Fara í efni

Lyfjafræðisafnið

Í Lyfjafræðisafninu í Nesi er haldið til haga munum, myndum, bókum og skjölum er tengjast sögu lyfjafræðinnar. Í safninu eru til sýnis helstu tæki sem notuð hafa verið til lyfjagerðar og sýnishorn af apóteksinnréttingum frá fyrstu tugum síðustu aldar.

Lyfjafræðisafnið var formlega stofnað í apríl 1985 á sama tíma og stórstígar breytingar urðu í íslenskum apótekum. Lyfjaframleiðsla í apótekum var að líða undir lok og því mikið af tækjum og munum sem ekki voru lengur í notkun. Nokkrir lyfjafræðingar höfðu haldið til haga ýmsum hlutum en árið 1978 var stofnuð nefnd innan Lyfjafræðingafélags Íslands og Apótekarafélags Íslands til að safna minjum tengdum lyfjafræði.

Fyrsta verkefnið var að huga að húsnæði fyrir safnið. Við eftirgrennslan kom í ljós að fjósið sem tilheyrði Nesstofu var falt og var það talinn álitlegur kostur. Gengið var frá kaupsamningi haustið 1986 og með samstilltu átaki lyfjafræðinga og lyfjafyrirtækja tókst að eignast húsið og endurbyggja það. Lyfjafræðingar unnu mikla sjálfboðavinnu við húsbygginguna og uppsetningu safnsins.

Að öðrum ólöstuðum er það trúlega Ingibjörg Böðvarsdóttir, sem á stærstan þátt í uppbyggingu safnsins ásamt Áslaugu Hafliðadóttur, Axel Sigurðssyni, Kristínu Einarsdóttur og Sverri Magnússyni, sem öll sátu í undirbúningsnefndinni og fyrstu stjórn safnsins.

Hlutverk og markmið

Lyfjafræðisafnið er sjálfseignarstofnun í tengslum við Lyfjafræðingafélag Íslands. Í stjórn safnsins eru lyfjafræðingar, kosnir á aðalfundi Lyfjafræðingafélagsins til fjögurra ára í senn. Safnhúsið er skuldlaus eign allra lyfjafræðinga á Íslandi. Safnið starfar samkvæmt skipulagsskrá fyrir Lyfjafræðisafnið.

Núverandi stjórn safnsins er skipuð sex lyfjafræðingum, sem hittast vikulega og vinna við flokkun og skráningu safnmuna. Stjórnina skipa Brynhildur Briem, formaður stjórnar, Finnbogi Rútur Hálfdanarson, varaformaður, Guðlaug Björg Björnsdóttir, ritari, Hjördís Claessen og Sigurður Traustason, gjaldkeri. Varamaður er Vigfús Guðmundsson. Hollvinir safnsins eru Guðfinna Guðmundsdóttir, Halldóra Ásgeirsdóttir, Hildigunnur Hlíðar, Kristín Einarsdóttir, Mímir Arnórsson, Sigríður Siemsen og Þorbjörg Kjartansdóttir.

Síðast uppfært 16. október 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?