Fara í efni

Bæjarstjórn

589. fundur 10. mars 2004

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Stefán Bergmann, Bjarni Torfi Álfþórsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð síðasta fundar staðfest.

1. Lögð var fram til síðari umræðu langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2005 til 2007.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Langtímafjárhagsáætlun 2005 til 2007 var samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa meirihlutans en 3 fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Jónmundar Guðmarssonar bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
“Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2005 til 2007 undirstrikar enn og aftur álit sérfræðinga um trausta fjárhagsstöðu bæjarsjóðs, sem farið hefur batnandi milli ára. Áætlunin ber vitni um nýja framfarasókn í þjónustu við íbúa og framkvæmdum á næstu árum. Gangi áætlunin eftir verður á næstu þremur árum varið rúmlega einum milljarði króna til nýframkvæmda á sviði fræðslumála, íþrótta-, heilsueflingar og öldrunarþjónustu. Að auki er gert ráð fyrir fjárveitingum til ýmissa annarra umbótamála, svo sem lagningu ljósleiðara inn á hvert heimili, endurbóta á Nesstofu og umhverfi hennar, lokafrágangi á fráveitumálum bæjarins, veglegu gatnagerðarátaki og fegrun bæjarins.
Langtímaáætlunin undirstrikar einnig áframhaldandi skilvirkni í rekstri, markvissa niðurgreiðslu langtímalána og metnaðarfulla þjónustu við íbúa á hagkvæmum skattkjörum. Hvorki er gert ráð fyrir hækkun á álagningarstuðli opinberra gjalda á tímabilinu né töku nýrra langtímalána. Þvert á móti er stefnt að því að Seltjarnarnes verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga hvað snertir lágar álögur á íbúa en samkeppnisfæra þjónustu við bæjarbúa og sterka fjárhagsstöðu.
Forsendur rekstrargjalda árin 2005 - 2007 eru eftirfarandi og taka mið af rauntölum bæjarsjóðs síðustu ár og fyrirliggjandi gögnum á þróun efnahagsmála á næstu árum:
· Gert er ráð fyrir 5 % hækkun skatttekna árið 2005, 4,5% árið 2006 og 4% árið 2007.
· Gert er ráð fyrir 3% hækkun almennra rekstrargjalda árin 2005, 2006 og 2007.
· Gert er ráð fyrir 5% hækkun launa árið 2005, 4,5% árið 2006 og 3,5% árið 2007.

Áætlunin gerir ekki ráð fyrir íbúafjölgun á Seltjarnarnesi þar sem deiliskipulag vegna Hrólfsskálamels og Suðurstrandar liggja ekki fyrir á þessu stigi. Á hinn bóginn er raunhæft að gera ráð fyrir hóflegum tekjum vegna uppbyggingar umræddra svæða. Þannig er gert ráð fyrir 400 milljóna króna tekjum vegna verkefnisins, sem m.a. er ráðstafað til byggingar á fyrirhuguðu hjúkrunarheimili og gagngerra endurbóta á Sundlaug Seltjarnarness. Með langtímaáætluninni stefnir því í að tvö framfaramál sem stefnt hefur verið að um langt skeið verði að veruleika án þess að íbúum sé íþyngt með álögum eða aukningu langtímaskulda. Rúmum 80 mkr. óráðstafað á tímabilinu. Er það gert i varúðarskyni, til að mæta sveiflum í rekstri eða nýjum framkvæmdum svo sem við skólamannvirki bæjarins sem notið hafa forgangs í viðhaldi og nýframkvæmdum síðustu ár.”

Jónmundur Guðmarsson
bæjarstjóri
(sign)


Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Langtímafjárhagsáætlun 2005-2007 liggur nú fyrir. Fulltrúar NESLISTANS telja að langtímafjárhagsáætlunin einkennist af óraunsærri bjartsýni. Að venju eru forsendur tilgreindar með hástemmdum lýsingarorðum hjá meirihlutanum. Í lið 6 segir: “Gert er ráð fyrir að umfangsmiklu viðhaldsátaki ljúki á árinu 2006. Öll skólamannvirki, grunnskóli, tónlistarskóli, leikskólar verði þá í fremstu röð hvað varðar allan aðbúnað og skólahúsnæði”.
Síðan er gert ráð fyrir 20M kr. á næsta ári til viðbótar þeim 23 M kr sem eru áætlaðar í Mýrarhúsaskóla á árinu 2004. Það er ljóst að þessi fjárhæð sem meirihlutinn ætlar í þetta verkefni er hvergi nálægt þeim raunkostnaði sem liggur fyrir að nauðsynlegt er að verja til skólanna vegna viðhalds og endurbóta. Kostnaður við mötuneyti í Mýrarhúsaskóla er t.a.m. áætlaður 13 - 15 M. Það liggur fyrir mat á endurbótum sem eftir eru í Valhúsaskóla, sem er á bilinu 70 - 100 M. Ekki liggur fyrir ákveðin upphæð í Mýrarhúsaskóla en varlega má áætla að það sé um 100 M.
Hvað varðar gerð fótboltavallar er gert ráð fyrir samtals 80 M á þessu ári og því næsta. Það hefur endurtekið komið fram að byggja skuli völl af D stærð en sú umræða hefur ekki farið fram hjá viðkomandi fagnefnd.
Þessi áætlun er óraunhæf að okkar mati varðandi þessi mikilvægu verkefni. Fulltrúar NESLISTANS munu áfram sem hingað til styðja góð verkefni en langtímafjárhagsáætlun er stefnuyfirlýsing sjálfstæðismanna og fulltrúar NESLISTANS hafa hvergi komið nærri gerð hennar.
Fulltrúar Neslistans munu því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.”
Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson Stefán Bergmann
(sign) (sign) (sign)

2. Lögð var fram fundargerð 36. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness dagsett 04. mars 2004 og var hún í 8 liðum.
Til máls tóku: Stefán Bergmann og Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

3. Lögð var fram fundargerð 2. fundar árisins 2004 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis dagsett 23. febrúar 2004 og var hún í 9 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

4. Lögð var fram fundargerð 3. fundar árisins 2004 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 26. febrúar 2004 og var hún í 1 lið.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

5. Lögð var fram fundargerð 14. fundar samstarfsnefndar Starfsgreinarsambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga, dagsett 25. febrúar 2004 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6. Lögð var fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs dagsett 17. febrúar 2004 og var hún í 10 liðum.
Til máls tók: Stefán Bergmann.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7. Lögð var fram fundargerð 35. fundar stjórnar Strætó bs., dagssett 27. febrúar 2004 og var hún í 5 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8. Erindi og tillögur:
a) Lagt var fram bréf Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis dagsett 25. febrúar 2004 varðandi gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit ásamt gjaldskránni.
Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.
Gjaldskráin var samþykkt samhljóða.
b) Lagt fram bréf Höganäs Kommun varðandi vinabæjarmót sem halda á þar dagana 10. og 11. júní 2004.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Árni Einarsson
Erindinu vísað til vinabæjarnefndar.
c) Lagt var fram bréf óbyggðanefndar dagsett 23. febrúar 2004 varðandi kynningu á kröfum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á Suðvesturlandi.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Stefán Bergmann.
d) Lagt var fram bréf óbyggðanefndar dagsett 1. mars 2004 varðandi kynningu á kröfum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á Suðvesturlandi. Kröfulýsingargögn.
e) Lagt var fram bréf Strætó bs. dagsett 16. febrúar 2004 varðandi heildarendurskoðun leiðakerfis strætó.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Vísað til Skipulags- og mannvirkjanefndar.
f) Tekin var fyrir tillaga Neslistans frá síðasta fundi bæjarstjórnar, lið 8, um öflun tölfræðigagna um stöðu kynja í stjórnsýslu bæjarins og tilhögun jafnréttisfræðslu í skólum.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Tillagan var samþykkt samhljóða og henni vísað til félagsmálaráðs/jafnréttisnefndar.

Fundi var slitið kl. 17:35

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?