Fara í efni

Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Seltjarnarnesskaupstað

Staðfestar af innanríkisráðuneytinu 3.5.2013

1. Markmið og skilgreining

Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Seltjarnarneskaupstaðar. Með kjörnum fulltrúum er átt við bæjarfulltrúa sem og alla aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum Seltjarnarneskaupstaðar.

2. Meginskyldur kjörinna fulltrúa

Kjörinn fulltrúi fer með embætti samkvæmt lögum og er bundinn að fylgja ávallt reglum og samþykktum Seltjarnarneskaupstaðar og sannfæringu sinni í störfum sínum. Kjörnum fulltrúa ber að sinna starfi sínu af alúð og samviskusemi og gæta hagsmuna bæjarins. Hann skal þjóna almannahagsmunum en ekki beinum eða óbeinum persónulegum hagsmunum sínum eða einkahagsmunum einstaklinga eða hópa. Kjörinn fulltrúi má hvorki hvetja né aðstoða annan kjörinn fulltrúa né starfsmann við að brjóta þær meginreglur sem hér eru settar fram.

Kjörinn fulltrúi skal fara að öllum gildandi reglum sem takmarka það að hann gegni samtímis tveimur eða fleiri stöðum. Þá skal hann ekki heldur gegna
störfum, taka við kjörnu umboði, starfi eða opinberri stöðu sem felur í sér eftirlit með hans eigin starfi sem kjörins fulltrúa eða starfi sem honum sem kjörnum fulltrúa er ætlað að hafa eftirlit með.

3. Trúnaður

Kjörinn fulltrúi skal gæta þagnarskyldu um það sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum, reglum eða eðli máls. Trúnað ber að halda áfram eftir að fulltrúinn hefur látið af störfum.

Kjörnum fulltrúa ber að virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í nefndum og ráðum Seltjarnarneskaupstaðar sem og um innihald skjala eða annarra gagna er hann fær aðgang að starfsins vegna og trúnaður skal ríkja um.

4. Valdmörk

Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum ogvirða verkaskiptingu í stjórnkerfi Seltjarnarneskaupstaðar. Þeir sýna störfum og
réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins virðingu. 

Kjörinn fulltrúi skal ekki beita valdheimildum sínum til að veita sjálfum sér persónulegan ávinning, á beinan eða óbeinan hátt, eða veita einstaklingi eða
öðrum ávinning í því skyni að geta notið á beinan eða óbeinan hátt persónulegra hagsbóta af því. 

Kjörnum fulltrúa ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn, sem tryggja réttmæta meðferð á almannafé, eins og skilgreint er í
landslögum. Kjörinn fulltrúi skal ekki gera neitt sem getur falið í sér misnotkun á almannafé og/eða styrkjum. Hann skal ekki gera neitt sem gæti leitt til þess að almannafé og/eða styrkir séu notaðir í eigin þágu, beint eða óbeint.

5. Hagsmunaárekstrar.

Kjörinn fulltrúi skal forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekja athygli á ef hætta er á slíkum árekstrum. Á þetta einnig við ef þær breytingar verða á
högum kjörins fulltrúa að valdið gætu slíkum hagsmunaárekstrum. Um mat á hæfi kjörins fulltrúa fer eftir hæfisreglum sveitarstjórnarlaga, stjórnsýslulaga, gildandi erindisbréfa og bæjarmálasamþykkt Seltjarnarneskaupstaðar. Fjárhags- og stjórnsýslusvið heldur skrá, og birtir opinberlega, um fjárhagslega
hagsmuni bæjarfulltrúa, svo og um trúnaðarstörf þeirra utan bæjarstjórnar í samræmi við reglur þar um (sjá meðfylgjandi reglur).

6. Gjafir og fríðindi

Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim er leita eftir þjónustu eða fyrirgreiðslu
Seltjarnarneskaupstaðar nema að um sé að ræða óverulegar gjafir.

Bæjarfulltrúar skulu tilkynna til fjárhags- og stjórnsýslusviðs um allar gjafir sem þeir þiggja vegna stöðu eða starfa sinna í samræmi við reglur sem bæjarstjórn setur. Í störfum sínum skal kjörinn fulltrúi forðast alla hegðun sem gæti talist fela í sér að veita eða þiggja óeðlilega fyrirgreiðslu eða mútur.

7. Stöðuveitingar

Kjörinn fulltrúi skal í starfi sínu ekki gera neitt sem veitir honum sjálfum starfslegan ávinning í framtíðinni eftir að hann hefur látið af störfum sem kjörinn
fulltrúi. Kjörnum fulltrúa ber að gæta þess að einstaklingum sé ekki veitt staða af öðrum ástæðum en viðurkenningu á hæfileikum og faglegri hæfni eða af öðrum ástæðum en þörfum stofnunarinnar.

8. Upplýsingagjöf

Kjörinn fulltrúi skal svara af kostgæfni öllum fyrirspurnum almennings um framkvæmd starfa hans, rökstuðning fyrir aðgerðum, eða starfsemi þjónustu og
sviða sem fulltrúinn ber ábyrgð á. Kjörinn fulltrúi skal rökstyðja allar ákvarðanir sínar nákvæmlega og tilgreina alla þætti sem ákvörðunin byggist á sérstaklega með vísun til viðkomandi laga og reglna og sýna hvernig ákvörðunin samræmist þeim.

Kjörinn fulltrúi skal bregðast við beiðnum fjölmiðla um upplýsingar varðandi framkvæmd starfa hans af kostgæfni, heiðarleika og til fullnustu en hann á ekki að veita neinar trúnaðarupplýsingar eða upplýsingar sem varða einkalíf annarra kjörinna fulltrúa eða þriðja aðila. 

9. Kosningar

Kosningabarátta skal vera háð með því markmiði að veita upplýsingar og skýringar á pólitískum stefnumálum sem frambjóðandi hyggst vinna að.
Frambjóðandi skal ekki reyna að tryggja sér atkvæði með öðrum hætti en rökföstum sannfæringarkrafti og umræðum. Frambjóðandi skal halda útgjöldum sínum til kosningarbaráttu innan hóflegra og skynsamlegra marka. Frambjóðanda ber að fylgja af kostgæfni öllum ákvæðum í lögum og gildandi reglum sem krefjast þess að uppruni fjárhæða framlaga til kosningarbaráttu ásamt eðli og fjárhæðum útgjalda séu gerð opinber.

10. Miðlun

Kjörnum fulltrúa ber að lesa og skilja öll ákvæði þessara siðareglna og þeirra laga og reglna sem vísað er til. Kjörnum fulltrúa ber að tileinka sér þessar siðareglur og lýsa því yfir að hann sé reiðubúinn til að hafa þær að leiðarljósi og staðfesti þann vilja með undirskrift sinni í upphafi hvers kjörtímabils. Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki bæjarins, almenningi og fjölmiðlum á heimasíðu bæjarins og annan þann hátt sem bæjarstjórn ákveður til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.

11. Gildistaka og endurskoðun

Reglurnar taka gildi frá og með 15. júní 2010 og skulu endurskoðaðar a.m.k. einu
sinni á kjörtímabili.

Samþykkt á 422. fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar þann 12. maí 2010

Síðast uppfært 29. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?