.2.16 en stofnfundur var haldinn 12.9.15. Félagið hyggst „gera góða þjónustu betri“ með því að veita aðhald. Miðað við það sem eldri borgurum stendur til boða telur félagið ekki þörf á að halda uppi fjölbreyttu starfi, en stefnir að opnum fundum um hvað megi bæta og mun koma ábendingum þ.a.l. á framfæri við Öldugaráð. FebSel er opið 60 ára og eldri, auk maka. Um 140 hafa skráð sig í félagið. Stjórnin hefur átt fund með fjölskyldunefnd og íþrótta- og æskulýðsráði bæjarins.
  4. Verkefni ráðsins rædd. Formaður fór yfir Samþykkt bæjarstjórnar um ráðið og vakti athygli á ýmsum greinum hennar sem kveða á um verksvið, hlutverk og markmið, svo og verkstjórn og verkaskiptingu. Hvatti hann ráðsmenn til að vekja hiklaust athygli málum varðandi hag eldri borgara sem betur mættu fara og ráðið gæti látið til sín taka. Rætt um að mál sem berast frá Félagi eldri borgara fái eftir þörfum umfjöllun í Öldungaráðinu en sé í samræmi við 5. gr., 2. mgr., Samþykkta um ráðið fyrst vísað til félagsmálastjóra sem undirbýr þau fyrir fundi ráðsins, nema um sé að ræða erindi sem unnt er að greiða úr án atbeina þess. Stefán Bergmann vakti athygli á skýrslum frá 2003 og 2006 um öldrunarmál sem eru á heimasíðu bæjarins. Samþykkt að skoða hvort þar sé enn um að ræða ábendingar sem til hagsbóta væri að hrinda í framkvæmd.
  5. Næstu fundir ráðsins. Næsti fundur var ákveðinn mánudaginn 30. maí 2015 kl. 15:00. Stefnt að öðrum fundum árins fimmtudaginn 8. september kl. 15:00 og svo 28. nóvember kl. 15:00 sem er mánudagur.

Fleira ekki gert

Fundi slitið

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?