Fara í efni

Reglur um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ

1. kafli

Almenn atriði

1. gr.

Framfærsluskylda

Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Í því felst m.a. að þeim sem sækir um aðstoð skv. reglum þessum er skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því.

2. gr.

Markmið og hlutverk

Fjárhagsaðstoð er veitt til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem hafa ónógar tekjur og geta ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991, sbr. og III. kafla reglna þessara. Fjárhagsaðstoð skal veitt íbúum í tímabundnum erfiðleikum og er aðstoð til að mæta grunnþörfum. Fólk sem er í skráðri sambúð í Þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, sbr. IV. kafla reglna þessara.

Gefa skal sérstakan gaum að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna og meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi.

Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð þar sem önnur löggjöf mælir fyrir um aðgerðir sem hafa í för með sér fjárútgjöld, t.d. ákvæði VI. og VII. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 með síðari breyt­ingum.

Þá er heimilt að veita fjárhagsaðstoð sem lið í endurhæfingu og stuðningi til sjálfshjálpar, enda ekki í verkahring annarra að veita hana.

Jafnan skal kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almanna­tryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga.

Fjárhagsaðstoð skal veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991.

3. gr.

Form fjárhagsaðstoðar

Fjárhagsaðstoð skal að jafnaði veitt sem styrkur. Fjárhagsaðstoð er veitt sem lán óski umsækj­andi þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslur með tilliti til eigna og framtíðartekna, sbr. 23., 24. og 25. gr. þessara reglna, sbr. og 22. gr. laga nr. 40/1991.

Framfærslulán er óheimilt að veita lengur en þrjá mánuði samfellt.

Einstaklingar sem bíða eftir endurmati á endurhæfingarlífeyri eða örorkumati frá Trygginga­stofnun ríkisins geta sótt um fjárhagsaðstoð í formi láns. Þegar viðkomandi umsækjandi hefur fengið bætur sínar aftur í tímann frá Tryggingastofnun ríkisins ber honum að greiða lánið til baka með eingreiðslu.

Lán eru vaxtalaus en geta verið bundin launavísitölu.

4. gr.

Lögheimili og búseta

Umsækjendur um fjárhagsaðstoð skulu eiga lögheimili á Seltjarnarnesi og hafa þar sannanlega fasta búsetu. Telji starfsmaður félagsþjónustu dvöl umsækjanda í bæjarfélaginu, sem skráður er þar með lögheimili ekki vera ígildi fastrar búsetu, sbr. ákvæði laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018, skal tekin ákvörðun um hvort málið verði sent Þjóðskrá til nánari athugunar.

Erlendum ríkisborgurum ríkis innan EES ber að framvísa staðfestingu á lögheimilisskráningu. Erlendum ríkisborgurum utan EES ber að framvísa skírteini um dvalarleyfi og staðfestingu á lög­heimilis­skráningu.

5. gr.

Tímabil samþykktrar aðstoðar

Fjárhagsaðstoð skal að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn, þó er heimilt í sérstökum tilvikum að afgreiða umsóknir til allt að þriggja mánaða. Þegar umsækjandi fær jafnframt bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og ljóst er að aðstæður hans muni ekki breytast, er heimilt að samþykkja aðstoð í sex mánuði í senn. Aðstæður þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð lengur en sex mánuði skulu kannaðar sérstaklega og félagsleg ráðgjöf veitt ásamt öðrum viðeigandi úrræðum í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991.

Í undantekningartilvikum er heimilt að veita fjárhagsaðstoð vikulega vegna sérstakra aðstæðna.

Eigi umsækjendur rétt til fjárhagsaðstoðar, gildir rétturinn frá þeim tíma er umsókn var mót­tekin.

Fjárhagsaðstoð er aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991. Rökstuddar ástæður verða að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verður skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

II Kafli

Umsókn um fjárhagsaðstoð

6. gr.

Stjórn og framkvæmd

Fjölskyldunefnd fer með stjórn félagslegrar þjónustu í umboði bæjarstjórnar Seltjarnarness, sbr. erindisbréf nefndarinnar.

Starfsmenn félagsþjónustu Seltjarnarness sjá um framkvæmd fjárhagsaðstoðar skv. erindisbréfi fyrir fjölskyldunefnd Seltjarnarness. Starfsmenn félagsþjónustunnar leggja mat á og afgreiða umsóknir um fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum þessum. Skal það gert á afgreiðslufundum starfs­manna.

Umsækjandi getur skotið synjun um fjárhagsaðstoð til fjölskyldunefndar og ákvörðunum fjöl­skyldu­nefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 33. og 34. gr. reglna þessara.

7. gr.

Umsókn og fylgigögn

Við mat á beiðnum um fjárhagsaðstoð skulu ætíð liggja fyrir eftirtalin gögn:

Rafræn eða skrifleg umsókn, á sérstöku umsóknareyðublaði, þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri.

Umsókn skal fylgja staðfest skattframtal vegna síðastliðins árs auk upplýsinga úr staðgreiðslu­skrá RSK, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn er lögð fram og mánuðinn þar á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, inn­lendum og erlendum lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Fæðingarorlofssjóði, sjúkra­sjóðum stéttarfélaga eða öðrum aðilum. Einnig ber að skila skattframtali og eignayfirlýsingu frá ríkisfangs­landi hafi viðkomandi eða sambúðaraðili búið erlendis á yfirstandandi ári eða síðasta tekju­ári. Einnig yfirlit um innstæður í bönkum, sparisjóðum eða öðrum fjármálastofnunum. Þá skulu eftir atvikum liggja fyrir upplýsingar um lánshæfismat og skuldastöðu frá Creditinfo.

Erlendum ríkisborgurum ríkis innan EES ber að framvísa staðfestingu á lögheimilisskráningu. Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er erlendur ríkisborgari utan EES ber að framvísa skírteini um dvalarleyfi og staðfestingu á lögheimilisskráningu.

Umsækjandi sem hefur fengið dvalarleyfi á þeim forsendum að skyldur aðili ábyrgist fram­færslu hans á að jafnaði ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

Þegar umsækjandi er atvinnulaus skal hann framvísa staðfestingu Vinnumálastofnunar er stað­festir atvinnuleysi hans. Njóti umsækjandi réttar til atvinnuleysisbóta skal hann framvísa staðfestingu Vinnumálastofnunar. Umsækjandi skal að jafnaði sækja um eitt starf á viku og skal umsækjandi fram­vísa staðfestingum á umsóknum um störf. Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda skal hann framvísa læknisvottorði. Hafi hann ekki skráð sig hjá vinnumiðlun, án viðhlítandi skýringa, hefur það áhrif á fjárhæð, sbr. 11. gr. þessara reglna.

Umsækjandi sem er óvinnufær skal framvísa gildu vottorði sérfræðings með hverri umsókn. Gildistími vottorða er þrír mánuðir. Í sérstökum tilfellum og við endurnýjun umsóknar getur starfs­maður félagsþjónustu aflað þessara gagna skriflega eða með símtali við sérfræðing með samþykki umsækjanda.

Beri umsókn ekki með sér nauðsynlegar upplýsingar skal starfsmaður félagsþjónustu tilkynna umsækjanda um hvaða gögn skorti og hvaða afleiðingar slíkt geti haft. Jafnframt skal leiðbeina umsækjanda hvert hann skuli leita til að afla viðkomandi gagna. Í læknisvottorðum þarf að tilgreina ástæðu óvinnufærni, sjúkdómsgreiningu, upplýsingar um fyrirhugaða læknismeðferð og/eða endur­hæf­ingu auk tímabils óvinnufærni.

Hafi umsækjandi þegið aðstoð í fjóra mánuði skal honum boðið viðtal hjá trúnaðarlækni bæjarins. Markmið þess er að tryggja að umsækjandinn fari ekki á mis við rétt sinn til endurhæfingar enda bendi allt til þess að ef ekkert er aðhafst geti það leitt til örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræði­lega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Til að umsókn verði fullgild þarf umsækjandi að koma til viðtals við starfsmann félagsþjónustu.

Félagsþjónustan getur fellt umsókn úr gildi ef umbeðin gögn berast ekki innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þar að lútandi.

Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um aðstoð fyrir sína hönd.

Einstaklingar sem afplána fangelsisdóm eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð á meðan þeir sitja í fangelsi.

8. gr.

Upplýsingar um tekjur og eignir umsækjanda

Starfsmenn félagsþjónustunnar skulu, ef þörf krefur, afla frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda, m.a. hjá skattyfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum og Atvinnuleysistryggingasjóði. Skal það gert í samráði við umsækjanda. Neiti umsækjandi að veita upplýsingar um fjárhag sinn eða maka stöðvast afgreiðsla umsóknar hans.

Meðlag sem ungmenni kunna að fá greitt vegna náms reiknast sem tekjur.

Skylt er að veita starfsmönnum félagsþjónustunnar upplýsingar úr skattframtölum þeirra sem leita fjárhagsaðstoðar. Sama gildir um upplýsingar úr skattframtölum lögskylds framfæranda, enda hafi umsækjandi veitt starfsmönnum umboð til að afla þessara upplýsinga, sbr. 24. gr. laga nr. 40/1991.

Skylt er að veita starfsmanni félagsþjónustu hverjar þær upplýsingar sem máli skipta vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð. Neiti umsækjandi eða maki hans að veita upplýsingar um aðstæður sínar, þ.m.t. fjárhag, eignir og annað sem varðar umsókn stöðvast afgreiðsla umsóknar.

III Kafli

Réttur til fjárhagsaðstoðar

9. gr.

Mat á fjárþörf

Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 10. gr. reglna þessara, lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr.

Tekið skal tillit til sérstakra aðstæðna eftir því sem við á, sbr. reglur þessar.

10. gr.

Upphæð fjárhagsaðstoðar

Framfærslugrunnur tekur mið af útgjöldum einstaklings, 18 ára eða eldri, vegna daglegs heim­ilishalds og miðast við grunnfjárhæð 177.600 kr.* (grunnur 177.600 = 1,0). Framfærslugrunnur vegna hjóna og fólks í sambúð miðast við grunnfjárhæð 284.160 kr.** (1,6). Upphæð fjárhags­aðstoðar er óháð því hvort barn/börn búi á heimilinu.

Fólki sem býr hjá foreldri/-um skal reiknast hálf grunnupphæð á mánuði, eða mismun á þeirri upp­hæð og eigin tekjum þeirra. Sama gildir um þá sem hafa búsetu hjá ættingjum, vinum eða vanda­­mönnum og njóta hagræðis af því.

Fólk sem býr sjálfstætt en er ekki með gildan leigusamning að húsnæðinu og er ekki eigandi þess reiknast 152.502 kr. (0,732) í framfærslugrunn.

Framfærslugrunnur einstaklinga sem eru inniliggjandi á sjúkrastofnun eða í áfengis- eða vímu­efnameðferð samsvarar upphæð vasapeninga (ráðstöfunarfé) eins og hún er skilgreind hjá Trygg­inga­stofnun ríkisins hverju sinni eða 74.477 kr. þann 1. janúar 2019. Heimilt er að greiða húsa­leigu/dvalar­gjald á meðan inniliggjandi meðferð varir. Hámarksaðstoð á mánuði fer þó aldrei yfir framfærslugrunn á kvarða 1,0.

Unglingar yngri en 18 ára eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð í eigin nafni. Aðstoð við námsmenn fer eftir ákvæðum 15. og 17. gr.

Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar skal endurskoðuð í upphafi hvers árs. Fjölskyldunefnd tekur ákvörðun um breytingar á öllum fjárhæðum í reglum þessum.

*226.773 kr. og **362.837 kr.

11. gr.

Lækkun grunnfjárhæðar

Hafi umsækjandi hafnað atvinnu, vinnumarkaðsúrræðum eða sagt starfi sínu lausu án viðhlít­andi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, verið settur á bið hjá Vinnumálastofnun, hafi fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta eða hafi ekki sinnt virkri atvinnuleit með sannanlegum hætti skal greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu eins og hún er tilgreind í III. kafla reglna þessara þann mánuð, svo og næsta mánuð þar á eftir. Eftir þann tíma getur félagsþjónustan skert enn frekar, eða fellt niður, frekari fjárhagsaðstoð til viðkomandi umsækjanda , nema sýnt sé fram á að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður séu fyrir því að atvinnu var hafnað.

Sama á við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki sinnir öllum skyldum um mætingu hjá vinnu­miðlun og kröfum um atvinnuleit og aðra virkni skv. reglum Vinnumálastofnunar.

12. gr.

Tekjur og eignir umsækjanda

Allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinum á undan, eru taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum er hér átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. allar innlendar og erlendar skattskyldar atvinnutekjur, allar greiðslur frá Trygginga­stofnun ríkisins nema greiðslur með börnum, greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands, úr lífeyris­sjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, verktaka­­greiðslur, leigutekjur o.s.frv. og koma þær til frádráttar. Miða skal við heildartekjur áður en tekju­skattur hefur verið dreginn frá.

Greiðslur vegna barna teljast ekki til tekna enda er ekki reiknað með framfærslukostnaði vegna þeirra við mat á fjárþörf.

Húsnæðisbætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og vaxtabætur eru ekki taldar til tekna. Gert er ráð fyrir að húsnæðiskostnaði verði fyrst og fremst mætt með greiðslum vaxta- og húsaleigubóta, en einnig er gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði í framfærslugrunni.

Eigi umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í og eina fjölskyldubifreið eða hafi hann nýlega selt eignir sínar skal honum að jafnaði vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu undir viðmiðunar­mörkum eða nýta eignir til framfærslu.

13. gr.

Greiðslur meðlags

Þegar tekjur umsækjanda eru lægri en grunnfjárhæðin skal taka tillit til meðlagsgreiðslna með barni eða börnum sem umsækjandi hefur greitt með reglulega fram að þeim tíma sem hann fær fjárhagsaðstoð. Hækkar fjárhagsaðstoðin sem nemur einu meðlagi eins og það er á hverjum tíma með hverju barni. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi staðið í skilum með meðlag a.m.k. undan­farna fjóra mánuði. Átt er við meðlagsgreiðslur hverju sinni, en ekki uppsafnaðar meðlags­skuldir. Slíkar greiðslur skulu þó inntar af hendi beint og milliliðalaust af hálfu starfsmanna félags­þjónustunnar séu þær ekki innheimtar af öðrum.

14. gr.

Atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar og fólk í hlutastörfum

Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem hafa lægri tekjur en sem nemur grunn­fjárhæð, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að þeir hafi stöðvað atvinnurekstur og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnu­leysis­tryggingar, sbr. og 6. mgr. 2. gr. reglna þessara.

Heimilt er þó að veita aðstoð til sjálfstætt starfandi einstaklings með tekjur undir framfærslu­grunni í allt að þrjá mánuði áður en gerð er krafa um að þeir hafi stöðvað atvinnurekstur og leiti réttar síns til atvinnuleysisbóta.

Sé umsækjandi í hlutastarfi með tekjur undir framfærslugrunni skal gerð krafa um að viðkom­andi skrái sig hjá Vinnumálastofnun og óski eftir fullu starfi.

15. gr.

Námsmenn

Einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna geta að öðru jöfnu ekki sótt um fjárhagsaðstoð. Sama á við um maka eða sambýlismann námsmanns, enda sé gert ráð fyrir framfærslu maka við útreikning námslána.

IV

Heimildir vegna sérstakra aðstæðna

16. gr.

Aðstoð til tekjulágra foreldra vegna barna á þeirra framfæri

Heimilt er að veita foreldrum, sem hafa haft tekjur undanfarna fjóra mánuði sem eru við eða lægri en grunnfjárhæðin, sérstaka fjárhagsaðstoð. Um er að ræða aðstoð til að greiða fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, lengdan skóladag, sumardvöl og/eða þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Viðmiðunarmörk aðstoðar með hverju barni eru 12.000 kr. á mánuði. Um tímabundna aðstoð er að ræða sem skal endurskoðuð á þriggja mánaða fresti. Barn/börn skulu skráð með lögheimili hjá viðkomandi foreldri

Skilyrði fyrir aðstoð samkvæmt framangreindri málsgrein er að umsækjandi hafi fyrst nýtt rétt samkvæmt frístundakorti þegar það á við.

Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Hér er átt við foreldra sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð undanfarna 12 mánuði eða lengur. Skal styrkurinn miða að því að greiða áætlaðan bókakostnað, skólagjöld og ferðakostnað til og frá skóla.

Kanna skal aðstæður beggja foreldra þegar mat er lagt á umsókn um aðstoð vegna barna

17. gr.

Námsstyrkur

Heimilt er að styrkja ungt fólk til náms sem á við erfiðar félagslegar aðstæður að etja og styðja það þannig til sjálfshjálpar. Er þá lagt mat á hvort styrkja skuli einstaklinga sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla vegna fjárhagslegra og/eða félagslegra erfiðleika og búa við bág­bornar heimilisaðstæður.

Heimild þessi nær eingöngu til fólks undir viðmiðunarmörkum samkvæmt reglum þessum. Umsókn um námsstyrk skal jafnan skila inn tveimur mánuðum áður en nám hefst.

Námsstyrk er heimilt að veita fólki á aldrinum 18-24 ára að uppfylltum áður töldum skilyrðum þessarar greinar og miðast aðstoðin við grunnfjárhæð ásamt skólagjöldum og bókakostnaði. Tekjur koma til frádráttar, sbr. 12. gr.

Meta skal námsframvindu í hverju tilviki miðað við aðstæður hvers og eins. Nemandi skal leggja fram yfirlit yfir skólasókn mánaðarlega og einkunnir í annarlok.

Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

18. gr.

Styrkur vegna húsbúnaðar

Styrkja má einstaklinga sem eru að hefja búskap í eftirfarandi tilvikum:

- til einstaklings, sem hefur lægri tekjur en sem nemur grunnfjárhæð, er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun,

- til ungs fólks á aldrinum 18-24 ára, sem er eignalaust, með tekjur við eða undir grunn­fjárhæð, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn,

- til einstaklinga sem eru að flytja í sérhæfða búsetu eða í þjónustuíbúðakjarna og eru eigna­lausir, með tekjur við eða undir grunnfjárhæð.

Viðmiðunarmörk aðstoðar samkvæmt a–c-lið geta hæst orðið 130.000 kr.

Aðeins er unnt að fá styrk vegna húsbúnaðar einu sinni.

19. gr.

Greiðsla vegna tannlækninga

Heimilt er undir sérstökum kringumstæðum að veita fjárhagsaðstoð eða lán til greiðslu nauðsyn­legra tannlækninga til einstaklinga sem hafa tekjur við eða undir grunnfjárhæð og fullnægja a.m.k. einu eftirfarandi skilyrða:

- hafa átt við langvarandi atvinnuleysi að stríða, sex mánuði eða lengur, eða verið tekjulausir undanfarna sex mánuði eða lengur,

- hafa notið fjárhagsaðstoðar til framfærslu til lengri tíma.

Hámark aðstoðar er 60.000 kr. á tólf mánaða tímabili.

Kostnaðaráætlun tannlæknis skal fylgja með umsókn.

20 gr.

Styrkur til að greiða viðtöl hjá sérfræðingum

Heimilt er að veita einstaklingum við eftirfarandi aðstæður styrk til greiðslu viðtala hjá félags­ráðgjöfum með sérfræðiréttindi, geðlæknum og sálfræðingum, sem lið í umfangsmeiri aðstoð enda sé fyrirsjáanlegt að ekki sé hægt að veita þjónustuna innan félagsþjónustu Seltjarnarness:

- einstaklingum sem alist hafa upp við, eða búið um lengri tíma við, mikla og langvarandi félags­lega erfiðleika,

- einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndi­legum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.

Hámark aðstoðar er 60.000 kr. á ári.

21. gr.

Útfararstyrkir

Heimilt er að veita aðstoð til greiðslu útfararkostnaðar þegar staðreynt hefur verið að dánarbúið getur ekki staðið undir kostnaði af útför hins látna.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um útfararstyrk: Staðfest ljósrit af skattframtali hins látna, launaseðlar og greiðsluyfirlit frá tryggingafélögum og lífeyrissjóðum, staðfesting frá stéttar­félagi um rétt til útfararstyrks, tilkynning sýslumanns um skiptalok á grundvelli eignayfirlýsingar, sbr. 25. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., eða einkaskiptaleyfi útgefið af sýslumanni til erfingja skv. 31. gr., sbr. 28. gr. sömu laga.

Heimilt er að veita eftirlifandi maka lán eða styrk vegna útfararkostnaðar þegar eignir dánar­búsins duga ekki til að greiða fyrir útför hins látna og eignir eftirlifandi maka eru ekki aðrar en íbúðar­húsnæði sem umsækjandi býr í.

Miða skal við raunkostnað útfarar. Hámark aðstoðar er 160.000 kr.

22. gr.

Áfallaaðstoð

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum sem eru við eða undir viðmiðunarmörkum reglna þessara, fjárhagsaðstoð vegna skyndilegs missis búslóðar eða annars eignamissis sem orðið hefur vegna bruna, veikinda eða annarra áfalla. Aðstoðin kemur einungis til álita þegar tjónþoli hefur ekki haft heimilistryggingu eða aðra tryggingu sem bætir tjónið. Sama gildir ef umsækjandi hefur þurft að rýma húsnæði af heilbrigðisástæðum. Hámark fjárhagsaðstoðar er 130.000 kr.

23. gr.

Lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu

Heimilt er að veita þeim sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan lán allt að 250.000 kr. til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Skilyrði er að viðkomandi umsækjandi sýni fram á að hann hafi sótt um sams konar fyrirgreiðslu hjá viðskipta­banka sínum en verið hafnað.

Þinglýstur húsaleigusamningur skal liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skal við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði.

24. gr.

Aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika

Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna sérstakra fjárhags­erfiðleika, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: að staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,

- að fyrir liggi yfirlit starfsmanns félagsþjónustunnar eða umboðsmanns skuldara um fjár­hags­stöðu umsækjanda,

- að fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra.

- að fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Styrkur kemur einungis til álita hafi umsækjandi haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð undan­farna sex mánuði eða lengur.

Lán skal ekki veitt ef ljóst er að umsækjandi muni ekki geta staðið undir afborgunum af því. Greiðslu­áætlun skal fylgja með umsókn þegar um lán er að ræða.

Ekki er heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði eða aðrar lána­stofnanir. Sömuleiðis er ekki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattskulda, sekta eða skulda við einkaaðila.

25. gr.

Um fjárhagsaðstoð sem veitt er í formi láns

Ef veita á fjárhagsaðstoð sem lán og fyrir liggur að umsækjandi er þegar með eldra lán hjá félags­þjónustunni skal gera eldra lánið upp eða sameina það nýrri lánveitingu áður en nýtt lán er veitt.

26. gr.

Aðstoð vegna jólahalds

Jólastyrkur nemur 25% af grunnaðstoð og er að öllu jöfnu aðeins veittur þeim sem á við sérstaka félagslega erfiðleika að etja og hefur verið undir eða á viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar undan­farna 6 mánuði. Sækja þarf sérstaklega um jólastyrk.

V Kafli

Málsmeðferð samkvæmt reglum þessum skal vera í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ákvæði XV. og XVI. kafla laga nr. 40/1991.

27. gr.

Könnun á aðstæðum

Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um fjárhagsaðstoð hefur borist.

Þegar öll gögn hafa borist og könnun er lokið er umsókn lögð fram ásamt skriflegri greinargerð á afgreiðslufundi starfsmanna til kynningar og ákvörðun tekin um afgreiðslu.

28. gr.

Samvinna við umsækjanda

Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, en að öðrum kosti talsmann hans ef við á.

29. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti og í samræmi við persónuverndarstefnu bæjarins. Hafi starfsmenn og fulltrúar í fjölskyldunefnd kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óvið­komandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

30. gr.

Leiðbeiningar til umsækjanda

Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður veita umsækjanda félagslega og fjárhagslega ráðgjöf og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Starfsmaður skal aðstoða umsækjanda ef þess er þörf að sækja réttindi sín til annarra stofnana og sjóða. Berist skriflegt erindi sem ekki snertir starfssvið félagsþjónustunnar, skal starfsmaður í samráði við umsækj­anda framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem auðið er.

31. gr.

Niðurstaða og rökstuðningur synjunar

Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna þessara um fjárhagsaðstoð.

32. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar

Fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær er endurkræf og getur félagsþjónustan endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar.

33. gr.

Kynning á ákvörðun um fjárhagsaðstoð

Þær ákvarðanir um fjárhagsaðstoð sem starfsmenn félagsþjónustunnar hafa umboð til að taka á grundvelli reglna þessara, skulu kynntar umsækjanda tryggilega. Þegar ákvarðanir eru kynntar skal umsækjanda um leið vera kynntur réttur til þess að fara fram á að fjölskyldunefnd fjalli um umsókn­­ina. Umsækjandi hefur að öðru jöfnu fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til fjölskyldu­nefndar frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskyldunefnd skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

Ákvörðun fjölskyldunefndar kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála.

34. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála

Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskyldunefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskyldunefndar.

35. gr.

Lagaheimild og gildistaka

Reglur þessar gilda um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ, sbr. VI. kafla laga nr. 40/1991 um félags­þjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Reglur þessar voru samþykktar í fjölskyldunefnd Seltjarnarness þann 19. september 2019 og sam­þykktar af bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar þann 9. október 2019 í samræmi við 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Reglurnar taka gildi 1. janúar 2020.

 

Birt í B deild Stjórnartíðinda - Útgáfud.: 17. desember 2019

Síðast uppfært 14. ágúst 2023
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?