Fara í efni

Bæjarstjórn

599. fundur 21. júlí 2004

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð síðasta fundar staðfest.

Á fundinn mætti fulltrúi VSÓ Ráðgjöf ehf, Grímur Jónasson.

   

1.           Lögð var fram fundargerð 43. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 8. júlí 2004 og var hún í 12 liðum.

Til máls tóku: Inga Hersteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

2.           Lögð var fram fundargerð 44. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 13. júlí 2004 og var hún í 5 liðum.

Til máls tók: Inga Hersteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

3.           Lögð var fram fundargerð 45. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 16. júlí 2004 og var hún í 5 liðum.

Til máls tóku: Inga Hersteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Liður 3 í fundargerðinni var samþykktur samhljóða en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

4.           Lögð var fram fundargerð 284. (23.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness dagsett 12. júlí 2004 og var hún í einum lið.

Til máls tóku: Árni Einarsson, Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

5.           Lögð var fram fundargerð 57. fundar Veitustofnana Seltjarnarness, dagsett 9. júlí 2004 og var hún í 5 liðum.

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6.           Tillögur og erindi:

a)     Lagt var fram bréf Skipulagsstofnunar dagsett 8. júlí 2004 vegna auglýsingar á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981-2001.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Inga Hersteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Bæjarstjórn samþykkir að fulltrúar beggja aðila í bæjarstjórn geri sameiginlega tillögu um viðbótartexta við fylgiskjöl með aðalskipulagsuppdrætti sem afgreiddur var á 598. fundi bæjarstjórnar.

b)    Lögð var fram tillaga um deiliskipulag Hrólfskálamels og Suðurstrandar ásamt greinargerð.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Eftir kynningu Gríms Jónassonar og almenna umræðu var gengið til atkvæðagreiðslu.

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti með 4 atkvæðum meirihlutans en 3 fulltrúar minnihlutans sátu hjá, að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar (sbr. fskj.) á grundvelli ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 135/1997 með síðari breytingum.

 

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn lögðu fram eftirfarandi bókun:

Bæjarfulltrúar NESLISTANS sitja hjá við afgreiðslu á tillögu að deiliskipulagi Hrólfskálamels og Suðurstrandar og leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar NESLISTANS kjósa að sitja hjá við þessa afgreiðslu enda er tillagan að fara í ákveðið kynningarferli, þar sem bæjarbúum gefst kostur að  koma að sínum athugasemdum, og mun tillagan að öllum líkindum taka einhverjum breytingum í því ferli. Er því að svo stöddu ekki ástæða til að greiða atkvæði gegn tillögunni en gerum eftirfarandi athugasemdir við deiliskipulagstillöguna:

Fulltrúar NESLISTANS telja að fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga að Suðurströnd sé í ósamræmi við núverandi byggðamynstur á svæðinu, sem einkennist af lágreistri byggð. Við teljum og allt að 5 hæða blokkir og 114 íbúðir á þessum stað sé of mikið byggingarmagn og að nýtingarhlutfall sé of hátt.

Deiliskipulagstillagan að Hrólfskálamel er ekki skilgreind með fullnægjandi hætti og hugmundir um miðsvæðið því ekki nægilega vel unnar. Ekki er fyllilega ljóst hve mikið byggingarmagn deiliskipulagstillagan felur í sér á svæðinu og er ástæða til að hafa áhyggjur af því að það verði of mikið. Umferðarmálin við Mýrarhúsaskóla hafa ekki fengið nægilega umfjöllun, en fulltrúar NESLISTANS hafa ítrekað beðið um frekari skýringar á þessum mikilvæga þætti en því hefur ekki verið sinnt. Tillagan gerir ráð fyrir hringakstri um Mýrarhúsaskóla eldri og tvístefnu hringakstri um íbúðablokkir á Hrólfskálamel sem er óásættanlegt að okkar mati. Þarna er verið að skerða vesturlóð Mýrarhúsaskóla. Þá verður ekki séð að tillagan geri ráð fyrir mögulegri stækkun/viðbyggingu/endurnýjun við Mýrarhúsaskóla.

Bæjarstjórn samþykkti tillögu ÆSÍS um að gervisgrasvöllurinn lægi langsum með Suðurstönd en deiliskipulagstillagan felur í sér að völlurinn liggi þversum. Það þýðir að setja verður upp öryggisvegg við Suðurströnd og íbúðir við Skólabraut sem verður allt að 5.5 metrar að hæð og tugir metra á breidd og teljum við að slíkt mannvirki hafi  umtalsverð áhrif á ásýnd svæðisins.

Ekki hafa fengist ásættanleg svör varðandi aukna bílastæðaþörf  með tilkomu gervigrasvallar á svæðinu. Rætt er um að hún verði  leyst með samnnýtingu bílastæða svæðanna. Ekki er forsvaranlegt að leggja þá lausn til, þar sem ljóst er að mörg bílastæða innan svæðanna verða í einkaeign.

Þegar heildaraukning umferðar er skoðuð kemur í ljós að í deiliskipulagstillögunni er aðeins gert  ráð  fyrir aukningu umferðar vegna 114 íbúða á Suðurströnd, en ekki aukningu á umferð vegna íbúða á Hrólfskálamel og vegna miðsvæðis. Teljum við að áhrif aukinnar umferðar um svæðið sé vanmetin.

Fulltrúar NESLISTANS hafa áður mótmælt vinnubrögðum meirihlutans í skipulagsmálunum og er vísað til fyrri bókana um það. En rétt er að ítreka hér að einungis hefur verið unnið með eina tillögu í skipulags- og mannvirkjanefnd þrátt fyrir að starfshópur hafi átt að leggja fyrir  nefndina fleiri en eina tillögu til umfjöllunar.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson

                             (sign)                              (sign)                        (sign)

 

 

Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn lögðu fram eftirfarandi bókun:

Markviss vinna við gerð nýs deiliskipulags fyrir miðbæjarsvæðið hefur staðið í tæpt ár.  Formlegar tillögur að deiliskipulagi fyrir Hrólfsskálamel og Suðurströnd hafa verið til umfjöllunar hjá Skipulags- og mannvirkjanefnd á fimm fundum frá því í apríl sl.  Þar hafa hugmyndir ráðgjafa verið kynntar og ræddar, fjallað um sjónarmið íbúa og viðbrögð við þeim og lagt á ráðin um næstu skref  í skipulagsvinnunni hverju sinni.  Umræður hafa verið gagnlegar og uppbyggjandi og nefndin alltaf komist að sameiginlegri niðurstöðu þar til við afgreiðslu úr nefndinni 16. júlí sl. þegar fulltrúar minnihlutans tóku skyndilega upp á því að sitja hjá við afgreiðslu málsins og nú aftur í bæjarstjórn.

Þótt í hjásetu felist að ekki er tekin afstaða til máls og því ekki um andstöðu að ræða er ástæða er til að benda á eftirfarandi staðreyndir:

Við ákvörðun bæjarstjórnar frá maí 2003 um landnotkun á svæðinu lágu fyrir 5 mismunandi tillögur unnar af Alta ehf og Thompson Partners.   Samþykkti bæjarstjórn samhljóða að vinna á grundvelli tillögu 1A sem gerði ráð fyrir byggingu allt að 180 íbúða við Suðurströnd og á Hrólfskálamel auk gervigrasvallar af D stærð á Hrólfskálamel.

Vinnuhópur á vegum skipulagsnefndar fjallaði um aðrar 5 mismunandi grunntillögur um deiliskipulag svæðisins.  Að lokinni umfjöllun kynnti hópurinn þær fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd og mælti með einni þeirra sérstaklega. Samþykkti nefndin samhljóða að byggja frekari vinnu á henni og efna til kynningarfundar með íbúum um skipulagshugmyndina.  Við vinnslu hugmyndanna var haft víðtækt samráð við íbúa og hagsmunaaðila á nærliggjandi svæðum.  Þá leiddi markaðsrannsókn gerð af IMG Gallup í ljós að mikill áhugi væri á meðal Seltirninga um byggð á umræddum svæðum.

Eftir kynningu deiliskipulagshugmyndanna á mjög fjölmennum fundi var íbúum í fimm vikur gefinn kostur á að gera athugasemdir og hitta ráðgjafana í því skyni að afla frekari upplýsinga og/eða gera athugasemdir sem er nýlunda á þessu stigi skipulagsvinnunnar.  Nýttu fjölmargir íbúar sér þetta tækifæri og höfðu þannig áhrif á vinnslu málsins.

Á 41. fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 10. júní sl. var ráðgjöfum falið sérstaklega að útfæra mismunandi tillögur að hæð húsa við Suðurströnd með hliðsjón af ábendingum íbúa.  Var sú ákvörðun þverpólitísk.

Í heild voru útfærðar 5 mismunandi tillögur.    Á 42. fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 22. júní sl. voru þessar tillögur ráðgjafanna til umfjöllunar.  Nefndin ákvað sameiginlega að láta vinna deiliskipulagið miðað við tillögu E en þar er m.a. um að ræða 114 íbúðir við Suðurströnd og  3ja – 5 hæða byggingar.  Með lækkun húsa og verulegri fækkun íbúða var komið til móts við óskir íbúa á nærliggjandi svæðum.

Samþykkt nefndarinnar um að vinna deiliskipulag á þessum forsendum var samhljóða og  byggir fyrirliggjandi tillaga um deiliskipulag að öllu leyti á þeim.

Á 42. fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 22. júní sl var til umfjöllunar og afgreiðslu, tillaga að breytingu á aðalskipulagi Seltjarnarness. Þar er get ráð fyrir að gervigrasvöllur snúi þvert á Suðurströnd. Tillagan um að auglýsa tillöguna var samþykkt samhljóða, þ.m.t. svigrúm fyrir fjölda íbúða og staðsetning vallarins . 

Á fundi bæjarstjórnar hinn 30. júní sl. var þessi sama tillaga til umfjöllunar og afgreiðslu.

Tillagan um að auglýsa tillöguna var aftur samþykkt samhljóða, þ.m.t. svigrúm fyrir fjölda íbúða og staðsetning vallarins.

Til viðbótar er rétt að geta þess að fyrir liggur jákvæð umsögn stjórnar Knattspyrnudeildar Gróttu um stærð og legu vallarins skv. nýju aðalskipulagi sem og jákvæð umsögn Íþrótta- og æskulýðsráðs Seltjarnarness um sömu þætti.   Óskaði minnihlutinn sérstaklega eftir umsögn þessara aðila við vinnslu deiliskipulagsins og því athyglisvert að minnihlutinn virðist nú vilja snúa vellinum við að nýju andstætt eigin ákvörðunum á fyrri stigum, óskum íþróttafélagsins og umsögn viðkomandi fagnefndar.

Tillaga að deiliskipulagi sem afgreidd var í Skipulags- og mannvirkjanefnd hinn 16. júlí sl. er í fullu samræmi við umfjöllun í nefndinni og þær forsendur sem samþykktar voru samhljóða á ofangreindum fundum bæjarstjórnar og Skipulags- og mannvirkjanefndar.

Ofangreindar staðreyndir undirstrika að minnihluti skipulagsnefndar og bæjarstjórnar hefur því allt frá fyrstu hendi verið virkur þátttakandi í skipulagsvinnunni, haft efnisleg áhrif á þróun verkefnisins, haft tækifæri til að koma að ákvörðunum um vinnslu þess á öllum stigum og í reynd samþykkt allar forsendur nýs deiliskipulags. Jafnframt er óhætt að segja að á öllum stigum máls hafi ólíkir kostir verið fyrir hendi ásamt svigrúmi til að ræða ólíkar leiðir og leggja áherslur því alls hafa um 15 tillögur komið til álita og umfjöllunar á mismunandi stigum.

Jónmundur Guðmarsson                            Ásgerður Halldórsdóttir

  (sign.)                                                        (sign.)

Inga Hersteinsdóttir                                   Bjarni Torfi Álfþórsson

     (sign.)                                                        (sign.)

 

 

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn lögðu fram eftirfarandi bókun:

Eins og fram kemur í fyrri bókun Neslistans hefur minnihlutinn lagt fram ýmsar athugasemdir bæði í formi bókana og munnlega á fundum Skipulags og mannvirkjanefndar og í bæjarstjórn. Minnihlutinn hefur ekki á neinu stigi reynt að tefja málsmeðferðina. Í fyrri bókun minnihlutans koma fram efnislegar ábendingar um atriði sem við teljum mikilvægt að farið sé mun betur ofan í en gert hefur verið.

          Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson

                             (sign)                              (sign)                        (sign)

      

        Fundi var slitið kl. 18:42

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?