Fara í efni

Steinunn Þórarinsdóttir - Skuggar

Álskúlptúrinn Skuggar var upphaflega unninn fyrir einkasýningar sem Steinunn Þórarinsdóttir (fædd 1955) hélt í Danmörku og Svíþjóð 1998. Ári síðar, þegar Seltjarnarnesbær bað hana um verk til leigu á þar til gerðum stað við Suðurströnd, varð þetta verk strax fyrir valinu, því, eins og listakonan segir, ;það var eins og það hefði verið búið til fyrir staðinn". 

Ár: 1998.
Efni: ál.
Stærð: 180 x 80 x 80 cm.
Staðsetning: við Suðurströnd.

 

Verkið reyndist falla svo vel inn í umhverfið að þegar leigutíminn rann út var ákveðið að bærinn keypti verkið og kæmi því þar fyrir til frambúðar. Verkið er myndað úr tveimur persónum steyptum í sama mót sem halla sér hvor að annarri án þess að snertast. Þær eru nákvæmlega eins, horfa hvor í sína áttina og tengsl þeirra eru yfirborðsleg því ekkert samband myndast þeirra á milli. Verkið er hugleiðing um þörf mannsins til að leita stuðnings hjá öðrum en gengur um leið út frá þeirri staðreynd að hann sé þegar allt kemur til alls einn með sjálfum sér. Vélræn áferð álsins vísar til fjöldaframleiðslu og neyslu og undirstrikar ópersónuleg tengsl manneskjanna. Hver er skuggi hvers? spyr þetta látlausa en formfallega verk í grjótinu milli hafs og lands.

Texti eftir Ásdísi Ólafsdóttur, listfræðing.

Hljóðleiðsögn um listaverkið "Skuggar". Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur les.

Ýtið á "play" takkann fyrir neðan til að spila hljóðleiðsögn.

Síðast uppfært 18. maí 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?