Fara í efni

Tónlistarskóli Seltjarnarness

Tónlistarskóli Seltjarnarness býður upp á fjölþætt tónlistarnám og heldur úti blómlegu tónlistarstarfi sem er mikilvægur þáttur í skóla- og menningarlífi bæjarins. 

Skólastjóri: Kári Einarsson

Í tónlistarskólanum er öllum tegundum tónlistar gert jafn hátt undir höfði og boðið upp á einstaklingsmiðað nám auk þess sem þar eru starfræktar lúðrasveit og strengjasveit. Skólinn var stofnaður árið 1974 en undanfari skólans var skólalúðrahljómsveit Mýrarhúsaskóla sem hóf starfsemi árið 1967 og hefur starfað óslitið síðan. Fjöldi ungmenna hefur spilað með lúðrasveitinni sem getið hefur sér góðan orðstír. Tónlistarskólinn hefur frá árinu 1981 verið starfræktur í núverandi húsnæði á Skólabraut. Í gegnum árin hafa orðið breytingar og stækkun á húsnæðinu sem í dag rúmar vel alla starfsemi skólans og hentar vel til kennslu. Um tónlistarfræðslu gilda lög nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. 

Samstarf tónlistarskólans

Tónlistarskólinn á í mjög jákvæðu og góðu samstarfi við önnur skólastig og stofnanir bæjarins.

Samstarf við Leikskóla Seltjarnarness

  • Samstarf við leikskólann felur í sér að kennari frá tónlistarskólanum sinnir markvissri tónlistarkennslu á öllum tíu deildum leikskólans einu sinni í viku.
  • Leitast er við að skapa jákvæða umgjörð utan um markvisst tónlistaruppeldi sem hæfir yngsta nemendahópnum.

Samstarf við Grunnskóla Seltjarnarness

  • Allir nemendur í fyrsta bekk Grunnskóla Seltjarnarness sækja nám í Forskóla I og mæta í tónlistarskólann á skólatíma einu sinni í viku með sínum bekk.
  • Í öðrum bekk tekur við Forskóli II og þá taka nemendur fyrstu skrefin í hljóðfæranámi og nótnalestri með því að læra á blokkflautu.
  • Á báðum stigum er unnið með þætti eins og söng, hrynþjálfun, hlustun og hreyfingu og koma báðir nemendahópar fram á tónleikum yfir veturinn og fá þá tækifæri til að sýna afrakstur námsins.
  • Forskóli I og II eru skyldunám en bæði stig eru án endurgjalds.

Samstarf við Bókasafn Seltjarnarness

  • Bókasafnið sem menningarmiðstöð bæjarins nýtist vel fyrir tónlistarflutning á vegum tónlistarskólans.
  • Tónstafir er dæmi um samstarfsverkefni bókasafnsins og tónlistarskólans þar sem boðið er upp á tónlistarflutning á vegum tónlistarskólans þrisvar sinnum á haustönn og þrisvar sinnum á vorönn. 

Síðast uppfært 06. desember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?