Fara í efni

Veitur

Veitustofnun Seltjarnarness er þjónustufyrirtæki í eigu bæjarins.

Seltjarnarnes starfrækir vatnsveitu sem dreifir aðkeyptu vatni frá OR og er hún eitt stærsta matvælafyrirtæki Seltjarnarness. Hitaveita Seltjarnarness heyrir undir Veitustofnun Seltjarnarness. Fráveitan er í eigu Seltirninga sem sér um að safna og dæla skólpi til hreinsunar í Reykjavík og Hitaveita Seltjarnarness sér íbúum á Seltjarnarnesi fyrir heitu vatni.

Neyðarsími vegna bilana er:

Fráveitur

Fráveita bæjarins er í umsjá skipulags- og umhverfissviðs og Þjónustumiðstöð Seltjarnarness sér um daglegan rekstur og viðhald.

Einfalt fráveitukerfi er í eldri hverfum en tvöfalt fráveitukerfi er í Kolbeinsstaðamýri, Hrólfsskálavör og Steinavör, einnig verður lögð tvöföld fráveita í ný hverfi. Stofnlagnir regnvatns eru lagðar í útræsi til sjávar en skólpi veitt að hreinsistöð.

Byggðar hafa verið dælustöðvar og lögð sniðræsi meðfram ströndinni á norðan- og sunnanverðu Seltjarnarnesi. Hér er um framkvæmdir að ræða, sem unnið hefur verið að í áföngum undanfarin ár.

Í samvinnu við Reykjavíkurborg, Kópavog og Garðabæ var byggð hreinsi- og dælustöð við Ánanaust sem tekin var í notkun í ársbyrjun 1998. Skólpið er þar hreinsað og síðan dælt frá Mýrargötu út fyrir Akurey í sameiginlegri lögn Reykjavíkur, Seltjarnarness, Kópavogs og Garðabæjar.

Búið er að tengja fráveitukerfi norðanmegin af Seltjarnarnesi við stöðina. Eftir föngum er stefnt að því að tengja allt frárennsli Seltjarnarnesbæjar í sniðræsi og leiða það að dælustöðvum sem dæla því til hreinsistöðvar við Ánanaust.

Hitaveita

Hitaveita Seltjarnarness er í umsjá skipulags- og umhverfissviðs og Þjónustumiðstöð Seltjarnarness sér um daglegan rekstur og viðhald.

Hitaveita Seltjarnarness aflar nú heits vatns úr fjórum vinnsluholum innan bæjarmarkanna. Nýjasta borhola veitunnar SN-17 var tekin í notkun haustið 2022 og skilar um 30 L/s af rúmlega 100°C heitu vatni. Með tilkomu holunnar og samanlagðri afkastagetu SN-5, SN-6 og SN-12 hefur rekstraröryggi Hitaveitu Seltjarnarness verið tryggt næstu árin. Meðalnotkun Seltjarnarnesbæjar af heitu vatni er rúmlega 50 L/s, en mesta notkun getur farið upp í allt að 90 L/s.

Heita vatnið á Seltjarnarnesi er mun saltara en vatn annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Seltan veldur stáltæringu þó aðeins komist örlítið súrefni inn í það eins og gerist í öllum inntaksgrindum. Seltan hraðar öllum efnahvörfum og því er hætta á útfellingum sé vatnið kælt niður fyrir um 20 °C. Nauðsynlegt er að heita vatnið í varmaskiptum fyrir snjóbræðslu sé ekki kælt niður fyrir 20 °C til að koma í veg fyrir útfellingu.

Vatnið er ekki nýtanlegt beint inn á stálofna, eins og reyndar er raunin núorðið á nær öllu höfuðborgarsvæðinu. Vegna hárrar seltu var sett inn í byggingarreglugerð 1984 að við hitun húsa þurfi annaðhvort að nota pottofna eða lokað hringrásarkerfi með forhitara. Skylda er að nota varmaskipta fyrir kranavatnið vegna hás framrásarhita og hættu á bruna, en vatn í krönum má ekki vera heitara en 55°C.

Vatnsveita

Vatnsveita Seltjarnarness er í umsjá skipulags- og umhverfissviðs og Þjónustumiðstöð Seltjarnarness sér um daglegan rekstur og viðhald.

Seltjarnarnesbær kaupir kalt vatn samkvæmt samkomulagi frá 13.júlí 1995 í heildsölu af Veitum ohf. og dreifir því til notenda á Seltjarnarnesi. Veitur ohf. afla kalds vatns úr borholum í Heiðmörk og afhendir vatnið við bæjarmörk Seltjarnarness og Reykjavíkur.

Vatnsveita Seltjarnarness fullnægir vatnsþörf viðskiptavina sinna og tryggir nægjanlegt vatn til slökkvistarfa. Áhersla er lögð á gæði, magn og afhendingaröryggi vatnsins. Árið 2002 veitti Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis Vatnsveitunni viðurkenningu á innra eftirliti og gaf út starfsleyfi samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og einnig laga um matvæli og reglugerðar um neysluvatn.

Innheimta

Theódóra Þórarinsdóttir, innheimta
Bæjarskrifstofu, Austurströnd 2

Sími: 5959 120
Netfang: theodorath@seltjarnarnes.is

Mælistöður og notendaskipti

Notendaskipti eru tilkynnt í gegnum mínar síður undir umsóknum – „Umsókn um notendaskipti á hitaveitumælum“

Vinsamlegast skráið upplýsingar um mælisstöður á mínum síðum – Hitaveita – „Opna hitaveitan mín“. Þar er eining hægt að nálgasta alla reikninga frá hitaveitunni, skoða notkunarsögu o.fl.

Athugið að aðeins aðilar sem skráðir eru notendur hjá Hitaveitu Seltjarnarness hafa aðgang að því svæði.

Fyrirspurnir sendast á netfangið hitaveita@seltjarnarnes.is

Síðast uppfært 19. júní 2023
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?