Fara í efni

Starfsmannastefna Seltjarnarnesbæjar

Starfsmannastefnu þessari er ætlað að veita skýra umgjörð um þau starfsskilyrði sem Seltjarnar­nesbær býður starfsmönnum sínum og þær skyldur sem starfsfólki er ætlað að uppfylla svo að veita megi íbúum Seltjarnarnesbæjar bestu mögulegu þjónustu.

Stefnan er endurskoðuð eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.

Starfsmannastefna Seltjarnarnesbæjar er unnin út frá gildum Seltjarnarnesbæjar sem eru:

FRAMSÝNI | TRAUST | VIRÐING | JÁKVÆÐNI

Hlutverk og ábyrgð Seltjarnarnesbæjar er:

- að Seltjarnarnesbær sé eftirsóttur og aðlaðandi vinnustaður,
- að þar starfi hæft, áhugasamt og traust starfsfólk,
- að þar sé gott starfsumhverfi þar sem heilsuefling, starfsandi, aðbúnaður og öryggi er til fyrirmyndar,
- að gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki meðal starfsfólks og á milli þess og kjörinna fulltrúa,
- að tryggja góð samskipti milli starfsmanna og bæjarbúa,
- að rækta þekkingu og færni starfsfólks og stuðla að fræðslu til handa bæjarbúum,
- að starfsfólk sé vel upplýst um verkefni sín og skyldur, svo og um stjórnkerfi Seltjarnarnesbæjar,
- að starfsemi stofnana sveitarfélagsins sé skilvirk og hagkvæm,
- að gildi Seltjarnarnesbæjar séu ávallt höfð að leiðarljósi.

Hlutverk og ábyrgð starfsfólks Seltjarnarnesbæjar er:

- að sýna jákvætt og hlýtt viðmót og veita góða þjónustu,
- að sýna samstarfsfólki, íbúum og viðskiptavinum virðingu og trúnað og koma fram af heiðarleika og ábyrgð,
- að sinna störfum sínum af alúð og samviskusemi,
- að sýna sveigjanleika og vera tilbúið að taka þátt í breytingum,
- að vera áhugasamt og virkt í störfum sínum og hafa innsýn inn í starfsemi vinnu­staðarins,
- að bera virðingu hvert fyrir öðru og virða mörk hvers og eins,
- að gæta þagmælsku og trúnaðar um þau atriði sem það verður áskynja í starfi sínu, hvort sem snýr að samstarfsfólki eða íbúum bæjarins. Trúnaðarskylda helst þrátt fyrir að látið sé af störfum, að fylgja lögum, reglugerðum, samþykktum, stefnu og reglum Seltjarnarnesbæjar hverju sinni.

1. Góður aðbúnaður og vellíðan í starfi.

a) Vellíðan á vinnustað

Stuðlað skal að því að jákvætt viðmót og gagnkvæm virðing ríki milli allra þeirra sem starfsmannastefnan nær til. Það sama gildir um samskipti starfsmanna og kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn, bæjarráði og nefndum.

Seltjarnarnesbær skal leitast við að hafa vinnusvæði starfsmanna aðlaðandi og að þau séu búin þeim tækjum og tólum sem starfið krefst.

b) Heilsusamlegur vinnustaður

Seltjarnarnesbær hvetur starfsfólk sitt til að stunda reglulega hreyfingu og huga að andlegri og líkamlegri heilsu sinni. Í því skyni eru hvatar veittir miðað við samþykktir hverju sinni, t.d. líkamsræktarstyrkir, samgöngusamningar og kort í sundlaug Seltjarnar­nes­­bæjar.

Tryggt skal að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum starfsmanna sveitarfélagsins séu í sem bestu horfi, samkvæmt gildu áhættu- og öryggismati hverju sinni. Á öllum starfsstöðvum skal unnið eftir öryggisáætlun sem gerð sé skv. lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

c) Fjölskylduvænn vinnustaður

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að vinnustaðurinn sé fjölskylduvænn, að starfsfólk geti að öllu jöfnu sinnt daglegum störfum sínum á dagvinnutíma og að gætt sé samræmis milli starfs- og fjölskylduábyrgðar. Leitast er við að gera starfsfólki kleift, eftir því sem verkefni og aðstæður leyfa, að minnka starfshlutfall og/eða vinna á sveigjanlegum vinnutíma, tímabundið, vegna fjölskylduábyrgðar, t.d. vegna umönnunar barna eða veikinda í fjölskyldu starfsmanns.

d) Vímuefnalaus vinnustaður

Vinnustaðir sveitarfélagsins skulu vera áfengis- og vímuefnalausir.

e) Jafnrétti og jafnræði 

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að vinna í anda fjölmenningar og jafnréttis þar sem reynsla og þekking alls starfsfólks fær notið sín óháð stöðu á vinnustað. Unnið er í samræmi við markmið jafnréttisáætlunar Seltjarnarnesbæjar.

2. Stjórnunarhættir og stjórnkerfi

a) Valddreifing og stjórnunarhættir sem ýta undir frumkvæði og sjálfstæði

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að dreifa valdi, ábyrgð og ákvarðanatöku í stjórn­kerfinu, þannig að sjálfstæði og frumkvæði starfsmanna fái sem mest notið sín. Stjórnendur skulu hvetja til fræðslu, samtals og þróunar og stuðla þannig að því að starfsfólk fái hlutdeild í ákvarðanatöku um það sem varðar starf þess og þróun vinnustaðarins.

b) Skyldur stjórnenda

Stjórnendum og sviðsstjórum er ætlað að skapa samkennd meðal starfsmanna sinna og veita þeim leiðsögn um starfsemina, hvetja þá og stuðla að jákvæðu viðhorfi til annarrar starfsemi bæjarins og eflingu liðsheildar.

c) Ábendingar og umkvartanir

Bæjarstjórn og stjórnendur Seltjarnarnesbæjar hvetja starfsfólk til þess að koma á framfæri ábendingum, sjónarmiðum, kvörtunum eða hugmyndum sem viðkomandi starfsmaður telur skipta máli fyrir hann sjálfan í starfi, vinnustaðinn eða fyrir bæjar­félagið. Mælst er til þess að starfsfólk beri erindi sitt upp við næsta stjórnanda eða þann sem það helst telur geta leyst úr erindinu. Ef starfsmaður telur sig ekki geta komið ábendingum eða umkvörtunum til næsta yfirmanns síns skal hann koma þeim til sviðs­stjóra, mann­auðsstjóra og/eða starfsmannastjóra eða öryggistrúnaðarmanns vinnu­staðarins.

d) Stjórnendamat

Vinnustaðagreining er unnin árlega þar sem greindir eru stjórnunarhættir og líðan starfs­fólks bæjarfélagsins í heild og á hverjum vinnustað fyrir sig. Sviðsstjórar og stjórn­endur skulu fylgja því eftir að gerðar séu áætlanir um viðbrögð við niðurstöðum.

e) Starfsmannafundir og starfsmannasamtöl

Allar stofnanir Seltjarnarnesbæjar skulu halda reglulega fundi og miðað er við að þeir séu haldnir a.m.k. mánaðarlega. Þar sé upplýsingum um Seltjarnarnesbæ og viðkom­andi vinnustað miðlað og hugmyndir starfsmanna ræddar. Formleg starfsmanna­samtöl yfirmanna og starfsmanna skulu fara að lágmarki fram einu sinni á ári.

3. Samskipti, persónuvernd og upplýsingamiðlun

a) Markviss og góð upplýsingamiðlun

Lögð er áhersla á þátttöku starfsmanna, frumkvæði þeirra og nýsköpun í stefnumótun.

Forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á því að upplýsingamiðlun til starfsmanna þeirra sé virk. Allir er búa yfir upplýsingum sem nauðsynlegar eru öðrum bera ábyrgð á að þær berist réttum aðilum.

b) Persónuvernd og upplýsingaöryggi

Seltjarnarnesbær leggur áherslu á öryggisvitund starfsmanna sinna, s.s. með fræðslu og leiðbeiningum. Starfsmenn skulu í starfsemi og starfsháttum sínum í hvívetna gæta að upplýsingaöryggi og sjónarmiðum um persónuvernd skv. gildandi persónuverndar­lögum og upplýsingalögum hverju sinni.

4. Starfsþróun

a) Símenntun

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að efla stöðugt þekkingu og færni starfsfólks svo að það geti við dagleg störf sín mætt þeim kröfum sem gerðar eru hverju sinni til þjónustu sveitarfélagsins. Sviðsstjórar bera ábyrgð á símenntun fyrir hverja starfsstöð sveitar­félagsins í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk.

b) Sjálfsefling og framþróun

Starfsfólk er hvatt til að fylgjast með nýjungum á starfssviði sínu og nýta sér þær við þjónustu í þágu íbúa sveitarfélagsins og þeirra fyrirtækja og stofnana sem sveitar­félagið hefur samskipti við. Starfsfólki skal gert kleift að sýna frumkvæði í starfi og vinna að framþróun og nýbreytni.

c) Stuðningur til náms

Starfsmenn Seltjarnarnesbæjar geta sótt um námsstyrki hver hjá sínu stéttarfélagi. Upplýsingar um starfsmenntasjóði einstakra stéttarfélaga er að finna á heimasíðum viðkomandi félaga.

Til að stuðla enn frekar að starfsþróun og aukinni menntun meðal starfsmanna Seltjarnarnesbæjar er þeim gefinn kostur á að sækja um stuðning til náms samkvæmt gildandi reglum hverju sinni, t.d. Reglum um styrki/afslátt á vinnuskyldu til starfsmanna Seltjarnarnesbæjar. Við ákvörðun um stuðning til náms skal miða við þarfir og möguleika starfsmanns til starfs­þróunar, sem og þarfir bæjarfélagsins hverju sinni, en ákvörðun fer að öðru leyti eftir framangreindum reglum.

5. Umhverfisvænn vinnustaður

a) Vistvæn innkaup

Seltjarnarnesbær leggur áherslu á vistvæn innkaup og skulu innkaup á vegum sveitarfélagsins taka mið af sjónarmiðum um vistvæn innkaup, sem og Innkaupareglum Seltjarnarnesbæjar. Velja skal vöru eða þjónustu sem er sem minnst skaðleg umhverfinu og/eða heilsu manna. Enn fremur ber að velja vöru eða þjónustu sem hefur sama eða lægri líftíma­kostnað en viðmiðunarvaran/-þjónustan, þ.e. horfa skal heildrænt á innkaupa­­verð, kostnað við rekstur, viðhald og förgun.

b) Vistvænn ferðamáti

Starfsfólk er hvatt til að velja umhverfisvænan ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu og í starfstengdum erindum. Í því skyni er m.a. boðið upp á samgöngusamninga.

c) Umhverfisvæn notkun og endurvinnsla

Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar skal leitast við að velja umhverfisvænar lausnir við störf sín, s.s. takmarka notkun spilliefna, pappírs og rafmagns eins og kostur er og auka hlut endurnýtingar og endurvinnslu.

6. Ráðningar og launakjör

a) Ráðningar

Laus störf skal auglýsa samkvæmt gildandi reglum og ákvæðum kjarasamninga um auglýsingar starfa hverju sinni. Lögð er áhersla á skýrt og greinargott ráðningarferli. Öllum umsóknum um auglýst störf er svarað skriflega þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Við ráðningar í laus störf skal það ávallt haft að leiðarljósi að viðkomandi uppfylli sem best þær kröfur sem gerðar eru til starfsins á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar, hæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.

Seltjarnarnesbær leggur áherslu á að ráða hæfasta umsækjandann hverju sinni í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Í auglýsingum um störf hjá Seltjarnarnesbæ skal hvetja til þess að konur jafnt sem karlar sæki um lausa starfið.

Um ráðningar hjá Seltjarnarnesbæ fer að öðru leyti samkvæmt gildandi samþykkt og reglum sveitarfélagsins hverju sinni. Vinna ber samkvæmt markmiðum jafnréttis­áætlunar Seltjarnarnesbæjar.

b) Launakjör

Ákvarðanir um starfskjör og launagreiðslur skulu vera gagnsæjar og málefnalegar og gæta skal jafnræðis. Launakjör starfsmanna Seltjarnarnesbæjar fara eftir gildandi kjara­samningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og þess stéttarfélags sem er samnings­aðili fyrir viðkomandi starf hverju sinni.

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að tryggja að konum og körlum sem starfa hjá sveitar­félaginu séu greidd jöfn laun og að þau njóti sömu kjara fyrir sömu störf eða jafnverð­mæt störf í samræmi við jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar.

Launakjör bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa, bæjarstjóra og æðstu stjórnenda skulu ákveðin af bæjarstjórn.

Seltjarnarnesbær hefur samráð við samstarfsnefndir sem getið er um í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og viðkomandi stéttarfélags, sem og starfsmats­nefndir hverju sinni um kjaramál og fleira sem fellur undir umboð nefndanna.

c) Jafnræði

Við ákvörðun um ráðningu, stöðuhækkanir eða kaup og kjör skal starfsfólki ekki mismunað á grundvelli sjónarmiða sem byggð eru á kynferði, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambæri­legum ástæðum.
Starfslýsingar

Gera ber starfslýsingu fyrir öll störf sem ráðið er í ótíma­bundið hjá Seltjarnarnesbæ. Endurskoða ber starfslýsingar reglulega. Stjórnendur og sviðsstjórar bera ábyrgð á gerð starfslýsinga í samráði við mannauðsstjóra. Í starfslýsingum er megin­verkefnum starfs­manns lýst.

7. Starfsferill

a) Samfelldur starfsferill

Seltjarnarnesbær leitast við að skapa starfsfólki sínu möguleika á samfelldum starfsferli þar sem tekið er tillit til aldurs, breytinga á persónulegum högum, skertrar starfsgetu, aukinnar menntunar eða annars sem getur kallað fram þörf á að flytjast til í starfi.

b) Tilfærslur milli starfa

Seltjarnarnesbær leitast við að koma til móts við óskir starfsmanna um tilfærslu milli starfa. Starfsmaður getur óskað eftir tilfærslu við næsta yfirmann eða sviðsstjóra. Ef nauðsyn krefur hefur Seltjarnarnesbær einnig rétt á að færa starfsmenn milli starfa, t.d. vegna breyttra áherslna í starfsemi, hagræðingar í rekstri eða breytinga á stjórnkerfi, í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga hverju sinni.

c) Aukastörf

Starfsmenn skulu tilkynna næsta yfirmanni um aukastörf þau sem þeir hafa með höndum við ráðningu eða taka að sér eftir að til ráðningar kemur.

8. Fjarvistir

a) Reglur um fjarvistir

Fylgst er með fjarveru starfsmanna mánaðarlega, skv. samþykktum Reglum Seltjarnar­nesbæjar um fjarvistir og starfsendurhæfingu vegna veikinda eða slysa. Stjórnendum og sviðsstjórum ber að fylgja eftir reglum um fjarvistir starfsmanna sinna með því að taka reglulega saman upplýsingar um heildarfjarveru á vinnustað og kynna starfsfólki sínu.

b) Umhyggja og aðhald

Stjórnendur og sviðsstjórar skulu stuðla að því að starfsfólki sé sýnd umhyggja og aðhald í tengslum við fjarveru, sem og að farsælli endurkomu til vinnu eftir langtíma­veikindi. Leitast skal við að draga úr álagi sem forföll starfsmanna valda samstarfs­mönnum.

9. Starfslok

a) Uppsagnir

Ef starfsmanni er sagt upp störfum á hann rétt á skriflegum rökstuðningi fyrir ástæðum uppsagnarinnar.

b) Starfslok vegna aldurs

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að aðstoða starfsmenn sem nálgast starfslok vegna aldurs, s.s. með því að gefa þeim kost á að færa sig til í minna krefjandi störf og/eða minnka við sig starfshlutfall þar til að starfslokum kemur. Þá er jafnframt leitast við að aðstoða starfsmenn við að afla sér fræðslu um starfslok, s.s. rétt til lífeyristöku o.fl.

10. Starfsumhverfi og stefna um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi

a) Starfsumhverfi

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að bjóða starfsmönnum sínum starfsaðstæður með góðum starfsanda þar sem samskipti og vinna fer fram í samræmi við gildi bæjarins, þ.e. virðingu, framsýni, traust og jákvæðni.

Seltjarnarnesbær skal vinna í samræmi við áhættumat og samþykkta áætlun sveitar­félagsins um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum þar sem leitast er við að draga úr áhættu á því að aðstæður skapist sem valdið geta starfsmönnum vanlíðan eða leitt til eineltis, áreitis eða ofbeldis.

b) Einelti, áreiti og ofbeldi

Seltjarnarnesbær líður ekki einelti, áreiti eða ofbeldi starfsmanna í starfi eða á vinnustöðum sveitarfélagsins. Seltjarnarnesbær hefur sett sér stefnu og leiðbeiningar í málum er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnu­stöðum sveitarfélagsins í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Stjórnendum og starfsmönnum ber í hvívetna að fylgja umræddri stefnu.

Hvers konar hegðun sem er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður og flokkast undir ofbeldi, kynferðislega áreitni eða kynbundna áreitni eða annars konar áreitni er ekki látin viðgangast og er óheimil á vinnustöðvum Seltjarnarnesbæjar. Unnið er markvisst að forvörnum og skal tekið á þeim málum sem kunna að koma upp eftir áætlun og samþykktum verkferlum hverju sinni.

Starfsmannastefna Seltjarnarnesbæjar var samþykkt í bæjarstjórn 22.8.2018

Síðast uppfært 19. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?