Fara í efni

Skólanefnd

23. júní 2021

314. (137) fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 23. júní 2021, kl. 08:00 sal bæjarstjórnar Seltjarnarness.

Mættir voru: Sigrún Edda Jónsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Guðmundur H. Þorsteinsson, Björn Gunnlaugsson, Hildur Ólafsdóttir, Ólína Thoroddsen, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness og Sveinn Guðmarsson, fulltrúi foreldra við Grunnskóla Seltjarnarness og Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs.


Fundi stýrði Sigrún Edda Jónsdóttir
Fundargerð ritaði Baldur Pálsson

  1. Breyting á byrjun skóladags -málsnr. 2021060096.
    Skólanefnd samþykkti skipan starfshóps um breytingu á byrjun skóladags f.o.m. skólaárinu 2022-2023 og felur fræðslustjóra eftirfylgni við málið.

  2. Skólar á grænni grein -málsnr. 2021060095.
    Lagt fram til kynningar. Skólanefnd vísar erindinu til Grunnskóla Seltjarnarness.

    Ólína Thoroddsen og Sveinn Guðmarsson viku af fundi kl. 08:30.

  3. Reglur Seltjarnarnesbæjar um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum -málsnr. 2021060098.
    Lagt fram til kynningar. Afgreiðslu málsins var frestað til næsta fundar

  4. Inntaka leikskólabarna haustið 2021 -málsnr. 2021030142.
    Sviðsstjóri fjölskyldusviðs fór yfir stöðu og framvindu mála varðandi inntöku leikskólabarna haustið 2021.

    Bókun fulltrúa minnihluta í skólanefnd Seltjarnarness vegna inntöku leikskólanemenda
    Enn eitt árið koma þau tíðindi bæjaryfirvöldum Seltjarnarnesbæjar í opna skjöldu að í sveitarfélaginu búi skattborgarar sem eiga börn sem þurfa leikskólaþjónustu. Enn og aftur leiðir andvaraleysi til þess að grípa þarf til skyndireddinga til að uppfylla þjónustuloforð bæjarins. Þrettán börn sem fæddust á vordögum 2020 og komu því undir um svipað leyti og Hatari tryllti Evrópu, þurfa á leikskólaplássi að halda nú í haust, en fyrir þau er ekkert pláss í leikskóla bæjarins.

    Þessum börnum var upp á von og óvon boðin skólavist á vegum bæjarins í trássi við vilja stjórnenda leikskóla Seltjarnarness. Nú virðast bæjarstjóri og formaður bæjarráðs án aðkomu Leikskóla Seltjarnarness, skólanefndar og bæjarstjórnar hafa ákveðið að stofna nýjan ungbarnaleikskóla. Þau hafa ekki tímann með sér, en leikskólinn á að taka til starfa í lok sumars 2021. Ekkert af fagfólki bæjarins hefur komið að því að leggja forsendur fyrir starfseminni, engin pólitísk ákvörðun liggur fyrir um málið og engin formleg þarfagreining var gerð. Í ofanálag hefur rekstraraðili ekki fundist til að taka að sér verkefnið.

    Vinnubrögðum sem þessum má lýsa með ýmsum hætti, en í einu orði mætti kalla þetta rassvasastjórnsýslu. Slík vinnubrögð eru ekki ásættanleg þegar kemur að menntun og gæslu okkar yngstu borgara og ef sú þjónusta sem verður til með þessum hætti er skárri en vinnubrögðin er það hundaheppni.

    Svona vinnubrögð eru óboðleg og Seltjarnarnesbæ til skammar.

    Björn Gunnlaugsson, fulltrúi Neslista/Viðreisnar
    Hildur Ólafsdóttir, fulltrúi Samfylkingar


    Bókun frá fulltrúa meirihlutans í skólanefnd.
    Í framhaldi af bókun fulltrúa Neslista/Viðreisnar og Samfylkingar þá verður undirritaður að lýsa furðu sinni á ummælum fulltrúa viðkomandi flokka. Þeir voru upplýstir um að leysa þyrfti bráðavanda foreldra fyrir haustið og var sú vinna falin sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem hefur unnið málið faglega fyrir frekari ákvörðunartöku. Á sama tíma og uppi er höfð ófagleg gagnrýni á starfsmenn Seltjarnarnesbæjar sem hafa unnið hörðum höndum að, hafa engar tillögur um lausnir eða útfærslur verið settar fram af viðkomandi flokkum. Er það hentistefna eða tækifæri til þess að grafa undan þeim aðgerðum sem uppi eru hafðar. Það þarf tíma og skynsemi til þess að leysa málin og það verða allir að virða.

    Guðmundur Helgi Þorsteinsson


Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum.
Fundi var slitið kl. 10:25.


Sigrún Edda Jónsdóttir (sign.)
Ragnhildur Jónsdóttir (sign.)
Guðmundur H. Þorsteinsson (sign.)
Hildur Ólafsdóttir (sign.)
Björn Gunnlaugsson (sign.)

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?