Fara í efni

Reglur um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir

Skv. 25 gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018
er heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

  • Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
    Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

1. gr.

Markmið og forsendur

Markmið reglnanna er að auðvelda fötluðu fólki að verða sér út um þekkingu og reynslu og til að auka möguleika sína til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í þeim tilgangi eru veittir styrkir til þess að fatlað fólk geti:

  • Sótt sér menntun
  • Viðhaldið og aukið við þekkingu og færni
  • Nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu

2. gr.

Hverjir eiga kost á styrk.

Einstaklingur sem býr við fötlun og þarf sérstakan stuðning af þeirri ástæðu til hæfingar, endurhæfingar eða starfsendurhæfingar geti sótt um styrk samkvæmt reglum þessum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum.

  • Eiga lögheimili í sveitarfélaginu
  • Hafa náð 18 ára aldri
  • Hafa varanlega örorku

3. gr.

Skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá styrk.

Skilyrði fyrir styrkveitingu eru eftirfarandi:

  • Styrkur vegna starfsemi sem skapar viðkomandi atvinnu (verkfæra- og tækjakaup).
  • Að fyrir liggi staðfesting á skráningu í nám eða námskeið áður en styrkur er greiddur út.
  • Að líklegt sé að styrkur stuðli að aukinni virkni og þátttöku.
  • Að sýnt sé fram á að aðstoðin sé einstaklingsbundin en renni ekki til fyrirtækis.
  • Umsækjandi eða talsmaður hans lýsi því yfir að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og nýttir t.d. í sjóði stéttarfélaga, lögbundin framlög vegna hjálpartækja og lánshæft nám. Taka skal tillit til takmarkana á möguleikum umsækjanda til að stunda fullt lánshæft nám vegna fötlunar.

4. gr.

Umsóknarferli

Auglýst er eftir umsóknum um styrki að hausti á heimasíðu bæjarins og í staðarblöðum. Hægt er að sækja um í styrkinn í september og október. Umsóknarfrestur er til og með 31. október ár hvert. Sótt er um rafrænt á heimasíðu sveitarfélagsins.

5. gr.

Fylgigögn umsóknar

Umsóknum skal fylgja upplýsingar frá umsækjanda og/eða fagaðilum þar sem fram kemur mat á gagnsemi styrkveitingar fyrir umsækjanda. Önnur fylgigögn taka mið af tegund styrks sem sótt er um.

Styrkur vegna náms:

  • Námsvottorð. Staðfesting frá skóla um skráningu í nám.
  • Frumrit af kvittun fyrir námskeiðs- eða skólagjöldum.

Styrkur vegna verkfæra- og tækjakaupa:

  • Frumrit af kvittun fyrir verkfæra- og tækjakaupum.

6. gr.

Úthlutun styrkja

  • Tekið er tillit til eftirfarandi viðmiða við úthlutun styrkja:
  • Heildarfjárhæð til úthlutunar er ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs.
  • Úthlutað er einu sinni á ári á grundvelli auglýsinga
  • Styrkur til verkfæra- og tækjakaupa er að öllu jöfnu ekki veittur til sama einstaklings oftar en á tveggja ára fresti.
  • Veita má árlega styrki til náms ef sýnt er fram á gildi námsins fyrir viðkomandi einstakling og fyrir liggi staðfesting um góða námsástundun og áætluð námslok
  • Komið til að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna eða vegna röskunar á forsendum fyrir úthlutun er heimilt að forgangsraða umsóknum eða lækka styrkupphæð til hvers og eins.

8. gr.

Mat og afgreiðsla

Styrkur er einungis greiddur inn á persónulegan reikning umsækjanda samkvæmt framlagðri staðfestingu eða kvittun fyrir kaupum.

Réttur til úthlutunar fyrnist sé ekki sótt um styrk innan 12 mánaða frá því að til útgjalda var stofnað. Réttur til greiðslu fyrnist ef fylgigögnum og nauðsynlegum upplýsingum hefur ekki verið skilað fyrir lok umsóknarfrests.

9.gr.

Endurkröfur

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að endurkrefja styrkhafa um styrk sem veittur hefur verið á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi styrkþega eða ef styrkur er nýttur í annað en umsókn gerir ráð fyrir.

9. gr.

Áfrýjun

Sé umsókn hafnað skal ákvörðun rökstudd með skýrum hætti. Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun um afgreiðslu umsóknar innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Umsækjanda skal kynntur áfrýjunarréttur til úrskurðarnefndar velferðarráðuneytisins þegar niðurstaða sveitarfélagsins liggur fyrir. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun sveitarfélagsins.

10. gr.

Gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt skv. 25 gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Reglur þessar voru samþykktar í bæjarráði 19. ágúst 2021 og samþykktar af bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar þann 8. September 2021.

 

Seltjarnarnei, 9. September 2021

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.

Síðast uppfært 29. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?