Fara í efni

Vinnuskólinn

Vinnuskóli Seltjarnarnes býður 14 til 17 ára íbúum Seltjarnarness vinnu í sex vikur frá byrjun júní til júlíloka og nær vinnuvikan frá mánudegi til fimmtudags. Fjöldi vinnustunda miðast við aldur en vinnutíminn í Vinnuskólanum er frá 8:30 til 16:30 með klukkutíma hádegishléi.

Í Vinnuskólanum er unglingum kennt til verka og stíga þeir flestir þar sín fyrstu skref í atvinnulífinu. Helstu verkefni Vinnuskólans eru almennn garðyrkjustörf, þ.e. arfahreinsun, gróðursetning, götuhreinsun og almenn snyrting umhverfisins.  Auk þess er gott félagslíf í Vinnuskólanum og rík áhersla lögð á að þar séu allir góðir hver við annan og sýni hvor öðrum virðingu. Samstarf er á milli vinnuskólans og annarra starfsstöðva fyrir unglinga t.d. samstarf við sumar- og leikjanámskeið, íþróttaskóla Gróttu, við aðstoð á golfvelli Nesklúbbsins og einnig aðstoð við skátastarf í Vesturbænum og körfuboltanámskeið hjá KR.

Reglur vinnuskólans eru ekki margar en þess þá heldur ætlast til þess að farið sé eftir þeim. Aðal áherslan er lögð á stundvísi, að mæta klædd eftir veðri og vera helst ekki með símann nema nauðsynlegt sé, ganga vel um verkfærin og vera með hjálm ef mætt er á hjóli. Eins er öll notkun tóbaks og nikótíns, sama á hvaða formi það er, bönnuð. 

Viðburðir

Vinnuskóli Seltjarnarness stendur fyrir nokkrum skemmtidögum yfir sumarið þar sem markmiðið er að unglingarnir og flokkstjórarnir njóti dagsins saman. Unglingarnir fá þessa daga borgaða en flokkstjórar sitja í undirbúningsnefnd og sjá um skipulagningu dagnna á dagskrá hafa m.a. verið íþróttadagur og leikjadagur. 

Sjávarútvegsskólinn er nýtt námskeið sem var í boði í fyrsta sinn sumarið 2021. Námskeiðið er haldið á vegum Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri sem heldur utan um rekstur skólans og kennslu með styrk frá fyrirtækjum úr sjávarútveginum. Verkefnið felst í því að unglingar er hafa lokið 10. bekk fá fræðslu um sjávarútveg, starfsemi hans, menntunar og atvinnumöguleika. Unglingar fengu tækifæri á að sækja skólann í eina viku, frá mánudegi til fimmtudags, en halda jafnframt launum sínum meðan þau voru í skólanum. Samstarfið gekk vonum framar og var mikil aðsókn í námskeiðið frá Vinnuskóla Seltjarnarness.

Nánari upplýsingar um Vinnuskólann má nálgast hjá Þjónustuveri Seltjarnarnesbæjar í sími: 5959 100. 

Síðast uppfært 01. desember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?