Fara í efni

Bæjarstjórn

11. maí 2017

Miðvikudaginn 10. maí 2017  kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS),  Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).

Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson  setti fund og stjórnaði.

Undir lið 1. sat Auðunn Guðjónsson

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016, síðari umræða.
  Á fundinn undir þessum dagskrárlið eru mætt Auðunn Guðjónsson endurskoðandi Seltjarnarnesbæjar og Guðný Helga Guðmundsdóttir frá KPMG.
  Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ræddi ársreikning 2016 og gerði grein fyrir niðurstöðum hans.
  Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2016.  Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2016 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.
  Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi.  Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61.gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
  Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2016 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfsskálamel ehf., Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness og Félagsheimili Seltjarnarness.
  Gert var fundarhlé til að undirrita ársreikning 2016 frá  kl. 17:11

  Fundur aftur settur  kl. 17:18
  Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.
  Til máls tóku: ÁH, ÁE, GAS

  Bókun meirihlutans:
  Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 sem tóku gildi í ársbyrjun 2012 ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum samkvæmt 64. grein. Framangreindri skyldu skulu sveitarstjórnir m.a. fullnægja með því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B hluta séu á hverju ári ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum.
  Samþykkt fjárhagsáætlun á hverju ári er stýritæki til að fylgjast með og bera saman við rauntölur. Verksviði stjórnenda einstakra sviða og stofnana er að fylgjast með því að fjárhagsáætlunum sé framfylgt og að bregðast við ef út af bregður, hvort sem frávik varða rekstur eða framkvæmdir. Mikilvægt er að lögð sé fram vönduð fjárhagsáætlunargerð og eftirlit með þróun raunkostnaðar sé mjög virkt, en það er eitt áhrifamesta stjórntæki í rekstri hvers bæjarfélags.
  Óhjákvæmilegt getur verið að gera viðauka við fjárhagsáætlun innan ársins. Slíkir viðaukar á liðnu ári voru fáir, samþykktir samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn.
  Rekstrarniðurstaða varð jákvæð um 70 m.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 68 m.kr. Nýir kjarasamningar og hækkanir vegna starfsmats á liðnu ári hækkuðu laun og tengd gjöld um á árinu og endurmat á lífeyrisskuldbindingum hækkaði einnig verulega milli ára.
  Þótt launaútgjöld bæjarins hafi orðið nokkru hærri en gert var ráð fyrir tókst að draga úr öðrum rekstrarútgjöldum á móti. Meirihlutinn leggur áherslu á ársreikningur fyrir árið 2016 sýnir góða fjárhagsstöðu jafnframt því að álögum á íbúana er haldið í lágmarki eins og áður. Ársreikningur bæjarins fyrir árið 2016, sýnir ábyrga fjármálastjórn, gott innra eftirlit sem þakka má starfsmönnum bæjarins. Meirihlutinn þakkar minnihlutanum gott samstarf á sl. ári.
  Ásgerður Halldórsdóttir (sign), Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Sigrún Edda Jónsdóttir (sign), Magnús Örn Guðmundsson (sign).

  Bókun Samfylkingar:
  Bæjarfulltrúar Samfylkingar samþykkja fyrirliggjandi ársreikning Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 með ábendingum sem fram koma í eftirfarandi bókun:
  Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 er jákvæð um 70 milljónir króna en það er svipað og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætluninni sem er jákvæður umsnúningur á neikvæðri niðurstöðu frá árinu áður. Sé litið til gjaldahliða einstakra málaflokka sést að almennt hefur gengið vel að halda fjárhagsáætlun. Þessu ber að fagna og þakka ber öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstaklega fyrir vel unnin störf.
  Hvað varðar fjárfestingar í A og B hluta þá eru þar ákveðin frávik þegar ársreikningar eru bornir saman við fjárhagsáætlun og erfitt er að átta sig á stöðu þeirra framkvæmda sem áætlunin gerði ráð fyrir að ráðist yrði í á árinu. Það skiptir máli að kjörnir fulltrúar hafi yfirsýn yfir hvort farið hafi verið í þær fjárfestingar sem fjárhagsáætlun hefur gert ráð fyrir. Þá teljum við afar mikilvægt að allar ákvarðanir bæjarstjórnar er varða fjárfestingar séu samþykktar með viðaukum eins og fram kemur í endurskoðendaskýrslunni. Það eykur gagnsæi og er í samræmi við sveitarstjórnarlög.
  Margrét Lind Ólafsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  Bókun Neslistans:
  Samkvæmt ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 stendur sveitarfélagið vel fjárhagslega. Skuldir eru litlar fyrir utan lífeyrissjóðsskuldbindingar sem ekki verða til innan hefðbundins reksturs. Vaxtakostnaður sveitarfélagsins er þess vegna afar lítill og kemur sér vel fyrir reksturinn.
  Rekstrartekjur jukust frá fyrra ári um 10,6%, en laun og launatengd gjöld að meðtalinni hækkun vegna lífeyrisskuldbindinga, um einungis 2% og annar rekstrarkostnaður um rúm 9%. Hluti af rekstrartekjum er framlag Jöfnunarsjóðs sem hækkar um rúm 22% á milli ára.
  Heildarniðurstaða ársins er því sú að reksturinn, fyrir utan afskriftir, fjármuntekjur og fjármunagjöld, skilar rúmlega 160 milljóna króna afgangi í stað rúmlega 27 milljóna króna rekstrarhalla árið 2015. Sé aðeins horft til aðalsjóðs þá er rekstrarniðurstaða hans um 62 milljónir í stað 127,6 milljóna króna halla árið 2015. Þetta er ánægjulegur viðsnúningur.
  Taka ber undir ábendingar endurskoðenda sem fram koma í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2016 að mikilvægt sé að ákvarðanir bæjarstjórnar um fjárfestingar séu færðar í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í samræmi við sveitarstjórnarlög. Á þessu hefur verið nokkur misbrestur sem auðvelt að bæta með því að gæta þess að samþykkja viðhlítandi viðauka við fjárhagsáætlun þegar ákvarðanir eru teknar um að víkja frá áður samþykktri áætlun og tryggja þannig nauðsynlegt gagnsæi. Nokkuð hefur áunnist í að ná fram jöfnuði í rekstri Áhaldahússins, en þar þarf að gera betur, eins og fram kemur í endurskoðunarskýrslunni. Hið sama á við um rekstur Eignasjóðs, en rekstrarniðurstaða hans er neikvæð sem nemur rúmlega 48 milljónum á móti rúmlega 19 milljónum króna árið 2015.
  Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
 2. Fundargerð 60. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
  Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 60  voru borin upp til staðfestingar:

  Mál.nr.
  2013060016
  Heiti máls: Vestursvæði deiliskipulagsbreyting.
  Lýsing: Uppfærð svör við athugasemdum lögð fram.
  Afgreiðsla: Samþykkt að senda til bæjarstjórnar til staðfestingar i samræmi við skipulagslög 123/2010.
  Bæjarstjórn frestar afgreiðslu til næsta fundar.

  Mál.nr.
  2014110033
  Heiti máls: Valhúsahæð og grannsvæði tillaga um deiliskipulag.
  Lýsing: Uppfærð greinargerð lögð fram eftir athugasemdir frá Skipulagsstofnun.
  Afgreiðsla:  Nefndin leggur til eftirfarandi breytingu í kafla 3.4:
  Á lóðum parhúsanna Kirkjubraut 4-18 er veitt heimild skv. deiliskipulagi þessu til að reisa sólstofur út frá stofurýmum, mest 4,0 m frá aðalbyggingu og mest 18 m2 að grunnfleti.
  Samþykkt að senda til bæjarstjórnar til staðfestingar i samræmi við skipulagslög 123/2010.
  Bæjarstjórn frestar afgreiðslu til næsta fundar.
  Til máls tóku: GAS, MLÓ, ÁH, BTÁ
 3. Fundargerð 399. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: MÖG, ÁH, GAS, MLÓ
 4. Fundargerð 412. fundar Fjölskyldunefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: MLÓ
 5. Fundargerð 276. fundar Umhverfisnefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
 6. Fundargerð 263. fundar stjórnar Strætó bs.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: GAS, SEJ, ÁH
 7. Fundargerð 442. fundar stjórnar SSH.
  Fundargerðin lögð fram.
 8. Tillögur og erindi:
  a)  Samþykkt að skipa Árna Ármann Árnason, Nesbala 24,  í undirnefnd undir félagsmálasviði um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á Seltjarnarnesi í stað Bjargar Ólafsdóttur.

Til máls tóku: ÁH

Fundi var slitið kl.: 17:39

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?