Í júní 2021 samþykkti Alþingi lagabreytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og tók hún gildi þann 1. janúar 2023. Þar kemur fram:
Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð er þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 57. gr. Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila.
Í kjölfarið ákváðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að vinna saman að útfærslu á úrgangslosun á svæðinu. Til að vinna að þessari samræmingu úrgangssöfnunar á höfuðborgarsvæðinu var settur á laggirnar starfshópur sérfræðinga hvers sveitarfélags. Ingimar Ingimarsson garðyrkjustjóri er fulltrúi Seltjarnarnesbæjar í starfshópnum.
Með lagabreytingunni er sett skylda á alla að flokka rusl í nokkra flokka.
Flokkarnir
Lagabreytingarnar sem tóku gildi þann 1. janúar 2023 skylda alla aðila, einstaklinga og fyrirtæki til að flokka úrgang í nokkra flokka en flokkarnir eru eftirfarandi:
- Pappír og pappi
- Málmur
- Plast
- Gler
- Lífúrgangur
- Textíll
- Spilliefni
- Skilagjaldsumbúðir ofl.
Íbúðarhús:
Söfnun þriggja þessara flokka skal fara fram við íbúðarhús. Þetta gerir það að verkum að það þarf 4 sorphólf/flokkunarhólf við hvert heimili.
- Pappír og pappi, dagblöð og pappakassar ofl
- Plast, utan af vörum og óskilagjaldsumbúðir ofl,
- Lífúrgangur, matarleifar ofl
- Óflokkanlegt bleyjur, blautþurkur ofl.
Grenndarstöðvar:
Sérstakar grenndarstöðvar verða settar á laggirnar sem safna 3 flokkum
- Gler, flöskur, krukkur ofl
- Málmar, álpappír, matardósir ofl.
- Textíl föt, gardínur ofl.
Endurvinnslustöðvar:
Aðrir flokkar skulu fara á endurvinnslustöðvar eins og áður s.s.
- Garðúrgangur
- Byggingarefni
- Bílapartar
- Spilliefni ofl.
Frekari upplýsingar um flokkanir má finna á vef Sorpu, www.flokkum.is
Einbýlis- og raðhús
Breytingar sem verða almennt við rað- og einbýlishús er sú að einni tvískiptri tunnu verður bætt við þær tvær sem fyrir eru. Plastið fer í sér tunnu, pappi og pappír í sér tunnu en lífrænt og óflokkað í tvískipta (sem er jafnbreið hinum tveim). Áætlað er að dreifing á tvískiptum tunnum fari fram í byrjun sumars. Nánari dagsetningar verða auglýstar þegar nær dregur.
Fjölbýli
Þar sem sorpgeymslur/gerði/gámar eru mismunandi milli fjölbýlishúsa þarf sértækar lausnir fyrir hvert fjölbýli. Þá er mikilvægt fyrir húsfélögin að skoða sorpaðstæður sínar. Hér eru því nokkrir mikilvægir punktar sem gott er að hafa í huga þegar sorpaðstæður eru skoðaðar.
1. Er nóg pláss fyrir fjóra flokka?
Það er mikilvægt að mæla sorpsvæðið og athuga hvort aðstæður bjóði uppá fjóra flokka. Ef gamla sorpgeymslan rúmar ekki fjóra flokka þarf að finna nýjar lausnir til dæmis skýli, gerði eða skúra. Í eftirfarandi töflum má sjá stærðir og fjölda tunna til viðmiðunar.
Fjölbýli viðmið | Fjöldi íbúða í húsi | |||
Tegund úrgangs: | 2 - 3 | 4 - 6 | 7 - 10 | 10 - 14 |
Blandað heimilissorp | 2 stk. 240L | 3 stk. 240L | 2 stk. 660L | 3 stk. 660L |
Pappír og pappi | 2 stk. 240L | 3 stk. 240L | 2 stk. 660L | 3 stk. 660L |
Plast | 1 stk. 360L | 3 stk. 240L | 2 stk. 660L | 2 stk. 660L |
Lífrænn eldhúsúrgangur | 1 stk. 140L | 1 stk. 140L | 2 stk. 140L | 3 stk. 140L |
Tunnur | Hæð | Breidd | Dýpt | |
140L |
105sm |
48sm |
56sm |
|
240L |
105sm |
57sm |
74sm |
|
240L Tvískipt |
107sm |
57sm |
74sm |
|
360L |
110sm |
63sm |
86sm |
|
660L |
120sm |
125sm |
77sm |
2. Er aðgengi fyrir íbúa og sorphirðu gott að og í rýminu?
Nauðsynlegt er að skoða aðstæður út frá íbúum og sorphirðuaðila og hafa þá eftirfarandi spurningar í huga. Ennfremur þarf að hafa í huga að aðstæður geta verið mismunandi eftir veðri.
- Er auðvelt að komast að tunnum?
- Er auðvelt að athafna sig við tunnur?
- Er auðvelt að koma tunnum út og inn?
3. Sorplúgur þurfa að fá nýtt hlutverk
Finna þarf nýjan tilgang fyrir sorplúguna
4. Ráðgjöf
Forsvarsmenn fjölbýlishúsa geta leitað til garðyrkjustjóra bæjarins varðandi ráðgjöf og heppilegar lausnir með því að senda tölvupóst á ingimari@seltjarnarnes.is eða hringja í síma 8229114.
Fyrirtæki
Fyrirtæki þurfa að hafa samband við þann sem annast sorphirðumál fyrirtækisins og finna viðeigandi lausnir.