Fara í efni

Bæjarstjórn

26. maí 2021

Miðvikudaginn 26. maí 2021 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í bæjarstjórnarsal að Austurströnd 2.

Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2020, síðari umræða.

    Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Sturla Jónsson endurskoðandi frá Grant Thornton sem kynnti ársreikning 2020 og endurskoðunarskýrslu 2020.

    Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.

    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2020. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2020 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.

    Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 2. tl. 1 mgr. 18. gr. laganna.

    Samþykktinni til staðfestingar er ársreikningurinn undirritaður af viðstöddum bæjarfulltrúum.

    Til máls tóku: GAS, SB, ÁH, MÖG, KPJ


    Bókun Samfylkingar:
    Nú hefur ársreikningur Seltjarnarnesbæjar verið kynntur og tvær umræður hafa farið fram um reikninginn í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar. Við þetta tilefni viljum við senda þakkir til starfsfólks Seltjarnarnesbæjar sem hélt uppi þjónustu bæjarins á erfiðum tímum og starfaði stór hluti í framlínustörfum í gegnum Covid-19 faraldurinn sem einkenndi árið 2020. Takk fyrir ykkar framlag.

    Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar sýnir að taprekstur A sjóðs Seltjarnarnesbæjar er kominn yfir 1 milljarð á síðastliðnum 6 árum en A sjóður er sá hluti rekstursins sem fjármagnaður er af sköttum íbúa. A sjóður heldur utan um þá þjónustu sem bærinn veitir og má nefna sem dæmi skóla- og félagsþjónustu og menningar-, íþrótta- og æskulýðsstarf. Þetta þýðir að bærinn er að veita þjónustu sem kostar hundruðum milljóna meira en bærinn er að fá í tekjur. Rekstur Seltjarnarnesbæjar er þar af leiðandi ósjálfbær ef ekki verður gripið til þess að skera niður þjónustu eða auka tekjur.

    Í umræðu um ársreikning bæjarins lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram einfaldar spurningar sem hljóðuðu svo: Hvernig ætla bæjarfulltrúar meirihlutans að snúa við hallarekstri bæjarins? Liggur fyrir áætlun um hvernig eigi að auka tekjur eða draga úr kostnaði?

    Þessum spurningum var ekki svarað en vísað var í Covid sem er ekki fullnægjandi útskýring á hallarekstri síðastliðinna 6 ára upp á 1 milljarð. Forseti bæjarstjórnar fór mikinn í fyrri umræðu um ársreikninginn, bæði á bæjarstjórnarfundi og í fjölmiðlum eftir fundinn. Það verður að segjast að það fer forseta bæjarstjórnar sveitarfélags sem skilar taprekstri ár eftir ár ekki vel að verða reiður þegar hann er spurður málefnalega út í það hvernig hann ætlar að hætta að eyða skattpeningum bæjarbúa umfram fjárheimildir.

    Það er mjög erfitt að vera hluti af bæjarstjórn sem getur ekki lagt fram framtíðarsýn eða sýnt fram á hvernig mæta eigi uppsafnaðri viðhaldsþörf á stofnunum bæjarins, hvernig eigi að verja núverandi þjónustustig og hvað þá ráðast í þróunarverkefni og framkvæmdir sem margoft er búið að lofa bæjarbúum og starfsfólki. Dæmi um slíkt loforð sem efna átti á kjörtímabilinu er bygging nýs leikskóla. Það liggur fyrir að sú framkvæmd mun kosta 1,5-2,5 milljarða sem bæjarfélagið á ekki til og erfitt er að sjá hvernig hægt er að bæta háum afborgunum við rekstur bæjarins sem ekki er í jafnvægi.

    Það er hlutverk okkar sem sitjum í bæjarstjórn að leggja fram framtíðarsýn og hafa hugrekki til að taka pólítískar ákvarðanir sem stuðla að efnahagslegri, félagslegri og umhverfislegri sjálfbærni sveitarfélagsins. Íbúar hafa mótmælt harðlega gjaldskrárhækkunum og þjónustuskerðingum meirihlutans á kjörtímabilinu og sýnir þjónustukönnun Gallup að bæjarbúar eru að missa traust á stjórnvöldum á Seltjarnarnesi og eru óánægðari með þjónustu bæjarins ár eftir ár. Það er augljóst að með þessu eru íbúar að hafna niðurskurðarstefnu meirihlutans og krefja Seltjarnarnesbæ um að snúa vörn í sókn þegar kemur að þjónustu við íbúa. Þessum kröfum þarf bæjarstjórn Seltjarnarness að mæta með skýrri áætlun um hvernig við ætlum að snúa við rekstrinum á sama tíma og við stöndum vörð um þá þjónustu sem íbúar kalla eftir.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga


    Bókun meirihluta.
    Eins og fram kemur í áliti endurskoðanda bæjarins þá gefur ársreikningurinn glögga mynd af afkomu Seltjarnarnesbæjar á árinu 2020 í samræmi við lög um ársreikninga og aðrar reglur um reikningsskil sveitarfélaga.

    Tekjum sveitarfélagsins má gróflega skipta í þrennt, skatttekjum, framlagi jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og þjónustutekjur í A- og B- hluta. Útsvar hækkaði um 4% á milli ára en rétt er að benda á að framlög jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækkaði um 8%. Aðrar tekjur dragast saman um 17% milli ára, ástæður eru helst tilkomnar vegna áhrifa kórónaveirufaraldurins.

    Seltjarnarnesbær er stærsti einstaki vinnuveitandinn á Seltjarnarnesi, launakostnaður sveitarfélagsins nam 2.684,3 mkr. á árinu 220 og meðalfjöldi stöðugilda var 279 á árinu 2020 samanborið við 286 á árinu 2019.

    Seltjarnarnesbær uppfyllir fjárhagsleg viðmið sem sett eru í sveitarstjórnarlögum, ef frá er talin jafnvægisreglan, en halli hefur verið á rekstri undanfarin ár. Vorið 2020 samþykkti Alþingi sérstaka undanþáguheimild til sveitarfélaga um fjárhagsleg viðmið sem gildir út árið 2025.

    Rekstrarniðurstaða ársins er neikvæð um 230 mkr. sem er lakari afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það skýrist helst af lægri tekjum, atvinnuleysi, minnkandi framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til málefna fatlaðs fólks og Covid kostnaðar. Rekstur málaflokk gekk almennt vel og í samræmi við fjárhagsáætlun. Töluvert var framkvæmt á árinu og öllu ungu fólki boðin vinna sumarið 2020 sem sóttu um störf. Óumdeilt er að áhrif faraldurins hefur haft veruleg áhrif á rekstur bæjarfélagsins. Atvinnuleysi er um 10% í dag á Nesinu, sem hefur veruleg áhrif á útsvarstekjur.

    Ársreikningur Seltjarnarnes fyrir árið 2020 endurspeglar þá erfiðu stöðu sem sveitarfélög hafa búið við í heimsfaraldri en einnig sterka stöðu bæjarins og hversu sterkur rekstur bæjarins er. Það liggur líka fyrir að myndin varð allt önnur fyrir síðasta ár vegna áhrifa Covid-19 á reksturinn. Við stóðum frammi fyrir lækkun tekna og auknum kostnaði. Þá jókst kostnaður vegna velferðarmála. Þess verður þó að geta að Seltjarnarnesbær er betur í stakk búin að mæta þessum frávikum þar sem rekstur og efnahagur bæjarins er sterkur. Engin langtímalán voru tekin á árinu 2020 og skuldahlutfall bæjarins lágt. Lántökur bæjarins hafa einvörðungu verið vegna verkefna sem samstaða í bæjarstjórn hefur staðið um m.a. byggingu hjúkrunarheimilis og stækkun íþróttamiðstöðvar svo stærstu liðirnir sem taldir upp. Seltjarnarnesbær er rekið af ábyrgð og festu með áherslu á velferðarmál og grunnþjónustu.

    Ásgerður Halldórsdóttir sign Magnús Örn Guðmundsson sign Sigrún Edda Jónsdóttir sign Bjarni Torfi Álfþórsson sign.


    ,,Ásgerður bæjarstjóri, enn og aftur vil ég þakka starfsfólki bæjarins fyrir að verja og tryggja þjónustu við íbúa bæjarins á liðnu ári og standa vörð um reksturinn í skugga heimsfaraldurs. Einnig vil ég þakka kjörnum bæjarfulltrúum og nefndarfólki fyrir þeirra þátt í þeim árangri sem við höfum náð.“


    Bókun Viðreisnar/Neslista:
    Að lokinni 2. umræðu um ársreikning Seltjarnarnesbæjar 2020 vill bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista hnykkja á eftirfarandi:
    Stefna Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi um lægra útsvar og betri þjónustu í okkar 4700 manna sveitarfélagi er gjaldþrota. Um það vitnar þverrandi ánægja bæjarbúa með þjónustu og milljarðs halli á A-hluta undanfarin sex ár.
    Staða fjármála bæjarins verður ekki leyst með ómálefnalegum athugasemdum gagnvart fulltrúum minnihlutans í fjölmiðlum og Nesfréttum. Eingöngu fagleg og heiðarleg skoðun á öllum fjármálum, rekstri og þjónustu bæjarins mun skila ásættanlegri niðurstöðu.

    Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista

  2. Fundargerð 118. fundar Bæjarráðs.
    Eftirfarandi liður í fundargerð Bæjarráðsfundar nr. 118, liður 2 var borin upp til staðfestingar.

    Viðauki 1 við fjárhagsáætlun.

    Bæjarstjórn samþykkir, 2. tl. fundargerðar 118, viðauka nr. 1 við fjárhagsáætlun 2021 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, kostnað að upphæð kr. 91.860.890,- vegna launbreytinga skv. nýjum kjarasamningum, kostnaðaraukningu vegna grunnskólanemenda í öðrum sveitarfélögum kr. 15.356.614,- og kostnaðaraukningu vegna leikskólabarna í leikskólum í öðrum sveitarfélögum, kr. 10.500.000,- . Einnig auknar tekjur að upphæð kr. 117.717.504,- sem eru vegna aukinna útsvarstekna. Ekki verður um kostnaðarauka að ræða.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lið 2 í fundargerð, viðauka 1.

    Ákvörðun sem fram koma í fundargerðinni sem er 10 tl. er staðfestur samhljóða.

    Til máls tóku: SB, SEJ, KPJ, GAS, ÁH


    Bókun Samfylkingar:
    Við hörmum þá stöðu sem upp er komin með inntöku leikskólabarna fyrir haustið 2021. Fyrir kjörtímabilið lofuðu stjórnmálamenn að byggja nýjan leikskóla á kjörtímabilinu, bæta aðstæður starfsfólks og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Staðan er hins vegar sú að þegar ár er eftir að kjörtímabilinu að skipulagsvinnu við leikskólareitinn er ekki lokið, skipulagsrými per starfsmann hefur minnkað og bærinn getur ekki staðið við óbreyttan inntökualdur án þess að bæta við tímabundnu húsnæði á þeim reit sem reisa á nýjan leikskóla.

    Foreldrar hafa síðastliðnar vikur lýst yfir óánægju sinni ef færa ætti inntökualdur barna ofar og starfsfólk og stjórnendur leikskólans hafa mótmælt harðlega ef ráðast eigi í frekara plástra með skömmum fyrirvara. Nú er ljóst að bærinn hefur sent út bréf á foreldra um að tekin verða inn börn sem ekki er pláss fyrir í núverandi leikskólahúsnæði án samráðs við leikskólastjórann sem heyrði af bréfinu frá íbúum út í bæ.

    Þessi staða er mjög alvarleg enda er ómögulegt að halda úti öflugu leikskólastarfi og hvað þá fjölga deildum án góðs samráðs við starfsfólk og stjórnendur leikskólans. Staðan er afleiðing af seinagangi stjórnar Seltjarnarnesbæjar við uppbyggingu og endurbætur á leikskólanum sem hefur verið í umræðunni frá árinu 2002. Stjórnendur bæjarins þurfa að vinna hörðum höndum að því að byggja upp traust og trúverðugleika starfsfólks og íbúa um að okkur sé alvara um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla með nýrri og bættri aðstöðu fyrir börn og starfsfólk leikskólans.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  3. Fundargerð 313. fundar Skólanefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: GAS, SEJ

  4. Fundargerð 306. fundar Umhverfisnefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

  5. Fundargerðir 451. og 452. fundar Fjölskyldunefndar.
    Fundargerðirnar lagðar fram.

  6. Fundargerð 61. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
    Fundargerðin lögð fram.

  7. Fundargerð 339. fundar stjórnar Strætó bs.
    Fundargerðin lögð fram.

  8. Fundargerð 32. Eigendafundar Sorpu bs.
    Fundargerðin lögð fram.

Fundi slitið kl. 18:20

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?