Fara í efni

Ásmundur Sveinsson - Trúarbrögðin

Frummynd þessa járnskúlptúrs er frá 1956. Árið 1975 var hún stækkuð og reist á núverandi stað í tilefni 100 ára afmælis Mýrarhúsaskóla.

Ár: 1965/1975.
Efni: járn.

Stærð: 418x345x235 cm.
Staðsetning: við Kirkjubraut.

 

Trúarbrögðin eru frá því skeiði í list Ásmundar (1893-1982) þegar járnið leysti stein og tré af hólmi sem aðal efniviður listamannsins. Jafnframt urðu viðfangsefni hans óhlutbundin, oft sótt í heim tækni og geimvísinda. Í þessu verki notar Ásmundur geómetrísk form og tákn sem vísa til ýmissa trúarbragða og andlegra minna. Hálfmáninn er tákn múhameðstrúar, utan hans stendur kross sem tengist öðrum hlutum verksins með járngeislum. Margs konar þríhyrnd form vísa til heilagrar þrenningar en einnig til viðleitni alls til æðri upphafningar og sameiningar. Hringurinn er tákn eilífðar og einingar. Við fyrstu sýn líkist verkið skipi, með stefni, möstrum og segli. Má skilja það svo að hin ýmsu trúarbrögð og andleg leit mannsins séu á sama fleyi, siglandi hraðbyri inn í framtíð einingar og andlegs þroska.

Texti eftir Ásdísi Ólafsdóttur, listfræðing.

 

Hljóðleiðsögn um listaverkið "Trúarbrögð". Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur les.

Ýtið á "play" takkann fyrir neðan til að spila hljóðleiðsögn.

Síðast uppfært 17. maí 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?