Fara í efni

Samþykkt um hundahald í Seltjarnarneskaupstað

SAMÞYKKT um hundahald í Seltjarnarneskaupstað nr. 579/2008 og breyting á samþykkt nr. 227/2013.

1. gr.

Almennt ákvæði.

Hundahald á Seltjarnarnesi sætir þeim takmörkunum sem kveðið er á um í samþykkt þessari.

2. gr.

Skráningarskylda.

Skylt er að skrá hund á bæjarskrifstofu Seltjarnarneskaupstaðar á þar til gerðum eyðublöðum, eigi síðar en mánuði eftir að hann er tekinn á heimili og hvolpa eigi síðar en þeir verða sex mánaða gamlir. Mynd af hundinum og vottorð dýralæknis um að hundur hafi verið ormahreinsaður og örmerktur, skulu fylgja umsókn um skráningu. Bæjarstjórn er heimilt að ákveða að hundar skuli örmerktir skv. reglugerð um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni nr. 1077/2004.

Hund skal skrá á nafn og heimilisfang lögráða einstaklings.

Dveljist hundur tímabundið á Seltjarnarnesi skal skrá hann til bráðabirgða, en slík skráning skal ekki gilda lengur en í 6 mánuði.

Skráning er háð því að hundur raski eigi ró íbúa bæjarins og sé hvorki þeim né öðrum sem um bæinn fara til óþæginda með tilliti til hávaða, óþrifnaðar, eyðileggingar verðmæta eða slysahættu. Við skráningu hunda getur heilbrigðiseftirlitið leitað umsagnar lögreglu telji hún ástæðu til.

Hundaeiganda ber að tilkynna skrifstofu bæjarins um aðsetursskipti og ef hundurinn drepst. Við aðseturskipti skal afla samþykkis nágranna, sbr. ákvæðum 5. gr. þessarar samþykktar. Við eigendaskipti skal skrá hund á nafn nýs eiganda.

Við skráningu fær eigandi afhent þar til gert merki með skráningarnúmeri sem jafnanskal vera á hálsól hundsins.

3. gr.

Gjald fyrir hundahald.

Hundaeigendur skulu árlega greiða bæjarsjóði gjald til að standa straum af skráningu og eftirliti með hundahaldi. Sá sem á fleiri en einn hund skal greiða gjald af hverjum hundi fyrir sig. Bæjarstjórn ákveður, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, upphæð gjaldsins, og nánara fyrirkomulag gjaldtöku, í sérstakri gjaldskrá í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ábyrgðartrygging skal vera innifalin í árlegu gjaldi. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Bæjarstjórn lætur birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

4. gr.

Almennt um skyldur hundaeigenda.

Hundaeiganda ber að sjá til þess að hundur hans sæti ekki illri meðferð.

Hundur skal að jafnaði hýstur á þeim stað þar sem hann er skráður. Óheimilt er að halda hund þar sem enginn býr.

Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Á almannafæri er hundaeiganda skylt að fjarlægja saur eftir hund/hunda sína á tryggilegan hátt.

Hundar skulu færðir til hreinsunar í október - desember ár hvert. Framvísa skal vottorði um hreinsun við hundaeftirlitsmann fyrir 1. desember ár hvert.

Eigi er leyfilegt að fara með hunda inn á skólalóðir og inn í skóla, samkomuhús, sundstaði, barnaleikvelli, matvöruverslanir eða aðra opinbera staði þar sem matvæli eru höfð um hönd. Um aðrar takmarkanir á aðgengi hunda gilda ákvæði hollustuháttareglugerðar og reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matmæla.

5. gr.

Hundahald í fjöleignarhúsum.

Um hundahald í fjöleignarhúsi gilda ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, með síðari breytingum..

6. gr.

Eftirlit með hundahaldi.

Eftirlitsmaður með dýrum á Seltjarnarnesi annast eftirlit með hundahaldi á Seltjarnarnesi undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Hann skal halda dagbók um vinnu sína og gefa bæjarstjórn og heilbrigðisnefnd árlega skýrslu um hundahald á Seltjarnarnesi og starf sitt, vegna þess. Dýraeftirlitsmaður getur leitað aðstoðar lögreglu þegar þörf krefur.

7. gr.

Heimild til að handsama og aflífa hunda.

Hunda, sem ganga lausir á almannafæri, er dýraeftirlitsmanni heimilt að handsama og færa í sérstaka hundageymslu sem hefur starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Sama gildir um óleyfilega hunda og hættulega hunda.

Sé skráður hundur handsamaður skal tilkynna eiganda strax um handsömun hans og hvað vanræksla á að vitja um hundinn getur haft í för með sér. Hafi óskráður hundur verið handsamaður er óheimilt að afhenda hann fyrr en að skráningu lokinni og þegar gjald fyrir handsamaðan hund hefur verið greitt. Sé hunds eigi vitjað innan einnar viku skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða hann aflífaður.

Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Hafi hundur bitið mann, og/eða er hættulegur, getur dýraeftirlitsmaður í samráði við heilbrigðisfulltrúa tekið ákvörðun um að hundur verði aflífaður þegar í stað. Óski hundeigandi þess er heimilt að leita álits héraðsdýralæknis, áður en ákvörðun um aflífun er tekin. Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur sé grimmur eða varasamur skal eigandi sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns svo ganga megi óhindrað að útidyrum viðkomandi húss.

Kostnaður við handsömun, geymslu og aflífun hunda skal að fullu greiddur af eigendum samkvæmt gildandi gjaldskrá þar að lútandi, sbr. 3. gr.

8. gr.

Heimild til að afturkalla leyfi til hundahalds.

Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða, getur dýraeftirlitsmaður í samráði við heilbrigðisfulltrúa, afturkallað skráningu fyrir einstökum hundum og bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á Seltjarnarnesi um lengri eða skemmri tíma.

9. gr.

Takmörkun á hundahaldi.

Bæjarstjórn getur, að fengnum tillögum heilbrigðisnefndar, ákveðið að veita ekki heimild til hundahalds fyrir ákveðnum hundategundum sem taldar eru hættulegar.

Bæjarstjórn getur ákveðið að merkja ákveðin svæði þar sem ekki má vera með hunda. Einnig getur bæjarstjórn ákveðið að láta afmarka ákveðin svæði þar sem má sleppa hundum lausum. Svæði þessi skulu auglýst og kynnt sérstaklega fyrir hundaeigendum.

Um aðrar takmarkanir á aðgengi hunda gilda ákvæði hollustuháttareglugerðar og reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

Bæjarstjórn bannar með öllu eftirtaldar tegundir hunda á Seltjarnarnesi. Pit Bull Terrier, Fila Brasileiro, Tosu Inu, Dogo Argentino, blendinga af fyrrtöldum tegundum, blendinga af úlfum og hundum, og aðrar þær tegundir sem hættulegar eða óæskilegar teljast af fenginni reynslu eða mati sérfróðra aðila.

10. gr.

Málskot.

Ákvörðunum samkvæmt samþykkt þessari er heimilt að skjóta til heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Að öðru leyti fer um málskot samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

11. gr.

Viðurlög.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildarlaga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

12. gr.

Gildistaka.

Framangreind samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarneskaupstaðar staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 531/1999 um hundahald á Seltjarnarnesi.

 

Umhverfisráðuneytinu, 5. júní 2008.

 

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

579/2008 B-deild - Útgáfud.: 23. júní 2008

227/2013 B-deild - Útgáfud.: 12. mars 2013

Síðast uppfært 15. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?