Fara í efni

Reglur um styrki/afslátt á vinnuskyldu til starfsmanna Seltjarnarnesbæjar

Starfsmenn Seltjarnarnesbæjar geta sótt um námsstyrki hver hjá sínu stéttarfélagi. Upplýsingar um starfsmenntasjóði einstakra stéttarfélaga er að finna á heimasíðum viðkomandi félaga. Til að stuðla enn frekar að starfsþróun og hækkun menntunarstigs meðal starfsmanna Seltjarnarnesbæjar er þeim gefinn kostur á að sækja um styrki/afslátt á vinnuskyldu vegna náms. Við ákvörðun um úthlutun styrkja/afsláttar á vinnuskyldu skal miða við þarfir og möguleika starfsmanna til starfsþróunar sem og þarfir bæjarfélagsins hverju sinni.

a) Reglur um styrki til starfsmanna sem stunda fjarnám á háskólastigi samhliða starfi.

1. Umsækjandi skal vera í starfi hjá Seltjarnarnesbæ og hafa starfað a.m.k. í 2 ár hjá bæjarfélaginu. Umsókn um styrk/leyfi vegna náms sem hefst að hausti skal berast fyrir 1. maí ár hvert en fyrir 1. október vegna náms sem hefst um áramót. Umsögn yfirmanns stofnunar sem viðkomandi starfar hjá skal fylgja umsókninni. Umsóknum skal skilað til Bæjarráðs Seltjarnarnesbæjar á þar til gerðu eyðublaði. 

2. Umsækjandi skilar staðfestingu um skólavist með umsókninni eða strax og staðfesting liggur fyrir. Bæjarráð afgreiðir umsóknir fyrir 1. júní / 1. nóvember ár hvert.

3. Starfsmaður fær greidd dagvinnulaun miðað við starfshlutfall þann tíma sem hann sækir staðbundið nám í viðkomandi skólastofnun sem að jafnaði er a.m.k. ein vika á hverri önn. Sé starfs-/vettvangsnám stundað við starfsstöð sem Seltjarnarnesbær rekur fær starfsmaður greidd laun meðan á því stendur, en stundi starfsmaður það annars staðar eru laun ekki greidd þann tíma sem viðkomandi starfsmaður er í starfs-/vettvangsnámi.

4. Ekki er hægt að njóta þessara kjara lengur en sem nemur sex námsönnum enda sé námsframvinda og árangur með eðlilegum hætti. Upplýsingum um námsframvindu hverrar annar skal komið til forstöðumanns viðkomandi stofnunar. 

5. Starfsmaður skuldbindur sig til að starfa hjá Seltjarnarnesbæ í tvö ár eftir að námi lýkur í a.m.k. sama starfshlutfalli og hann var í meðan hann naut styrks. Hætti starfsmaður störfum hjá bænum innan áðurnefndra 2ja ára hefur Seltjarnarnesbær heimild til að krefjast endurgreiðslu á veittum styrk.

6. Verði verulegar breytingar á fyrirkomulagi fjarnáms skulu reglur þessar teknar til endurskoðunar

7. Frávik frá reglum þessum eru einungis heimil með samþykki bæjarráðs.

b) Reglur um styrki til starfsmanna sem stunda viðurkennt framhaldsnám á háskólastigi samhliða starfi.

1. Umsækjandi skal vera í starfi hjá Seltjarnarnesbæ og hafa starfað a.m.k. í 2 ár hjá bæjarfélaginu. Uppfylli hann menntunarkröfur til starfs síns en hyggst leggja stund á framhaldsnám á háskólastigi getur hann sótt um styrk til slíks náms. Umsókn um styrk/leyfi vegna náms sem hefst að hausti skal berast fyrir 1. maí ár hvert en fyrir 1. október vegna náms sem hefst um áramót. Umsögn yfirmanns stofnunar sem viðkomandi starfar hjá skal fylgja umsókninni. Umsóknum skal skilað til Bæjarráðs Seltjarnarnesbæjar á þar til gerðu eyðublaði.

2. Umsækjandi skilar staðfestingu um skólavist með umsókninni eða strax og staðfesting liggur fyrir. Bæjarráð afgreiðir umsóknir fyrir 1. júní / 1. nóvember ár hvert.

3. Styrkþegi fær fjögurra klukkustunda (fjórar kennslustundir hjá kennurum – án lækkunar á verkstjórnarþætti) afslátt frá vikulegri vinnuskyldu miðað við fullt starf, annars hlutfallslega. Ekki er gert ráð fyrir að styrkþegi vinni yfirvinnu á sama tíma og hann nýtur styrks frá Seltjarnarnesbæ. Ef slíkt er óhjákvæmilegt þarf að fjalla um það sérstaklega. Starfsmenn sem hafa sveigjanlegan vinnutíma og stunda framhaldsnám, hafa óskerta vinnuskyldu. Styrkþegi fær greidd dagvinnulaun miðað við starfshlutfall þann tíma sem hann sækir staðbundið nám í viðkomandi skólastofnun.

4. Ekki er hægt að njóta þessara kjara lengur en sem nemur sex námsönnum enda sé námsframvinda og árangur með eðlilegum hætti. Upplýsingum um námsframvindu hverrar annar skal komið til forstöðumanns viðkomandi stofnunar.

5. Styrkþegi skuldbindur sig til að starfa hjá Seltjarnarnesbæ í tvö ár eftir að námi lýkur í a.m.k. sama starfshlutfalli og hann var í meðan hann naut styrks. Hætti starfsmaður störfum hjá bænum innan áðurnefndra 2ja ára hefur Seltjarnarnesbær heimild til að krefjast endurgreiðslu á veittum styrk.

6. Frávik frá reglum þessum eru einungis heimil með samþykki bæjarráðs.

 

Samþykkt í bæjarráði,

11. desember 2014.

Með samþykkt þessari falla úr gildi allar eldri reglur, varðandi námsstyrki til starfsmanna leik-, grunn- og tónlistarskóla og til annarra starfsmanna Seltjarnarnesbæjar.

Síðast uppfært 19. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?