Fara í efni

Samþykkt um kattahald á Seltjarnarnesi

Samþykkt um kattahald á Seltjarnarnesi nr. 184/2011 og Samþykkt um breytingu á samþykkt nr. 184/2011 um kattahald á Seltjarnarnesi nr. 484/2011.

SAMÞYKKT 

um kattahald á Seltjarnarnesi.

1. gr.

Gildissvið.

Kattahald er takmarkað á Seltjarnarnesi með skilyrðum samkvæmt samþykkt þessari. Samkvæmt lögum um dýravernd nr. 15/1994 fer Umhverfisstofnun með eftirlit með framkvæmd þeirra laga.

2. gr.

Framkvæmd.

Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Seltjarnarnesbær annast framkvæmd samþykktar þessarar og getur ráðið sérstakan dýraeftirlitsmann eða falið starfsmönnum sveitarfélagsins hlutverk dýraeftirlitsmanns. Dýraeftirlitsmaður starfar í umboði heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis sem fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Bæjarstjórn setur sér verklagsreglur um framkvæmd kattahalds á Seltjarnarnesi.

3. gr.

Skráning.

Alla ketti á Seltjarnarnesi ber að skrá og skal skráning vera bundin við nafn og heimilisfang lögráða einstaklings. Hægt er að skrá kött á skrifstofu Seltjarnarnesbæjar eða í gegnum mínar síður. Við skráningu skal framvísa vottorði frá dýralækni um örmerkingu. Ef skrá á kött sem halda á í fjölbýlishúsi skal fylgja umsókninni skriflegt samþykki allra eigenda íbúða í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Óheimilt er að láta kött dvelja lengur á heimili en tvo mánuði án þess að hann sé skráður.

4. gr.

Merkingar.

Kettir skulu vera örmerktir skv. reglugerð um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, nr. 1077/2004, og ávallt bera ól um hálsinn. Á ólinni skal vera plata sem skráningarnúmer og símanúmer eigenda er grafið á.

5. gr.

Skyldur.

Eigendum og umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma. Einnig er þeim skylt að gæta þess að kettir valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna.

Tilkynna skal til skrifstofu Seltjarnarnesbæjar um brottflutning eða dauða kattar.

6. gr.

Gjaldtaka.

Seltjarnarnesbæ er heimilt að setja sérstaka gjaldskrá til að standa straum af kostnaði við eftirlit með kattahaldi að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Greiðist gjald þetta einu sinni við skráningu kattarins. Eiganda kattar ber að greiða það tjón sem köttur hans veldur, svo og allan þann kostnað við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf.

7. gr.

Ábyrgðartryggingar.

Eigendum katta er skylt að hafa ketti sína ábyrgðartryggða hjá viðurkenndu vátryggingafyrirtæki. Ábyrgðartrygging skal ná til alls þess tjóns, sem köttur kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum. Vátryggingaupphæðin skal vera samkvæmt almennum skilmálum vátryggingafyrirtækja.

8. gr.

Handsömun.

Seltjarnarnesbær skal gera ráðstafanir til útrýmingar villi- eða flækingsköttum. Í því skyni er heimilt að koma fyrir búrum, agni eða sambærilegum tækjum til að fanga ketti. Köttur sem fangaður er þannig skal geymdur í 7 daga. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan þess tíma skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaður. Ef eigandi gefur sig fram skal hann greiða leyfisgjald og áfallinn kostnað. Heimilt er að afturkalla skráningu og þar með heimild fyrir tilteknum ketti vegna ítrekaðra alvarlegra brota eiganda á samþykkt þessari.

9. gr.

Viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ítrekuð eða alvarleg brot á samþykkt þessari geta leitt til þess að eiganda er bannað að halda kött á Seltjarnarnesi um lengri eða skemmri tíma. Eigendum og umráðamönnum katta er skylt að greiða allan þann kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.

10. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast gildi 1. júní 2011. Frá sama tíma fellur úr gildi eldri samþykkt nr. 565/1996 um kattahald á Seltjarnarnesi.

Síðast uppfært 16. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?