Fara í efni

Urtagarður

Í Urtagarðinum í Nesi er að finna safn urta sem ýmist hafa gegnt hlutverki í lækningum eða verið nýttar til næringar og heilsubótar.  Garðurinn er vettvangur fræðslu um nýtingu urta til lækninga, næringar og heilsubóta jafnt fyrr á tímum sem og í dag.

Plönturnar í garðinum voru nýttar til lækninga á tímabilinu 1760-1834. Hluti plantnanna tilheyrir íslenskri flóru og hefur lækningamáttur þeirra lengi verið landsmönnum kunnur. Aðrar eru innfluttar en hafa verið ræktaðar í landinu um lengri eða skemmri tíma. Urtagarðurinn í Nesi var opnaður árið 2010 í minningu þriggja manna sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. Bjarni Pálsson (1719–1779) fyrsti landlæknir Íslendinga, Björn Jónsson (1738–1798) fyrsti lyfsali landsins og Hans Georg Schierbeck (1847–1911) landlæknir og fyrsti formaður Garðyrkjufélags Íslands. Bjarni og Björn sátu í Nesi þar sem garðurinn er staðsettur á safnasvæði Seltirninga við Nesstofu.

Urtagarðurinn er samvinnuverkefni Seltjarnarnesbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, Landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Lyfafræðisafnsins og Lækningaminjasafns Íslands . Garðurinn er rekinn sem hluti af starfsemi safnanna í Nesi.

Í sérstökum Plöntuvísi er að finna stutt ágrip af sögu ræktunar í Nesi og þeim forsendum sem Urtagarður byggir á. Einnig er að finna yfirlit yfir allar plöntur garðsins og stutt lýsing á lækningarmætti plantnanna og nytsamir listar yfir plönturnar á latínu og íslensku. Plöntuvísir eru seldur hjá Lyfjafræðafélagi Íslands í Lyfjafræðasafninu við Neströð á 1000 krónur en allur ágóði af sölunni nýttur til þess að efla rannsóknir og miðlun á sögu ræktunar og nýtingu lækningajurta.

Síðast uppfært 01. desember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?