Fara í efni

Nýtt flokkunarkerfi 2023

Í júní 2021 samþykkti Alþingi lagabreytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og tók hún gildi þann 1. janúar 2023. Þar kemur fram:

Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð er þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 57. gr. Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila.

Í kjölfarið ákváðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að vinna saman að útfærslu á úrgangslosun á svæðinu. Til að vinna að þessari samræmingu úrgangssöfnunar á höfuðborgarsvæðinu var settur á laggirnar starfshópur sérfræðinga hvers sveitarfélags. Garðyrkjustjóri Seltjarnarnesbæjar var fulltrúi bæjarins í starfshópnum.

Með lagabreytingunni er sett skylda á alla að flokka rusl í nokkra flokka.

Flokkarnir

Lagabreytingarnar sem tóku gildi þann 1. janúar 2023 skylda alla aðila, einstaklinga og fyrirtæki til að flokka úrgang í nokkra flokka en flokkarnir eru eftirfarandi:

 • Pappír og pappi
 • Málmur
 • Plast
 • Gler
 • Lífúrgangur
 • Textíll
 • Spilliefni
 • Skilagjaldsumbúðir ofl.

Íbúðarhús:

Söfnun þriggja þessara flokka skal fara fram við íbúðarhús. Þetta gerir það að verkum að það þarf 4 sorphólf/flokkunarhólf við hvert heimili.

 • Pappír og pappi, dagblöð og pappakassar ofl
 • Plast, utan af vörum og óskilagjaldsumbúðir ofl,
 • Lífúrgangur, matarleifar ofl
 • Óflokkanlegt bleyjur, blautþurkur ofl.

Grenndarstöðvar:

Sérstakar grenndarstöðvar verða settar á laggirnar sem safna 3 flokkum

 • Gler, flöskur, krukkur ofl
 • Málmar, álpappír, matardósir ofl.
 • Textíl föt, gardínur ofl.

Endurvinnslustöðvar:

Aðrir flokkar skulu fara á endurvinnslustöðvar eins og áður s.s.

 • Garðúrgangur
 • Byggingarefni
 • Bílapartar
 • Spilliefni ofl.

Frekari upplýsingar um flokkanir má finna á vef Sorpu, www.flokkum.is

Einbýlis- og raðhús

Breytingar sem verða almennt við rað- og einbýlishús er sú að einni tvískiptri tunnu verður bætt við þær tvær sem fyrir eru. Plastið fer í sér tunnu, pappi og pappír í sér tunnu en lífrænt og óflokkað í tvískipta (sem er jafnbreið hinum tveim). Áætlað er að dreifing á tvískiptum tunnum fari fram í byrjun sumars. Nánari dagsetningar verða auglýstar þegar nær dregur.

 

Fjölbýli

Þar sem sorpgeymslur/gerði/gámar eru mismunandi milli fjölbýlishúsa þarf sértækar lausnir fyrir hvert fjölbýli. Þá er mikilvægt fyrir húsfélögin að skoða sorpaðstæður sínar. Hér eru því nokkrir mikilvægir punktar sem gott er að hafa í huga þegar sorpaðstæður eru skoðaðar.

1. Er nóg pláss fyrir fjóra flokka?

Það er mikilvægt að mæla sorpsvæðið og athuga hvort aðstæður bjóði uppá fjóra flokka. Ef gamla sorpgeymslan rúmar ekki fjóra flokka þarf að finna nýjar lausnir til dæmis skýli, gerði eða skúra. Í eftirfarandi töflum má sjá stærðir og fjölda tunna til viðmiðunar.

Fjölbýli viðmið Fjöldi íbúða í húsi      
Tegund úrgangs: 2 - 3 4 - 6  7 - 10 10 - 14
Blandað heimilissorp 2 stk. 240L 3 stk. 240L 2 stk. 660L 3 stk. 660L
Pappír og pappi 2 stk. 240L 3 stk. 240L 2 stk. 660L 3 stk. 660L
Plast 1 stk. 360L 3 stk. 240L 2 stk. 660L 2 stk. 660L
Lífrænn eldhúsúrgangur 1 stk. 140L 1 stk. 140L 2 stk. 140L 3 stk. 140L
Tunnur Hæð Breidd Dýpt  

140L

105sm

48sm

56sm

 

240L

105sm

57sm

74sm

 

240L Tvískipt

107sm

57sm

74sm

 

360L

110sm

63sm

86sm

 

660L

120sm

125sm

77sm

 

 

2. Er aðgengi fyrir íbúa og sorphirðu gott að og í rýminu?

Nauðsynlegt er að skoða aðstæður út frá íbúum og sorphirðuaðila og hafa þá eftirfarandi spurningar í huga. Ennfremur þarf að hafa í huga að aðstæður geta verið mismunandi eftir veðri.

 • Er auðvelt að komast að tunnum?
 • Er auðvelt að athafna sig við tunnur?
 • Er auðvelt að koma tunnum út og inn?

3. Sorplúgur þurfa að fá nýtt hlutverk

Finna þarf nýjan tilgang fyrir sorplúguna 

4. Ráðgjöf

Forsvarsmenn fjölbýlishúsa geta leitað til þjónustumiðstöðvarinnar bæjarins varðandi ráðgjöf og heppilegar lausnir með því að senda tölvupóst á postur@seltjarnarnes.is eða hringja í síma 5959100

Fyrirtæki

Fyrirtæki þurfa að hafa samband við þann sem annast sorphirðumál fyrirtækisins og finna viðeigandi lausnir.

Spurt og svarað um nýtt flokkunarkerfi

1. Af hverju er verið að fara í þessar breytingar?

Almenningur hefur lengi kallað eftir sérsöfnun á lífrænum úrgangi og samræmingu á flokkunarkerfi við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Þetta felur í sér betri þjónustu við íbúa á öllu höfuðborgarsvæðinu - eitt kerfi, einar reglur. Í dag er mismunandi flokkunarkerfi á milli sveitarfélaga. Nýja kerfið byggir á lögum sem tóku gildi 1. janúar 2023 og fela í sér betri meðhöndlun á úrgangi en hætta þarf að urða lífrænan úrgang.

2. Hvernig tunnur verða hjá mér?

Tunnum fyrir fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum. Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Í hinu nýja kerfi verða því að jafnaði þrjár tunnur við sérbýli en í fjölbýlishúsum fer útfærsla eftir aðstæðum á hverjum stað og því hægt að hafa samband við Þjónustumiðstöð til að fá aðstoð við útfærslu.

3. Hvenær koma tunnur til mín?

Nýtt kerfi verður innleitt á tímabilinu frá 15. maí – 15. desember 2023. Nánari tímaáætlun kemur síðar en innleiðing er í höndum Þjónustumiðstöðvarinnar.

4. Af hverju er verið að fjölga tunnum svona mikið? Eru þetta ekki allt of margar tunnur?

a) Flokkun á upprunastað er lang áhrifaríkasta aðferðin til auka endurnotkun og endurvinnslu. Þessi flokkun er kjarni hringrásarhagkerfisins; að safna þessum auðlindum vel og skilmerkilega til þess að gefa þeim framhaldslíf. Lögin eru skýr – fjórir flokkar við húsvegg – og sveitarfélögin verða að fylgja þessari meginreglu. Þetta hefur verið gert, með ágætis árangri, í nágrannalöndum okkar. Þetta er þjónusta við almenning; að fólk þurfi ekki að fara langa leið með úrgang.

b) Þetta er stór byrjun á mikilvægri vegferð - þetta kerfi á eftir að þróast og breytast, mæta ýmiskonar sérþörfum og fjölbreytni mun aukast með tímanum.

5. Allar þessar plasttunnur – er þetta ekki bara plastmengun?

Til að endurnýta verðmæti og koma í veg fyrir sóun eru eldri tunnur endurmerktar og reynt eftir fremsta megni að nýta þær tunnur sem fyrir eru. Plasttunnur eru léttar og endingarbetri sem minnkar kolefnissporið. Góð og skilvirk flokkun er undirstaða hringrásarhagkerfisins og það kallar einfaldlega á fleiri tunnur. Tunnurnar eru gjarnan gerðar úr endurunnu plasti. Allar tunnur sem eru teknar til baka verða síðan sendar í plastendurvinnslu.

6. Þarf ég breyta tunnugerðinu mínu? Þarf ég að borga það sjálf/sjálft/sjálfur?

Við ætlum að reyna fjölga tunnum eins og lítið og mögulegt er. En, já í einhverjum tilvikum gæti það gerst. Sérbýli fá þrjár tunnur: tvískipt tunna fyrir blandaðan úrgang og matarleifar, plasttunnu og pappírstunnu. Fólk þarf því að mæta þessum nýja veruleika og innleiðingu hringrásarhagkerfis með jákvæðni og samstarfsvilja. Þetta er mikilvægt umhverfisverkefni sem kostar okkur öll tíma og einhverja fyrirhöfn. Í flestum tilvikum þarf því fólk, ef það ætlar að ráðast í breytingar á eigin lóð, að kosta þær sjálft. Við bendum á byggingafulltrúa til leiðbeina fólki með þessar breytingar, hvort þurfi byggingarleyfi og svo framvegis.

7. Ég þarf að búa til nýtt tunnuskýli heima hjá mér. Hvað þarf ég að hafa í huga?

Best er að hafa samband við byggingarfulltrúa til að fá nánari upplýsingar. En almennt er best að koma tunnuskýlunum fyrir sem næst götu svo starfsfólk sorphirðunnar þurfi ekki að sækja tunnur langt inn fyrir lóðarmörk.

8. Hversu mikið pláss taka tvískiptu tunnurnar?

Tvískiptu tunnurnar er jafn stórar og hinar hefðbundnu 240 lítra tunnur. Eina breytingin er að þær eru með sitthvort hólfið og lokin opnast til hliðar í staðinn fyrir á móti þeim sem stendur fyrir framan tunnuna.

9. Hvað þýða þessar breytingar fyrir umhverfið?

Nýtt kerfi gerir okkur kleift að flokka enn betur því það er mikilvægt að halda auðlindum innan hringrásarhagkerfisins. Því betur sem við flokkum úrganginn okkar, því meiri líkur eru á að hægt sé að endurvinna hann. Flokkun matarleifa og endurvinnsla þeirra er stór og mikilvæg aðgerð í loftlagsmálum. Þetta er ein róttækasta og stærsta umhverfisaðgerð ársins.

10. Hversu oft verða tunnurnar tæmdar?

Losun á tunnum verður í svipuðum farvegi og verið hefur.

11. Get ég breytt fyrirkomulagi á tunnum hjá mér?

Reynt verður að hafa breytingar eins þægilegar og fyrirferðalitlar eins og mögulegt er þannig að íbúar finni sem minnst fyrir þeim. Seltjarnarnesbær mun endurskoða flokkunarkerfi 2025, því verður almennt ekki hægt að breyta tunnum.

12. Fer þetta ekki allt í sömu holuna? Er þessu ekki öllu grautað saman? Er ekki alveg tilganglaust að vera flokka þetta?

Umhverfisstofnun heldur utan um öll gögn er varðar söfnun á úrgangi og hversu mikið hlutfall fer í endurvinnslu. Þau gögn sýna skýrt og skilmerkilega að pappír, plast og málmar eru að fara í endurvinnslu í N-Evrópu. Allar matarleifar fara í endurvinnslu í gas- og jarðgerðarstöðina GAJA. Nær allur pappír er endurunnin, allt nothæft plast sem er sérflokkað er reynt að endurvinna en um helmingur, sem ekki er hægt að endurvinna fer í orkunýtingu. Það er verið að þróa nýjar endurvinnsluleiðir fyrir gler.

13. Hvernig safna ég matarleifum og hvernig poka á ég að nota?

Matarleifum verður safnað í bréfpoka sem brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðva SORPU. Seltjarnarnesbær eins og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu úthluta bréfpokum til íbúa til að byrja með til að tryggja söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Þá verður íbúum einnig útvegað ílát til að safna lífrænum úrgangi inn á heimilum.

14. Af hverju þarf að flokka matarleifar?

Söfnun á matarleifum eða lífrænum úrgangi er stórt skref í átt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úr lífrænum úrgangi sem safnast við heimili er framleitt metangas og molta eða jarðvegsbætir. Metangas nýtist meðal annars sem bifreiðaeldsneyti og molta nýtist til landgræðslu. Samkvæmt lögum sem taka gildi árið 2023 þarf að hætta að urða lífrænan úrgang.

15. GAJA? Er hún tilbúin? Virkar hún? Verður hægt að búa til nothæfa moltu úr matarleifum?

GAJA er tilbúin og virkar. Með sérsöfnuðum matarleifum fær verksmiðjan það hráefni sem hún þarf. Stefnt er að því að búa til nothæfa moltu til þess að nota í skógrækt og landgræðslu – það krefst hins vegar þess að fólk flokki vel og vandlega.

16. Hvað er þetta borgað þegar hent er?

a) Samhliða þessum breytingum verður með tíð og tíma tekið upp borgað þegar hent er kerfi (pay as you throw). Þetta kerfi byggir á mengunarbótarreglunni, að sá borgi sem mengi.

b) Með nýlegum lagabreytingum er sveitarfélögum gert að koma því þannig fyrir að innheimta verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs niður á hvern aðila og að fast gjald skuli takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Sveitarfélög þurfa að taka skref frá því að nota kerfi sem innheimtir fast gjald, í að nota innheimtukerfi sem er sniðið að því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.

c) Sveitarfélögum er gert að innleiða þetta kerfi á þessu ári en verður gefið ákveðið svigrúm. Flest sveitarfélög eru að fara svokallaða „rýmisleið“ en þá er greitt mismunandi gjald eftir fjölda og stærð íláta og jafnvel tíðni tæminga. Þetta er mjög skilvirkt kerfi til að draga úr úrgangi, minnka kostnað og auka félagslegan jöfnuð.

d) Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu stefna að því að taka upp sameiginlegt Borgað þegar hent er kerfi.

Síðast uppfært 16. október 2023
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?